08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

16. mál, fjárlög 1930

Ingvar Pálmason:

Jeg á hjer nokkrar brtt. á þskj. 562, og skal jeg nú fara um þær nokkrum orðum. Það er þá fyrst VI. brtt. á nefndu þskj., við 14. gr., um 1500 kr. styrk til Ólafar Jónsdóttur frá Seglbúðum til framhaldsnáms í matreiðslu. Mjer hefir borist beiðni um að flytja þetta, en svo seint, að jeg gat ekki lagt hana fyrir hv. fjvn. til athugunar. Þessi stúlka, sem hjer um ræðir, hefir stundað nám hjá frú Sigrúnu Blöndal í Mjóanesi og nú langar hana til að fullkomna sig í þessari grein. Meðmæli frá frú Sigrúnu liggja hjer fyrir og lýkur hún miklu lofsorði á stúlkuna og telur hana sjerlega myndarlega og efnilega í þessari grein. Jeg held, að enginn styrkur í þessu skyni sje kominn inn í fjárl., og tel jeg þó, að þeir styrkir margir hverjir, sem þar eru nú komnir, sjeu síst þarfari en sá, sem hjer er um að ræða. Mjer virðist það fullkomlega þarflegt og skynsamlegt að veita þennan styrk til þess að stuðla að aukinni húsmæðrafræðslu í landinu, en það verður best gert með því að skapa hæfa kennara á því sviði. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa till., en vænti, að hv. d. sjái sjer fært að samþ. hana.

Þá á jeg aðra brtt. á sama þskj., um að bæta við aths. um styrkinn til amtsbókasafnsins á Seyðisfirði: „enda sje safnið starfrækt í samráði við sýslunefnd Suður-Múlasýslu og bæjarstjórn Neskaupstaðar“.

Jeg vil alls ekki vinna safninu ógagn með þessari till., heldur þvert á móti stuðla að því að vekja rjetta hlutaðeigendur til þess að hlynna meira að safninu en þeir hafa gert.

Jeg get ekki skilið, hvers vegna safnið stöðugt er minna og minna notað úr Suður-Múla- og Skaftafellssýslu. En þetta er nú svo, og tel jeg það illa farið. Ef ekki er hægt að koma á samvinnu milli stjórnar bókasafnsins á Seyðisfirði annarsvegar og bæjarstjórnarinnar í Neskaupstað hinsvegar um að efla safnið og styrkja, þá lægi nær að kalla þetta safn sýslubókasafn en amtsbókasafn. Jeg sem sagt vil með þessari till. stuðla að því, að þetta bókasafn yrði til almennari nota og kæmist í meira álit en verið hefir.

Þá er þriðja brtt. mín við 17. gr., XIV. brtt. á þskj. 562. Fyrsti liður þeirrar brtt. er shlj. lið, sem stendur í fjárl. fyrir yfirstandandi ár, 1500 kr. styrkur til að koma á sambandi milli allra sjúkrasamlaga á landinu og stofna ný sjúkrasamlög. Þessi sama upphæð var veitt á yfirstandandi ári, og liggur nú fyrir þinginu skilagrein frá stjórn Sjúkrasamlags Reykjavíkur, sem hafði á hendi forgöngu í þessu máli, um það, hvernig fjenu hefir verið varið.

Samkv. þessari skýrslu hefir aðeins byrjunarspor verið stigið í þessu efni og talið, að ef ekki verði framhald á þessari starfsemi, verði mjög lítill árangur af henni. Jeg tel því mjög varhugavert og alveg rangt að hverfa frá þessu á þessu stigi og gera þar með að mestu ónýtt það, sem unnist hefir.

Það er nú viðurkent, að almannatryggingar í hverri mynd sem er eru hið mesta nauðsynjamál, og það helsta, sem við höfum gert í þeim efnum, eru sjúkrasamlögin, sem því miður enn eru alt of fá og starfa sitt í hverju lagi. Það samlagið, sem virðist hafa náð einna mestum þroska og gert mest gagn meðal almennings, er Sjúkrasamlag Reykjavíkur, og tel jeg því eðlilegt að fela því forgöngu í þessu máli. Jeg verð að líta svo á, að því fje, sem varið er í þessu skyni, sje vel vafið og vafasamt, hvort nokkrum 1500 kr. getur verið betur varið en til þess að fjölga sjúkrasamlögum í landinu og styrkja starfsemi þeirra.

Þá er annar liður sömu brtt. um að styrkurinn til stórstúku Íslands verði hækkaður úr 10 þús. upp í 12 þús. kr. eins og hann nú er í gildandi fjárl. Alþingi leit svo á í fyrra, að styrkurinn til stórstúkunnar ætti ekki að vera lægri en 12 þús. kr., og virðist engin ástæða vera til að lækka hann nú. Í fjárlfrv. eins og það kom frá hæstv. stj. var ekki gert ráð fyrir nema 8 þús. kr., en hv. fjvn. Nd. leit svo á, að sjálfsagt væri, að styrkurinn hjeldist eins og hann er nú og flutti brtt. um það, en fyrir einhver óhöpp fór svo, að sú till. var feld. En fjvn. fjekk eftirþanka út af þessu, og er auðsjeð, að það hefir verið af vangá eða öðrum lítt afsakanlegum ástæðum, að svona fór við 2. umr., því að við 3. umr. var samþ. að hækka styrkinn upp í 10 þús. kr., en þá var ekki hægt að ná fullri leiðrjettingu á þessu vegna þess að það hafði áður verið felt. Jeg þykist þess hinsvegar fullviss, að hv. Nd. sje þess albúin að samþ. þessa hækkun, sem jeg nú fer fram á, upp í sömu upphæð og stendur í gildandi fjárl., enda hefi jeg ekki heyrt neina ástæðu koma fram gegn því. Að vísu hafa heyrst raddir um það, að með aukinni löggæslu mætti draga úr framlögum til stúkunnar. En þetta er misskilningur, því að goodtemplarareglan hefir aldrei haft neina löggæslustarfsemi með höndum og hefir ekki, heldur vinnur hún að því að útbreiða og styrkja bindindi í landinu, og jeg veit ekki annað en að allir sjeu sammála um, að það sje til mikils gagns og þjóðþrifa. Hitt er annað mál, að menn hafa ekki verið og eru ekki sammála um höfuðstefnuatriði reglunnar, sem eru samhliða algeru bindindi alger útrýming áfengis úr landinu og algert bann. En um það held jeg, að aldrei hafi verið ágreiningur hjer á Alþingi, að sjálfsagt væri að styrkja bindindisstarfsemi. Jeg vænti því, að hv. Ed. samþ. með ljúfu geði þessa brtt. og geri ráð fyrir, að Nd. telji það eðlilega og sjálfsagða leiðrjettingu.

Þá er 3. liðurinn, um að styrkurinn til gamalmennahælisins Hafnar lækki úr 2500 kr. niður í 1500 kr. Það er alls ekki mín meining að spilla með þessu eða draga úr stofnun hælisins, en jeg lít svo á, að slíkar stofnanir sem þessi styðjist og eigi að styðjast við aðrar betri og traustari stoðir en styrk af opinberu fje.

Jeg hygg, að þetta mál sje hvergi betur á veg komið en í Reykjavík. Og mjer er ekki kunnugt um, að það hafi verið styrkt af ríkissjóði til þessa, veit ekki heldur, hvort forgöngumenn þessa máls óska sjerstaklega eftir að fara þá leið. En væri nú svo, að Alþingi teldi ástæðu til að ýta undir stofnun slíkra gamalmennahæla víðsvegar á landinu, þá er það að vísu lofsvert frá fjárveitingarvaldsins hálfu, en þó ber að athuga, að það hefir í mörg horn að líta. Og jeg get búist við, að ef slík fjárframlög ættu að koma að verulegu gagni, yrðu þau áð vera æðimikil. Jeg býst við, að fjárupphæðin, sem brtt. fjvn. tiltekur, 2500 kr., láti nærri að vera 1/6 stofnkostnaðar þessa hælis. Álít jeg, að ef fjárveitingarvaldið ætlar sjer á annað borð að hafa nokkur áhrif á framgang þessara mála, þá megi slíkt framlag ekki minna vera. En hitt ætla jeg ennfremur, að á þessari braut muni fjárveitingavaldinu verða nokkuð þungt fyrir fæti. Mundi slíkt framlag, ef það ætti að bera nokkurn verulegan árangur, að minni hyggju verða að nema nokkrum tugum þúsunda um land alt, ef að því ráði væri horfið, að ríkissjóður styrkti slík hæli, þó ekki væri meira en að 1/6 stofnkostnaðar. Og þegar um er að ræða að styrkja byggingu hælis hjer, verður að hafa hliðsjón af því, hvort hægt er að standa á móti samskonar óskum annarsstaðar frá. Ef þeim yrði svo öllum fullnægt jafnt, er ríkissjóði bundinn allþungur baggi.

Mín skoðun er sú, að þessi gamalmennahæli sjeu best komin í höndum þeirra manna, sem einhverju vilja þoka af sjálfsdáðum. Komist hælin ekki á fót á þann hátt, þá býst jeg við, að nokkuð verði örðugt að koma þeim vel á veg með opinberu fje.

Hinsvegar vil jeg taka fram, að þessi niðurfærsla á styrknum hefir í sjálfu sjer ekki nokkra minstu fjárhagslega þýðingu fyrir ríkissjóð. Og jeg fyrir minn part legg ekkert sjerstakt kapp á, að þessi brtt. nái fram að ganga. En jeg vildi vekja athygli þingsins á því, að þessi braut er dálítið varhugaverð, því að með henni er ríkissjóði bundinn talsverður baggi, og það sem verra er, að jeg álít, að með þessari aðferð sje tafið fyrir framkvæmdum þessa máls á þann hátt, sem hugsað hefir verið, — með fórnfýsi einstaklinganna.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Jeg vonast til, að hv. d. skilji, hvað fyrir mjer vakir, — að jeg tala ekki af andúð gegn þessari hreyfingu, sem vöknuð er hjer í landinu. Þvert á móti. En jeg tel, að slík líknarstarfsemi sje komin út á skakka braut, sem ekki leiði til heppilegrar úrlausnar á þessu þarfa máli.

Þá kem jeg að síðustu brtt. mínum, sem eru stórtækastar og skifta mestu máli, — en þó litlu máli fyrir afkomu ríkissjóðs. Það eru brtt. undir XVIII lið við 23. gr., að bæta við tveimur nýjum liðum. A-liður er um ábyrgð ríkissjóðs á alt að 125 þús. kr. láni Neskaupstaðar til barnaskólabyggingar, gegn þeirri tryggingu, sem stj leggur fyrir. Það hefir verið svo alstaðar í öllum kaupstöðum landsins að meira eða minna leyti, að ríkið hefir ábyrgst lán til barnaskólabyggingar. Jeg geri því ráð fyrir, að Neskaupstaður verði ekki útundan að neinu leyti í þessu efni. Því síður fyrir það að með lögum frá í fyrra um bæjarrjettindi var ríkissjóður leystur undar þeirri skyldu að kosta barnaskólabyggingu að 1/3. Því var í Nd. hreyf sem mótmælum gegn bæjarrjettindum Neskaupstaðar, að kaupstaðarbúum væri þar með bundinn nýr baggi um byggingu barnaskóla. En íbúum Neskaupstaðar var fyllilega ljóst, að sjálfstjórn er miklu meira virði en framlag ríkissjóðs til barnaskólabyggingar. Og þeir tóku með fúsu geði á sig þessa byrði, en vitanlega í fullu trausti þess, að hið háa Alþingi ljeti Neskaupstað njóta sömu hlunninda og aðra kaupstaði um ríkisábyrgð á lán um til barnaskóla, sem auðvitað stóð þá fast fyrir dyrum. Nú er búið að gera uppdrátt af byggingunni, og lánið er trygt, ef ábyrgð ríkissjóðs fæst, Að vísu væri kleift að fá lán án ábyrgðar ríkissjóðs, en ekki með nærri eins heppilegum kjörum.

Jeg geri því fyllilega ráð fyrir, að það komi ekki til mála, að þessi ákveðna heimild mæti hinni minstu mótspyrnu í þinginu. Ef svo yrði, hygg jeg það mætti telja sem næst einsdæmi.

Þá kem jeg að stafl. b, að ríkisstj. veitist heimild til að ábyrgjast alt að 80 þús. kr. fyrir sama kaupstað til rafvirkjunar. Í 23. gr. fjárlagafrv. eru slíkar ábyrgðarheimildir a. m. k. fjórar þegar komnar inn í fjárlögin, sem sýnir það, að Alþingi vill fyrir sitt leyti stuðla að því, að bæir og stærri kauptún geti notið þeirra hlunninda, sem rafveita hefir í för með sjer. Rafveitan í Neskaupstað kom upp á síðastl. ári, en vitanlega að mestu leyti með lánum, eins og sjálfsagt er um slíkar framfarir. En þau lán eru — sem eðlilegt er — ekki eins hagkvæm og æskilegt væri. Þau eru að nokkru leyti fengin hjá einstökum mönnum og að nokkru leyti í sparisjóði Norðfjarðar. Sparisjóðslánið er víxillán, sem ekki verður framlengt til lengri tíma. Sparisjóðurinn leit svo á, að nauðsynlegt væri að hlaupa undir bagga með kaupstaðnum til bráðabirgða, til þess að mannvirkið kæmist í framkvæmd. Hinsvegar var strax áskilið, að lánið gæti ekki orðið fast lán, enda gefur að skilja, að sparisjóðurinn getur ekki tekið að sjer lán á slíkum stöðum sem Neskaupstað. Sparisjóðurinn verður altaf að hafa meiri hl. af innstæðufje sínu tiltækt með stuttum fyrirvara. Þess vegna er það, að kaupstaðnum er mjög mikil nauðsyn að geta fengið alt sitt lán á einum stað og með sem lengstum gjaldfresti og bestum vaxtakjörum Eftir því, sem fregnir frá bæjarfógetanum herma, hefir hann nú þegar fengið loforð fyrir báðum þessum lánum, ef ábyrgð ríkissjóðs fæst fyrir þeim. Þau eru með mjög sæmilegum kjörum, eftir því sem hægt er að búast við hjer á landi. Jeg vænti þess því að hv. deild samþ. þessar brtt., og sjerstaklega þar sem fjárlagafrv. ber með sjer, að Alþ. hefir tjáð sig fúst til að hlaupa undir bagga með kaup stöðunum og hreppsfjelögum í sams konar tilfellum.