08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

16. mál, fjárlög 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg hefi ekki ástæðu til annars en að þakka hv. fjvn. fyrir starf hennar að þessu sinni við fjárlagafrv.; hún hefir unnið fljótt og ósleitilega að því að afgreiða frv. frá sjer, svo að það er næstum því óvenjulegt. Jafnframt verð jeg líka að taka það fram, að mjer virðist hv. fjvn. háfi í raun og veru sýnt mikla sjálfsafneitun í þeim brtt., sem hún flytur við frv., jeg meina sjálfsafneitun í því, að samkv. hennar till. eru ekki líkur til þess, að útgjöld ríkissjóðs vaxi að miklum mun.

Það er eins og hv. d. veit, að þegar frv. kom hingað frá Nd., þá var á því tæplega 50000 kr. tekjuhalli. Ef átti að hugsa um, að fjárl. yrði skilað tekjuhallalausum frá þinginu, þá var vitanlega ekki hægt fyrir fjvn. þessarar hv. d. að bæta neinu verulegu inn í frv., nema þá með því móti að fella niður töluvert af þeim útgjaldaliðum, sem þegar voru komnir inn. Hv n. hefir nú valið þá leið, að gera mjög lítið af því að semja till. til útgjalda, og yfirleitt má segja, að brtt. hennar sjeu ekki stórvægilegar að efni til, og tel jeg það í rauninni vel farið, því að með því móti eru meiri líkur til þess, að hv. Nd. kunni að geta gengið að frv. eins og það fer hjeðan.

Nú þykist jeg vita, að í raun og veru sje það vilji margra, að fjárl. verði að lokum afgr. tekjuhallalaus, og það gladdi mig að heyra það frá hv. frsm. n., að hv. n. hefði í hyggju að reyna að stilla svo til, að það mætti takast hjer í þessari hv. d. Jeg geri sem sje ráð fyrir því, að hv. n. muni við 3. umr. koma með till., sem fari í þá átt að jafna þann halla, sem kann að verða á frv. eftir þessa umr.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fara að tala um einstakar brtt. hjá hv. n.; hún hefir gert till. um niðurfellingu á ýmsum smærri liðum í frv., en hinsvegar flytur hún smávægilegar till. til útgjalda. Þessar till. eru flestar þannig vaxnar, að það getur orkað tvímælis um það, hvort sje rjettara að samþ. þær eða ekki, og þýðir ekki að fara að vekja deilur um það, en á fjárhag ríkissjóðs hafa þessar smávægilegu till. ekki nein veruleg áhrif.

Hjer liggja fyrir nokkrar brtt. frá hv. þdm.; þær eru flestar líka fremur smávægilegar, og ætla jeg ekki að fara neitt út í þær, a. m. k. ekki að þessu sinni; mjer sýnist um þær eins og till. hv. n., að þdm. fari heldur hóflega af stað, jafnvel þótt jeg telji ýmsar þeirra óþarfar og ekki nauðsynlegt að samþ. þær. — Yfirleitt vildi jeg mega vænta þess, að hv. d. vildi styðja að því, að frv. yrði þannig úr garði gert, þegar það fer hjeðan, að það megi vel við una hvað fjárhag ríkissjóðs snertir.