08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

16. mál, fjárlög 1930

Jóhannes Jóhannesson:

Á Alþingi 1927 fluttu þeir landsk. þingmennirnir Jón Baldvinsson, Jónas Jónsson og Magnús sál. Kristjánsson og fengu samþ. í þessari hv. deild þingsályktun um rannsókn á akvegarstæði á milli Seyðisfjarðarkaupst. og Fljótsdalshjeraðs. Var það tekið fram í grg. þeirra, að það hefði lengi verið almenn ósk íbúa Seyðisfjarðarkaupst., að bílvegur yrði lagður frá kaupstaðnum upp í Fljótsdalshjerað, enda myndi hann verða til mikilla hagsbóta bæði fyrir kaupstaðinn og hjeraðið.

Sumarið 1927 athugaði Árni Pálsson verkfræðingur akleiðastæði milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshjeraðs og framkvæmdi ítarlegar mælingar og rannsóknir á vegarstæði fyrir akbraut yfir Fjarðarheiði og naut við þar upplýsingar og leiðsögu Eðvalds pósts Eyjólfssonar á Seyðisfirði, sem er allra manna kunnugastur á heiðinni og hafði farið yfir hana yfir 12 hundruð sinnum á öllum tímum árs, og var lægi vegarins valin í nánu samræmi við upplýsingar hans. Var síðan gerð nákvæm kostnaðaráætlun, og reyndist kostnaðurinn mundi verða mun meiri en menn höfðu búist við vegna ýmsra erfiðleika. Nemur kostnaðaráætlunin 360 þús. kr., og er vegalengdin frá Seyðisfirði til Egilsstaða á Völlum við Lagarfljót þó eigi nema röskir 26 km.

Á Alþingi í fyrra bar hv. 4. landsk. þm. fram brtt. við fjárl. við 2. umr. þeirra um 100 þús. kr. framlag til vegar þessa og jeg aðra um 50 þús. kr. framlag, en þær brtt. voru báðar feldar, jafnvel þótt fyrir þinginu lægju upplýsingar um það, að hjer var um hið mesta áhugamál fjölda Austfirðinga að ræða og að sá landsfjórðungur hefði borið skarðan hlut frá borði, er um úthlutun þjóðvegafjár í landsfjórðungana hafði verið að ræða.

Við 3. umr. fjárl. í fyrra hjer í d. bar jeg enn fram brtt. um að veita 25 þús. kr. til þess vegar, en sú till. var einnig feld með 7 atkv. gegn 7 og greiddu atkv. gegn henni 2 af flm þáltill. frá 1927 um rannsókn vegastæðisins og sá af þm. N.-M., sem sæti á í þessari hv. deild.

Þessar undirtektir Alþingis undir þetta áhugamál Seyðfirðinga og Hjeraðsbúa mæltust mjög illa fyrir eystra, er það frjettist þangað, og urðu til þess að stæla áhuga manna, sjerstaklega á Hjeraði — í Seyðisfirði þurfti enga stælingu — á málinu.

Aðalforgöngu málsins eystra hefir nefnd manna á Seyðisfirði, sem kosin er af verslunarmannafjelögum og verkamannafjelaginu „Fram“ á Seyðisfirði, sem tekið hafa höndum saman um framgang málsins og kosið sameiginlega n. til þess að hafa með höndum framkvæmdir í því.

Áhuga manna á Seyðisfirði á framgangi þessa máls má nokkuð marka á því, að á almennum borgarafundi þar um málið, sem haldinn var 15. jan. 1928, eftir að upplýst var orðið um kostnaðinn við vegalagningu þessa, var samþ. í e. hlj. að skora á Alþingi að veita til vegarins 100 þús. kr. í fjárl. fyrir árið 1929, skorað á ríkisstj. að láta byrja á vegalagningunni þegar í fyrra sumar og beita sjer fyrir því, að Alþingi veitti a. m. k. 35 þús. kr. í aukafjárl. fyrir árið 1928 til brúnna, og loks skoraði borgarafundurinn á þm. kjördæmisins og þm. Múlasýslna að fylgja málinu með festu og dugnaði við stj. og þing. jafnframt og hann treysti flm. þáltill. frá 1927 til að veita málinu hiklaust fylgi.

Á fundi sínum 6. febr. f. á. samþ. bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupst. að gefa till. borgarafundarins eindregin meðmæli sín og vænti þess jafnframt, að eigi yrðu sett nein skilyrði um fjárframlög gegn fjárveitingu úr ríkissjóði.

Á aðalfundi sýslunefndar NorðurMúlasýslu í apríl 1928 var skorað á. ríkisstj. að taka upp á fjárhagsáætlun fyrir árið 1930 ríflega fjárveitingu til akbrautarlagningar yfir Fjarðarheiði, auk fjárveitinga til annara vega í sýslunni, og jafnframt var skorað á Alþingi að samþ. fjárveitingu, sem um munar í þessu skyni, og á þingmenn sýslunnar að beita sjer fyrir framgöngu málsins við ríkisstj., svo og við Alþingi.

Á Seyðisfirði var aftur haldinn borgarafundur um málið 2. des. f. á, að tilhlutun n. þeirrar, sem jeg hefi nefnt; voru menn þá búnir að fá Alþingistíðindin frá síðasta þingi og lesa þar umr. um málið og sjá, að komið hafði til orða, að lagt væri fram fje á móti ríkissjóðstillaginu til akbrautarinnar. Á þeim fundi var skorað á bæjarstjórnina að samþ. 40 þús. kr. framlag úr bæjarsjóði til vegarins og beita sjer fyrir því, að tekin yrði upp í fjárl. fyrir árið 1930 a. m. k. 50 þús. kr. fjárframlag til vegarins. Við þessum áskorunum varð bæjarstjórnin á fundi sínum 8. des. f. á., og liggur fyrir frá henni formleg skuldbinding til þess að sjá um, að Seyðisfjarðarkaupst., með aðstoð sýslu- og hreppsfjelaga, er að veginum liggja, greiði alls 40 þús. kr. upp í kostnað við vegagerðina áður en verkinu er lokið, sje verkinu lokið innan 5 ára, enda verði byrjað á verkinu ekki síðar en árið 1930.

Á þingmálafundi í Kirkjubæ í Hróarstungu 21. jan. þ. á. var og samþ. að senda Alþingi áskorun um ríflegt framlag til Fjarðarheiðarvegar.

Enn samþ. sýslunefnd N.-Múlasýslu á aðalfundi sínum í fyrra mánuði svipaðar áskoranir og á fundinum 1928.

Loks hafa 74 alþingiskjósendur í Fellahreppi í N.-Múlasýslu sent Alþingi áskorun, dags. í jan. þ. á., um, að það veiti verulega fjárhæð til akbrautarlagningar frá Seyðisfirði til Egilsstaða, og skorað fastlega á þingmenn Múlasýslna að beita sjer fyrir málinu.

Af öllu þessu má sjá, að áhugi er mikill á Seyðisfirði og á Fljótsdalshjeraði fyrir framgangi akbrautarmálsins, og fer vaxandi, þótt við ramman reip hafi verið að draga um fjárframlög til þess.

Hjer er og um stór-þýðingarmikið mál að ræða, ekki einasta fyrir Seyðisfjörð og Fljótsdalshjerað, heldur jafnvel fyrir alt landið, því að það er sannanlega ekki þýðingarlaust fyrir landið, að Seyðisfjörður komist í hið fyrirhugaða akvegakerfi um land alt.

Seyðisfjörður er og verður miðstöð menningar austanlands. Þar er ein af allra bestu höfnum landsins og hvergi meira af hafskipabryggjum. Þar er endastöð sæsímans hjer á landi og 1. flokks landssímastöð. Þar er bókasafn Austfirðingafjórðungs, prentsmiðja, stórt og vel útbúið sjúkrahús, lyfjabúð og læknir góður. Þar eru um 400 skipakomur á ári og því markaður góður fyrir landbúnaðarafurðir: smjör skyr, kjöt, egg, hey o. fl. Verslun hefir verið þar mikil og fjölbreytt og er enn, þótt ekki hafi hún aukist hin síðari ár. Þar er og útibú frá Íslandsbanka, annað af tveimur bankaútibúum á Austurlandi. Úr firðinum og innan úr kaupstaðnum er talsverður bátaútvegur, og má því á Seyðisfirði fá nýtt fiskmeti á þeim tímum árs, sem afli er fyrir Austurlandi.

Það er því mjög þýðingarmikið bæði fyrir Seyðisfjörð og Fljótsdalshjerað, að samgöngurnar þar á milli verði sem greiðastar. Sjerstaklega myndi mikið hey flytjast frá Hjeraði á Seyðisfjörð, þegar akvegur væri kominn yfir Fjarðarheiði, því hingað til hafa Seyðfirðingar orðið að fá mikið hey frá Norðurlandi og Noregi vegna hinna erfiðu samgangna á landi eystra.

Hinsvegar liggur Búðareyri við Reyðarfjörð, sem er endastöð Fagradalsbrautarinnar, í Reyðarfjarðarbotni, en Reyðarfjörður er landbúnaðarsveit og á Búðareyri er enginn markaður fyrir afurðir landbænda. Þaðan að innan er heldur eigi nein útgerð og þar því erfitt til fiskifanga. Fagradalsbrautin er 35 km. löng frá Egilsstöðum að Búðareyri, en akvegurinn yfir Fjarðarheiði verður ekki nema röskir 26 km.

Það liggur því í augum uppi, að það er bráðnauðsynlegt fyrir hjeraðsbúa að fá og akvegarsamband við Seyðisfjörð, enda fer áhuginn fyrir því máli stöðugt vaxandi á Hjeraði, eins og jeg hefi frá skýrt.

Hv. 4. landsk. þm. (JBald) og jeg lítum svo á, að ekki megi nú dragast lengur að hefjast handa og byrja á akbrautarlagningu yfir Fjarðarheiði, og höfum því leyft okkur að flytja þriðju brtt. á þskj. 562 um 27 þús. kr. framlag til hennar úr ríkissjóði, gegn 3 þús. kr. af þeim 40 þús., sem bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupst. um alla skyldu fram hefir boðist til að sjá um framlag á til vegarins, ef hann verður lagður á næstu 5 árum. Jeg sagði um alla skyldu fram, því hjer er um þjóðvegargerð að ræða, sem ríkissjóði ber skylda til að kosta að öllu leyti eftir vegalögunum. Jeg get bætt því við, að tillag annarsstaðar frá en úr ríkissjóði til þessa vegar er um alla sanngirni fram, því Fjarðarheiðarvegurinn liggur milli bygða, en ekki um bygð eins og þjóðvegir þeir (Kjalarnesvegur og Hólmavegurinn), sem hjeruðin hafa lagt til.

Ástæðan til þess, að við höfum ekki að þessu sinni farið fram á hærri upphæð úr ríkissjóði en 27 þús. kr., er sú, að við höfum ekki viljað leggja til að nein af upphæðum þeim til þjóðvega, sem í fjárlagafrv. standa, verði feldar niður, og teljum ekki fært að hafa fjárveitinguna til þjóðvega hærri en hún verður með þessari viðbót Hinsvegar ætlumst við til, að miklu hærri upphæð verði tekin upp í næsta fjárlagafrv. og vegargerðinni lokið á næstu 5 árum.

Við vonum, að hv. d. meti það við okkur, hve hóflega við förum í sakirnar að þessu sinni og sýni Austfirðingum þá sanngirni að samþ. brtt. okkar. Það væri sannarlega synd að segja, að Austfirðingum, sjerstaklega Seyðfirðingum, hafi verið hossað af fjárveitingarvaldinu að undanförnu, borið saman við aðra landsfjórðunga og kaupstaði.