08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

16. mál, fjárlög 1930

Halldór Steinsson:

Jeg á brtt. á þskj. 562, IX., sem jeg get verið mjög fáorður um. Þær brtt. fara fram á ofurlítið hækkaðan styrk til bókasafnsins í Stykkishólmi. Þetta bókasafn í Stykkishólmi var stofnað árið 1840, af Pjetri Pjeturssyni, þeim, er síðar varð biskup, og fleiri merkum mönnum, sem þá voru búsettir í Snæfellsnessýslu. Það má því telja víst, að þetta safn sje, að undanskildu Landsbókasafninu, langelsta bókasafn landsins. Á meðan það var undir stjórn amtsráðanna, sem áður rjeðu fyrir ömtunum, og þá undir stjórn amtsráðs vesturamtsins, mátti segja, að það væri vel sett, því það fjekk altaf ríflegan styrk. Þess vegna stóð hagur þess þá með blóma. En þegar þetta safn var gert að sýslubókasafni árið 1907, breyttist aðstaða þess algerlega, og má segja, að hagur þess hafi verið mjög þröngur síðan. Þetta safn er nú orðið 5500 bindi, og það er hægt að slá því föstu, að það er langstærsta bókasafn landsins, að undanskildu Landsbókasafninu. Þessu bókasafni hafa á undanförnum árum verið sendar þær bækur og rit, sem gefin hafa verið út á íslensku, en það er, eins og kunnugt er, allmikil syrpa, svo að sú litla fjárhæð, sem safnið hefir yfir að ráða, hefir öll gengið til bókbands, en aftur mjög lítið fje til kaupa á útlendum bókum, svo að á síðari árum má segja, að sama og ekkert hafi verið keypt af erlendum bókum fyrir safnið. Auk þess hefir síðan 1910 engin bókaskrá verið gefin út fyrir safnið, en það liggur þó í augum uppi, að það er full þörf á, að það sje gert oftar en á 20 ára fresti, þegar svo mikið af íslenskum bókum bætist við árlega, en það hefir ekki verið hægt sökum þess fjárskorts, sem safnið hefir átt við að búa.

Nú hefir það verið svo, síðan safnið var gert að sýslubókasafni, að það hefir altaf notið 400 kr. styrks úr sýslusjóði, og auk þess hefir Stykkishólmshreppur lagt fram 200 kr. árlega, m. ö. o., það hefir fengið innan hjeraðs 600 kr. styrk, og nú í ár hefir verið ákveðið, að sýslan legði fram 600 kr. og hreppsfjelagið 300, svo að í ár verður þá innanhjeraðsstyrkurinn 900 kr. Aftur á móti hefir það verið svo með ríkissjóðsstyrkinn, að lengi vel var hann 400 kr. árlega, en á síðasta ári var hann, um leið og styrkurinn til sýslubókasafna var lækkaður úr 1500 kr. niður í 1000 kr., lækkaður, svo að hann varð aðeins 200 kr., eða ekki nema 1/4 hluti þess styrks, sem safnið naut annarsstaðar frá, og það hygg jeg, að sje alveg einsdæmi um bókasöfn hjer á landi.

En þar sem nú svo stendur á, að þetta er næststærsta og næstelsta bókasafn landsins, finst mjer mæla full sanngirni með því, að það njóti tiltölulega sama hlutfalls um styrk úr ríkissjóði eins og önnur bókasöfn landsins. Ef borið er saman við bókasöfnin á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði, þá er enginn vafi á því, að þetta safn á eins mikinn rjett til styrksins og þau bókasöfn. En eins og jeg gat um áður, er fjárhagurinn mjög þröngur og brýn þörf á auknu rekstrarfje. Ennfremur er hús bókasafnsins orðið hrörlegt og þarf allmikilla umbóta við. Stj. bókasafnsins hefir þess vegna farið fram á það í beiðni sinni til Alþingis, að það veiti safninu 1200 kr. styrk til bókakaupa, og auk þess að rekstrarstyrkurinn verði 600 kr., í staðinn fyrir að hann var aðeins 200 kr. síðastl. ár.

Jeg hefi ekki sjeð mjer fært að fara svo freklega í sakirnar eins og stj. safnsins hefir óskað, þótt jeg verði að játa, að það er ekki of freklega í sakirnar farið, miðað við önnur bókasöfn, sem komin eru inn í fjárl. með hærri upphæðir, því að þótt veittur sje 600 kr. rekstrarstyrkur á ári, þá er sá styrkur ekki nema liðlega helmingur þess, sem því er veitt annarsstaðar frá, svo að það er engin ósanngirni, þótt farið sje fram á þetta. Eins og brtt. sýnir, fer jeg fram á, að safninu sje veitt í eitt skifti fyrir öll 800 kr. til bókakaupa, og svo að rekstrarstyrkurinn verði 500 kr. á ári, í stað þess að hann hefir ekki verið nema 200 kr. síðastl. ár.

Jeg vona, að þetta mál sje svo skýrt, að hv. þdm. sjái, að hjer er ekki um neina ósanngirni að ræða, og geti þess vegna fylgt þessum brtt. mínum.