08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Baldvinsson:

Jeg kem dálítið við sögu á þskj. 562. Jeg á töluvert margar brtt. þar, og það mætti helst álíta, að jeg hefði mest fundið til þeirra missmíða, sem á fjárl. eru frá hv. Nd. Aðrir hv. þdm. hafa verið varkárir með að flytja brtt., og sama er að segja um fjvn. Að þessu athuguðu mætti ætla, að hv. Nd. hafi gengið svo frá fjárl., að ekki væri um þau bætandi. Enda væri slíkt ekki óeðlilegt, því hv. Nd. hefir legið á fjárl. mestallan þingtímann, og þessi d. fær þau ekki til meðferðar fyrr en komið er fast að þinglokum. Fjvn. þessarar d. hefir því ekki haft frv. til athugunar nema í örfáa daga, með þeim árangri, að hún hefir lagt blessun sína yfir verk hv. Nd. Það má því teljast einungis til málamynda, að fjárl. eru send til þessarar hv. d. að þessu sinni. Þegar jeg kvaddi mjer hljóðs í dag til þess að ræða fundarsköp, var jeg á móti því, að afbrigði væru veitt við þessa umr., þar sem jeg man ekki betur en að afbrigði væru einnig leyfð við 1. umr. (Forseti: Ekki rjett). Ef jeg fer ekki með rjett mál, bið jeg afsökunar. En eins og menn muna, var 1. umr. miðvikud. 1. maí, og hefði því átt að útbýta frv. í síðasta lagi á mánudag, en það var ekki gert. (Forseti: Jú, einmitt þá). Það má vera, að þau hafi verið lesin upp sem útbýtt í d., en til einstakra dm. munu þau tæplega hafa borist þann dag. Og svo mikið er víst, að fjárl. hafa verið skemur undir athugun þessarar d. en þingsköp gera ráð fyrir. Menn tala mikið um það, að þinginu beri að afgreiða fjárl. tekjuhallalaust; það á að vera einskonar kínalífselixír, sem allra meina er bót. Þetta má gera með tvennu: Hækka tekjuliðina eða taka út úr og fella gjaldaliði. Venjulega aðferðin er sú, að hækka tekjubálkinn, enda er það handhægast, en að sjálfsögðu einskis nýtt, nema til þess að blekkja út á við og breikka djúpið milli hinnar leikningslegu og raunverulegu útkomu fjárl. Jeg hefði nú satt að segja haft ríka tilhneigingu til þess að flytja fleiri brtt. við frv. þetta, en jeg get tekið það fram, hv. þdm. til upplýsingar, að allar brtt. mínar, sem jeg flyt einn, fara ekki fram á meiri útgjaldaauka en sem nemur 22800 kr. Aftur á móti hefi jeg flutt nokkrar brtt. með öðrum hv. þdm., og gera þær ráð fyrir nokkrum útgjaldaauka, og er Fjarðarheiðarvegurinn þar hæstur, sem við hv. þm. Seyðf. höfum flutt till. um. Jeg skal strax taka það fram viðvíkjandi Fjarðarheiðarveginum, að mjer er þvert um geð að setja þetta skilyrði um fjárframlag af kaupstaðarins hálfu. En jeg hefi gengið inn á þetta, af því að bæjarstjórnin á Seyðisfirði hefir boðið að leggja fram þetta fje, og þótti mjer ekki kurteist að ganga framhjá því boði og láta ríkissjóð einan leggja fram fje, úr því að tilboð um fjárframlög annarsstaðar að voru fyrir hendi. En mestu rjeði þó það, að jeg hefi einhvern grun um, að till. eigi að öðrum kosti erfitt uppdráttar.

Þá skal jeg víkja að brtt. þeim, sem jeg hefi flutt einn. Hin fyrsta þeirra er utanfararstyrkur til Jens Jóhannessonar læknis, til þess að nema sjerstaklega háls-, nef- og eyrnalækningar. Hann er nýútskrifaður með ágætri einkunn og er mjög líklegur til nytsemi á þessu sviði, ef honum er gert kleift að leita sjer fullkomnunar erlendis í þessari grein. Það er eðlilegt, þótt þeir, sem af litlum efnum hafa kostað sig í gegnum langt skólanám, hafi litla möguleika til þess að fullnuma sig erlendis, nema því aðeins, að ríkið hlaupi eitthvað undir bagga með þeim. Landið hefir þegar kostað allmarga unga lækna til utanfarar, sjerstaklega hjeraðslækna, til þess að kynna sjer nýjungar í læknisfræðinni. En geta má þess, að engin grein læknisfræðinnar hefir tekið eins miklum framförum nú upp á síðkastið eins og þessi grein, sem hjer er um að ræða. Það eru ekki margir læknar, sem þessa sjerfræðigrein hafa stundað; að vísu höfum við einn ágætan lækni í þessari grein, Ólaf Þorsteinsson, en vafalaust er mikil þörf á fleirum. Jeg sje, að hv. Nd. hefir veitt 1000 kr. til læknis nokkurs til sjerfræðináms í París. Fjvn. vill nú fella þennan styrk niður. Ef það verður gert, get jeg frekar sætt mig við, að þessi styrkveiting verði eigi samþ., en ella er hjer ósamræmi, sem ekki má líðast. En ekki ætla jeg að greiða þeirri till. fjvn. atkv.

Þá kem jeg að brtt X. á þskj. 562. Eru þær í mörgum liðum, eins og sjá má, og eru flestar við 15. gr. fjárl., sem löngum veldur miklum ágreiningi og togstreitu. En fjárframlög þau, sem farið er fram á í öllum liðunum, sem eru 8 talsins, eru ekki hærri en sem nemur lagningarkostnaði á mjög stuttum vegarspotta. Fyrst er styrkur til Björns O. Björnssonar til þess að gefa út bók með ýmsum þjóðlegum fróðleik, sem hann hefir safnað. Hann hefir sent Alþingi umsókn um þennan styrk, ásamt nánari greinargerð fyrir því, hvað hann ætli að gera við þennan styrk, ef veittur verður. Er ætlun hans að safna ýmsum fróðleik um ferðalög manna og æfintýri þeirra á ferðalögum. Hefir hann til þessa hina bestu aðstöðu, auk þess sem hann er mjög fróður um slíka hluti. Er og mikils virði, að ríkið styrki meðfram útgáfu þeirra bóka, sem alþýða hefir ánægju af að lesa, en svo myndi vera um slíka bók sem þessa. Í umsókninni talar hann um, að hann geti ef til vill endurgreitt eitthvað af styrknum síðar, og fer hann fram á 2000 kr. En jeg hefi tekið í brtt. aðeins 1000 kr., og geri jeg ráð fyrir, að sú upphæð muni nægja til þess að bókin verði gefin út. En það tel jeg vera mjög nytsamt og vel forsvaranlegt af Alþingi að ljetta dálítið undir með útgáfu bókarinnar.

Þá er annar liður brtt. X. á þskj. 562. Er hann um það, að veita dr. Guðbrandi Jónssyni 5000 kr. til þess að kynna sjer og afrita handa þjóðskjalasafninu skjöl í páfagarði og víðar, sem snerta Ísland. Væri ekki óhugsandi, að margt gæti þá komið fram í ljós dagsins, sem nú er hulið eða óvíst. Í Frakklandi eru mikil skjalasöfn, þar sem páfar hafa setið, og er álit manna, að þar sje um auðugan garð að gresja snertandi sögu Íslands. Þetta mál hefir fyr komið til umræðu hjer á landi, og jafnvel leitað til þingsins í því skyni, en alt hefir strandað á því, að páfagarður hefir hingað til verið lokaður, en nú mun einhver tilslökun vera orðin í þessu efni. Maður þessi, dr. Guðbrandur Jónsson, er vel til þessara hluta fallinn; hann er mjög vel að sjer í franskri tungu og í latínu. Auk þess er hann vanur að afrita skjöl og er mjög fundvís á það, sem okkur gæti komið að gagni. Það er trú sumra manna, að meðal annara merkra plagga, sem geymd sjeu í söfnum páfa og snerta Ísland, sjeu brjef Jóns Arasonar til páfa. Þau voru, eins og kunnugt er, pólitísks eðlis, og myndi það eigi lítill fengur fyrir sögu okkar og bókmentir, ef þau kæmu í leitirnar. Jeg hygg að þessi fjárhæð myndi duga mikið til þess að standa straum af þessari rannsókn. Jeg þori að segja, að þessum 5000 kr. væri mjög vel og þarflega varið, ef þær væru veittar í þessu skyni. Hjer er um nauðsynjamál að ræða að vissu leyti, og vil jeg eindregið vænta þess, að hv. þdm. sýni fullan skilning á því, þegar til atkvgr. kemur.

Þá kem jeg að 3. lið brtt. X. á þskj. 562, um að veita frú Mörtu Kalman styrk til þess að kynna sjer leiklist í Englandi og í Danmörku. Allir þeir, sem sjeð hafa leik frúarinnar, hafa lokið lofsorði á hann. Hún hefir starfað við Leikfjelagið frá því hún var 9 ára, eða alls í 25 ár. Fjárhagslega mun hún ekki hafa borið mikið úr býtum, eins og af líkum má ráða, en hinsvegar hefir hún skemt mörgum með hinum ágæta leik sínum; sjerstaklega er hún framúrskarandi sem kýmileikari. Umsókninni fylgja meðmæli frá stjórn Leikfjelagsins, þeim Einari H. Kvaran rithöfundi og Jakob Möller bankaeftirlitsmanni. Þriðji maðurinn í stjórninni, Indriði Einarsson, gat ekki skrifað undir meðmælaskjalið, af skiljanlegum ástæðum. Jeg vil leyfa mjer að lesa upp part úr meðmælaskjali þessu, með leyfi hæstv. forseta:

„Frú Marta Kalman hefir leikið hjer í bænum í mörg ár. Hún hefir að jafnaði leikið skopleg hlutverk og gert það oftast með miklu meiri snild en nokkur önnur leikkona hjer hefði getað gert það. Við skulum í því efni minna á, hvernig hún ljek Ane í „Landafræði og ást“ eftir Björnson, Akúlína í „Sinnaskifti” eftir Stepniak. Hún á engan jafningja hjer á sínu sviði. Við viljum þess vegna veita umsókn hennar hin allra bestu meðmæli“. o. s. frv.

Þannig hljóðar dómur þessara manna um leik frúarinnar. Nú kunna einhverjir að segja, að svo fullorðin kona sem hún er muni varla geta lært mikið hjeðan af. Það er nokkuð til í þessu, en þó hygg jeg, að upplagið ráði meiru þar um en aldurinn. Og enginn vafi er á því, að frúin myndi hafa stórkostlegt gagn af utanför í því skyni að kynna sjer, hvað fram fer á leiksviði erlendis, sjerstaklega í Englandi og Danmörku. En aðallega skoða jeg þennan styrk sem viðurkenningu fyrir langt starf og vel af hendi leyst. Jeg skal í þessu sambandi benda á, að áður höfðu allir helstu leikarar styrk af opinberu fje; t. d. mun frú Stefanía Guðmundsdóttir hafa haft fastan styrk, Friðfinnur Guðjónsson hefir líka fengið utanfararstyrk, sem aðallega hefir verið veittur í viðurkenningarskyni.

Jeg er ekki svo vel að mjer í leiklistinni, að jeg geti sjerstaklega dæmt um hæfileika frúarinnar, og þess vegna hefi jeg vísað til annara manna, sem hafa meira vit á þessum hlutum. Það er náttúrlega persónulegt fyrir hvern mann, hvernig honum finst þessi eða hinn leikandi. En jeg hygg, að flestum finnist frú Marta Kalman hafa farið prýðilega vel með öll þau hlutverk, sem henni hafa verið falin.

Næst kemur till. um styrk til Sigurjóns Friðjónssonar skálds. Það liggur engin umsókn fyrir frá Sigurjóni. Jeg hefi tekið það upp hjá sjálfum mjer að biðja um þennan styrk honum til handa, af því að jeg álít, að eigi það tvímælalaust skilið, á borð við mjög marga, sem styrks njóta. Jeg þykist ekki þurfa að lýsa ljóðum þessa skálds fyrir hv. dm. Þau eru falleg, ljett og þýð. Jeg býst við, að margir dm. hafi lesið hina nýju bók hans, auk þess sem birtst hefir eftir hann í blöðum og tímaritum. Sigurjón er einn af hinum kunnu, þingeysku skáldum, og jeg vona, að hv. dm. viðurkenni, að hann er styrksins maklegur. Jeg skal geta þess, að þessi fjárveiting á aðeins að vera í eitt skifti.

Til þingsins hefir borist erindi frá Kristjáni Jónssyni frá Hrjót um 800 króna styrk til þess að safna örnefnum á Austurlandi. Kristján hefir þegar unnið að þessu um langt skeið. Ritgerðir eftir hann hafa verið prentaðar í tímaritum, t. d. Árbók fornleifafjelagsins 1924. Þau tímamót eru nú í lífi manna og háttum, að nauðsynlegt er að safna ýmiskonar fróðleik, sem fyrri kynslóðir höfðu að geyma. Nú er alt að kafna í framförum og vjelamenningu og þá er hætt við, að hið gamla og þjóðlega hverfi og deyi út. En það er menningarvottur hjá þjóðinni að geyma í sögu sinni hinn þjóðlega fróðleik, sem varðveitst hefir um aldir. Kristján Jónsson er einn af hinum ólærðu alþýðumönnum, sem oft leggja ákaflega mikla vinnu í sín þjóðlegu áhugamál, enda hefir honum þegar orðið allmikið ágengt.

Þó að jeg hafi einnig flutt varatill., vona jeg, að ekki þurfi til hennar að taka, en að hv. d. samþ. að veita þessum manni 800 kr., sem ætlast er til, að verði í eitt skifti fyrir öll.

Þá hefi jeg flutt varatill. við X,2. Ef svo skyldi fara, að samþ. yrði 2. liður X. till., þá ætlast jeg til, að óbreyttur standi sá liður, sem nú er í fjárl., í 15. gr. 38, til Guðbrands Jónssonar. En fari svo, að hin till. verði feld, þá hefi jeg borið þetta fram sem varatill., að fyrir 1200 komi 1800 kr.

Næsti liður er 5000 kr. til Jóns Leifs, til undirbúnings starfsemi við væntanlegt ríkisútvarp, og til vara 4000 kr. Jeg þarf ekki að mæla fast með þessari till. Jeg vil benda á, að yfir 30 alþm. hafa mælt með því, að Jóni Leifs yrði falið að starfa í sambandi við væntanlegt útvarp, svo að jeg hefi ástæðu til að ætla, að þessi till. nái samþ. Um starfsemi Jóns Leifs get jeg vísað mönnum til erindis þess, er fyrir þinginu liggur, og sem jeg býst við, að hv. þm. hafi kynt sjer. Í erindi þessu er því lýst, hvílíkur dugnaðarmaður hann er og í hvert álit hann hefir komist í framandi landi. Hann hefir komist til þeirrar miklu virðingar að vera umtalaður sem einn af helstu hljómsveitarstjórum í Þýskalandi. Og þegar menn geta náð slíku áliti þar, sem þeir þurfa að keppa við hundruð innlendra snillinga, hlýtur að vera mikið í þá varið. Hjer er tækifæri til að veita Jóni Leifs starf, sem hann er mjög fær um að leysa af hendi, þá hlið þessa máls, sem snertir hljómlistarstarfsemi.

Við 16. gr. 13.c. hefi jeg flutt brtt. þess efnis, að Ásgeiri Einarssyni verði veittur styrkur til dýralækninganáms. Honum var veittur styrkur í Ed. í fyrra og byrjaði nám í trausti þess, að hann fengi styrkinn áfram. Hæstv. forsrh. gerði ráð fyrir því í haust, að hann yrði tekinn í fjárl., en það hefir farist fyrir af misgáningi. Jeg flyt því þessa till. í samráði við hæstv. forsrh. Þessari styrkbeiðni fylgja hin bestu meðmæli bæði frá Geir sál. rektor og Jóni Ófeigssyni. Meðal annars segir Geir Zoega: „Hann hefir góða námshæfileika og hefir alla tíð verið fyrirmyndarnemandi að ástundun við námið og í öllu framferði sínu“. Þetta gefur til kynna, að Ásgeir muni verða nýtur maður, og því fremur, ef honum gefst kostur á að nema það, sem hugur hans hneigist helst að. Auk þess er mjer sagt, að fullkomin þörf sje á, að einhver verði styrktur til þessa náms. Jeg vænti þess, að þetta verði samþ., einkum þar sem hæstv. stj. ætlaði sjer að setja það í fjárl., þó að ekki yrði úr því.

Nú eru aðeins eftir 3 till. af þeim, sem jeg flyt einn, og þær eru allar við 22. gr., um lánsheimildir. Það er sagt, að viðlagasjóður sje að miklu leyti horfinn, en samt standa ýmsar heimildir í fjárl. og hafa verið látnar standa, þó að viðlagasjóði hafi verið ráðstafað í sambandi við búnaðarbankann. Tveir menn, Daníel Halldórsson og Pjetur G. Guðmundsson, sækja um 6000 kr. lán til að kaupa prentvjel (Rotaprint), Þessi vjel er þýsk nýjung. Það, sem hún hefir fram yfir aðrar aðferðir, er það, að með henni er hægt að prenta upp óbreyttar eldri bækur, án þess að fyrst þurfi að setja þær upp með letri og prenta þær síðan á venjulegan hátt. Þarna er tekin ljósmynd, sem síðan er framkölluð á málm og sett í vjelina. Á þennan hátt hafa þjóðsögurnar gömlu verið prentaðar í Þýskalandi. Nú þarf að endurprenta mesta sæg af bókum; meðal annars eru stjórnartíðindin frá 1921 alveg gengin upp og að jeg ætla aðrir árgangar líka. En það er alt of kostnaðarsamt að prenta þá upp á venjulegan hátt. Með þessari aðferð munar meira en helming á kostnaði. Það er því mikill vinningur að fá slíka vjel inn í landið, en eins og eðlilegt er, eru mennirnir ragir við að ráðast í slíkt fyrirtæki, nema þeir fái hentugt lán. Það er ekki fyrirfram vitað, hvernig slíkur rekstur gengur, enda þótt ekki sje hægt að sjá annað en að þörfin sje mikil. Þar sem báðir þessir menn eru fátækir, munu þeir hafa fengið ádrátt um að fá lán. Jeg hygg, að hæstv. forsrh. hafi dregist á við þá, að slík lánveiting yrði tekin upp. Jeg skal geta þess, að það er algengt, að bækur, sem þarf að endurprenta, eru sendar til Þýskalands. Þegar þessi vjel er komin hingað og tekin til starfa, þarf þessa ekki framar við.

Þá hefir Finnur Jónsson málari sótt um 10 þús. kr. lán til þess að reisa sjer vinnustofu. Slíkt lán hefir áður verið veitt Jóni Stefánssyni. Hann er búinn að reisa sjer vinnustofu og er mikil hjálp fyrir hann að hafa verið styrktur einmitt á þennan hátt. Finnur skýrir frá því í sínu erindi, að það sje ákaflega erfitt fyrir málara að hafa ekki nógu gott húsrúm til að starfa í. Það er vel hægt að gera húsin svo úr garði, að þau sjeu góð og björt, þó að þau sjeu ekki dýr. Finnur álítur, að hann geti klofið þetta, ef hann fær 10 þús. kr. lán, og mjer finst hann eiga það skilið. Jeg ætla ekki að fara að gera upp á milli hans og Jóns Stefánssonar, nje dæma um, hvor þeirra er meiri málari, enda býst jeg við, að ekki sje auðvelt að gera það. Það hefir hver sinn eiginn smekk í þessu efni. Og þar sem farið hefir verið inn á þá braut að veita lán til þessara hluta, álít jeg ekkert varhugavert að samþ. þessa till.

Síðasta till. mín er um eftirgjöf á láni til Brynjólfs Bjarnasonar, sem honum var veitt 1924 til að ljúka námi. Brynjólfur varð vegna heilsubrests að hætta námi rjett fyrir embættispróf. Hann hefir verið hjer í nokkur ár og haldið sjer uppi með kenslu í ýmsum skólum, en hvergi haft neitt fast starf, svo að tekjur hans hafa auðvitað verið rýrar. Hann segist ekki sjá fram á, að hann geti með nokkru móti endurgreitt þetta lán. Hann hefir fjölskyldu fram að færa og allir, sem þekkja efnahag hans, vita, að hann berst í bökkum. Það hefir verið gert í mörgum tilfellum, að ríkissjóður hefir gefið eftir slík lán. Brynjólfur fjekk lánið það árið, 1924, sem höfð var sú regla að lána mönnum peninga til náms. Þm. voru að fela það, að þeir væru að styrkja mennina, en það er vitanlega bandvitlaus aðferð. Flestir námsmenn safna miklum skuldum á námsárunum, sem þeir taka nærri sjer að endurgreiða, þótt á mörgum árum sje.

Jeg er búinn að fara yfir þessar brtt. mínar. Það má vera, að jeg hafi gleymt að færa fram einhverjar ástæður, en það verður að hafa það. Jeg legg till. mínar undir dóm hv. d. og vænti þess, að hún veiti þeim fylgi.