08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

16. mál, fjárlög 1930

Björn Kristjánsson: Jeg sje, að hv. fjvn., eða meiri hl. hennar, hefir ekki getað unað við niðurstöðu þá, sem fjárveitingin til Flensborgarskólans fjekk í hv. Nd. Mega það teljast dálítil nýmæli, og ekki svo lítil hjer í deildinni, að fjvn. fari að breyta fjárveitingum fyrir hv. Nd., sem þar hafa verið samþ. með 20:4 atkv., að viðhöfðu nafnakalli. Jeg man ekki til, að það hafi nokkurn tíma komið fyrir, að fjvn. Ed. hafi gert það, og auðvitað leiðir það ekki til þess samkomulags, sem hæstv. fjmrh. var að tala um, að þyrfti að vera á milli deildanna. Ofan á þetta bætist, að í hv. Nd. var fræðslumálastjóri meðmæltur því, að þessi fjárveiting fengist, og greiddi henni atkv. sitt; hann var einn af þessum 20. Það, sem hv. Nd. hefir gert, er ekkert annað eða meira en það, sem báðar deildir hjer á þingi hafa gert undanfarin ár, en það er að veita Flensborgarskólanum 16000 kr. beinan styrk, eins og hv. Nd.samþ. Annað hefir ekki Nd. gert heldur en það sama, sem Ed. gerði á síðasta þingi og þingin hafa áður gert. Þess vegna kemur þessi till. töluvert kynlega fyrir mín augu að minsta kosti; og verði nú þessi till. samþ. hjer eins og hún liggur fyrir, þá má búast við, að hún verði samþ. með miklum minni hl. þingsins, ef hv. Nd. tekur fjárlögin gild eins og þau koma frá Ed., og það hefir víst aldrei komið fyrir áður. (JónJ: Þetta var samþ. í Nd. með 14: 13 atkv.). Jeg hefi skrifað hjá mjer atkvæðatöluna 20:4. (EF: Það er rjett, 14:13). Hv. þm. Borgf. gaf mjer þessar upplýsingar, og efast jeg ekki um að þær sjeu rjettar.

Flensborgarskólinn hefir nú staðið í full 50 ár og margir nýtir menn út skrifast þaðan. Aldrei hefir heyrst um kvörtun um það, að skólanum hafi verið illa stjórnað, heldur þvert á móti. Hann mun hafa fengið lof flestra eða allra nemenda sinna og aðstandenda, og hann hefir auk þess reynst ódýrasti skólinn fyrir nemendurna, að mun ódýrari fyrir þá en t. d. gagnfræðaskólinn á Akureyri, sem jeg hefi áður sýnt fram á, á fyrri þingum.

Stofnun þessi er gjöf, eins og hv. þingdeild veit, eins af mestu heiðursmönnum þessa lands, sem sat hjer lengi á þingi. Hann bar óveiklað traust til landshöfðingja þeirra, sem hann fól yfirumsjón með skólanum, og vænti þess, að komandi stjórnum mætti treysta til að meta gjöf hans og til að hlynna að skólanum. Og hann var líka fyrsti maðurinn, sem stofnaði skóla hjer á landi fyrir slíka alþýðufræðslu.

Mjer finst, að þetta eigi Alþingi að meta, með því að láta hann njóta þess frelsis og sjálfstæðis, sem hann hefir notið áður, og þess beina styrks, sem hann hefir notið í 50 ár, enda þótt hann hafi verið af svo skornum skamti, að ekki hefir verið hægt að halda íbúðarhúsinu við svo sem skyldi. En ef húsið fengi nú rækilega viðgerð, mundi það vel geta endst í heilan mannsaldur enn. En skólanum hefir ekki verið lagt annað til en rekstrarfje af skornum skamti. — Laun skólastjóra hafa t. d. altaf verið mun lægri en laun skólastjórans við Akureyrarskólann, samskonar skóla, og því tæplega lífvænleg.

Skóli þessi var gefinn af Þórarni prófasti Böðvarssyni sem alþýðu- og gagnfræðaskóli; nú er hann settur skör lægra í fjárlagafrv. hæstv. stj. og kallaður þar unglingaskóli, enda settur á bekk með venjulegum unglingaskólum í sveitum, eins og t. d. skólanum á Núpi o. fl., en að breyta fyrirkomulagi skólans hefir þingið enga heimild til. Þingið getur neitað honum um styrk, en það getur ekki breytt nafni hans eða fyrirkomulagi án samþykkis gefanda eða þeirra, sem að skólanum standa. Eins er það, að þingið getur heldur ekki áskilið, að fje komi annarsstaðar frá, enda engin trygging fyrir, að það verði samþ. af öðrum, þó að það standi í lögunum. Það má því alveg eins búast við, ef þetta verður samþ., að skólinn verði lagður niður, — og úr því að verið er að knýja þennan skóla um þriðjung kostnaðar, hvers vegna eru þá ekki samskonar skólar krafðir um sama tillag, svo sem gagnfræðaskólinn á Akureyri og Eiðaskólinn? Þeir fá þann styrk allan, sem þeir þurfa; a. m. k. er ekkert í fjárl. um það, að þeim eigi að leggja fje annarsstaðar frá, en líklega kemur þá röðin að þeim síðar, þótt ekki hafi orðið í þetta sinn.

Jeg hefi altaf bent á það, að þeir skólar hafa verið landsskólar, sem allar sýslur hafa átt aðgang að og sem taka við nemendum alstaðar að og eru að öllu leyti kostaðir af landsfje, og eru undir stjórn landsins, en vitaskuld er það hjer eins og annarsstaðar, að nemendur sækja skólann meira af næstu grösum, ef svo má segja, heldur en langt að.

í vor útskrifuðust úr Flensborgarskólanum 24 nemendur. Þar af voru 9 úr Hafnarfirði, 2 úr Reykjavík, úr Gullbringusýslu 3, af Ísafirði 2, og úr öðrum sýslum landsins 8. Af þessu má glögglega sjá, að skólinn er sóttur úr öllum hjeruðum landsins. Áður hefi jeg bent á, að skólinn væri mjög ódýr í vetur var heimavistarkostnaður kr. 54.11 á mánuði. Jeg vil því vænta þess, að Alþingi láti þennan skóla njóta hinnar sömu velvildar og að undanförnu, enda er það síst umfram maklegleika.

Að lokum vænti jeg þess, að hv. deild hlífi hinum alviðurkenda skólastjóra, sem verður nú sjötugur í sumar, við öllu aðkasti þennan stutta tíma, sem hann kann að eiga eftir að vera skólastjóri.

Viðvíkjandi brtt. skal jeg geta þess, að bæði 17. og 18. liðurinn eiga að falla, ef till. Nd. verður fylgt. Auk þess er formgalli á þessum brtt. n. Eftir orðalagi þeirra að dæma á Flensborgarskólinn eigi rjett á einum einasta eyri úr ríkissjóði á þessu ári. Þó hygg jeg þetta stafi frekar af vangá en af ásetningi, og vænti jeg, að d. líti sömu sanngirnisaugum á þetta mál og áður, og leiðrjetti þetta að minsta kosti.

Þá vil jeg minnast á 39. liðinn, þar sem ræðir um styrk til styrktarsjóðs Margrjetar Bjarnadóttur. Sjóður þessi var dánargjöf í upphafi og nam þá kr. 1302.69. Fyrir ötula framgöngu Þorgríms læknis Þórðarsonar er sjóðurinn nú orðinn 13 þús. kr. En ósk hans er að koma sjóðnum upp í 20 þús. kr. áður en hann skilur við hann. Þar sem nú sjóður þessi er ætlaður til styrktar ekkjum og munaðarlausum á þessu svæði, þá ætti það tæplega að geta valdið nokkrum verulegum ágreiningi að veita þessa lítilfjörlegu upphæð í eitt skifti fyrir öll.

Að lokum vil jeg beina þeim tilmælum til deildarinnar, að hún láti hina gömlu og góðu stofnun, Flensborgarskólann, njóta allrar þeirrar velvildar, sem hann er maklegur, svo að gefandinn þurfi ekki að rísa upp úr gröf sinni til þess að sjá þessa stofnun, sem honum var svo hjartfólgin, vanvirta og lagða í rústir af þeim, sem sjerstaklega ber siðferðisleg skylda til að halda henni uppi.