08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Páll Hermannsson):

Jeg á eina brtt. á þskj. 562, og er hún við 12. gr., nýr liður, svo hljóðandi:

„Til Hróarstunguhjeraðs. Sjerstakur styrkur upp í kostnað við að reisa læknisbústað með sjúkrastofu, 8000 kr.“.

Það var laust eftir aldamótin síðustu, að hið svokallaða Hróarstunguhjerað varð sjerstakt læknishjerað. Þá var skift í tvent einu stóru læknishjeraði og gerð úr því tvö ný, Brekkuhjerað og Hróarstunguhjerað. Kom þá brátt í ljós, að þar vantaði mjög tilfinnanlega bústað fyrir lækninn, og það gerði það að verkum, að fyrsti læknirinn sagði embættinu lausu og fór í burtu. Var þá um langt skeið læknislaust í hjeraðinu annað veifið, læknarnir komu og voru 1–2 ár hver, en fóru svo burtu. Hjeraðið nær yfir 4 hreppa í Fljótsdalshjeraði og auk þess fylgir því einn hreppur niður við sjó, og er þar erfiður og torsóttur fjallvegur á milli. Einhverntíma á árunum 1915 –1923 sótti læknir um hjeraðið, en þó með því skilyrði, að hann mætti búa í Borgarfirði. Út af þessu ákvað sýslunefnd læknisbústað í Borgarfirði, og var svo um nokkur ár, en fyrir svo sem 5 árum var þessu breytt, því að þá dó læknirinn, sem í embættinu sat, og sýslunefnd breytti læknisbústaðnum og ákvað hann á Hjaltastað í Fljótsdalshjeraði, sem er talinn einn hentugasti staðurinn fyrir alla hjeraðsbúa. Á Hjaltastað þurfti svo að byggja fyrir lækninn, og þar var líka reist íbúðarhús ásamt einni sjúkrastofu. Þessi bygging kostaði 49 þús. kr., og batt það að sjálfsögðu hjeraðsbúum mjög þungan fjárhagslegan bagga. Ríkissjóður gerði skyldu sína og lagði fram 16 þús. kr., og auk þess voru lagðar fram rúmar 800 kr. annarsstaðar að, frá sýslunum báðum, og má segja, að þannig hafi fengist 17 þús. kr. Þá eru eftir 32 þús. kr., sem verður að álíta, að hjeraðsbúar hefðu átt að leggja fram. En nú vill svo til, að það eru ekki til nein lög um, að hægt sje á nokkurn hátt að þvinga menn til þess að lúta vilja meiri hlutans í þessu. Þetta er leitt, því að nú komu fyrir þau vandræði, að Borgarfjarðarhreppur, sem einu sinni hafði dreymt þá drauma að fá lækninn til sín, en er nú verst settur, skoraðist undan að leggja nokkuð fram.

Fyrir síðasta þingi lá frv. um sjúkrahús og læknisbústaði, sem ætlað var að bæta úr þeirri þörf, sem nú er Þetta frv. gekk í gegnum hv. Nd., en strandaði hjer og var vísað til stj. Jeg man ekki, hvað varð því að falli, en jeg hygg, að jeg muni það rjett, að á því voru taldir þeir gallar meðal annars, að það væri ekki nógu nákvæmt til þess að það gæti bætt úr allri vöntun á viðunandi hátt; t. d. vantaði í það ákvæði um það, hvernig færi, ef eitt og sama læknishjerað næði yfir tvær sýslur.

Nú stendur svo á, að Hróarstunguhjerað er hluti úr tveim sýslum. Mjer virðist það verða að teljast nokkur vorkunn, þó að þeir af íbúum hjeraðsins, sem verða að bera þennan mikla kostnað, leiti nú til þingsins og spyrji það, hvort það sjái nokkurn veg til þess að bæta þeim þann halla, sem þeir verða fyrir vegna þess að engin lög eru til um þetta. Í hjeraðinu öllu eru um 1200 manns, en þar af eru 360 í Borgarfjarðarhreppi einum. Eftir eru þá 840 manns, og ef nú ætti að reikna eftir mannfjölda, hversu mikið hver hreppur ætti að leggja af mörkum upp í kostnaðinn við læknisbústaðinn, þá kæmi í hlut Borgarfjarðarhrepps að greiða rúmlega þús. kr. Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vildi aðeins lýsa ástandinu í stórum dráttum, svo að menn gætu áttað sig á því. Í till. minni er aðeins farið fram á, að ríkið hlaupi lítilsháttar undir bagga með hjeraðsbúum; það er þó ekki af því, að ríkið hafi ekki þegar lagt þarna fram ríflegan styrk, heldur vegna þess, að það eru ekki til nein lög, sem þvinga Borgarfjarðarhrepp til þess að taka sinn hlut í Kostnaðinum, og þó að slík lög væru sett, þá er jeg í vafa um, hvort þau verka svo aftur fyrir sig í tímann, að þau komi að liði í þessu tilfelli. Þess vegna hefi jeg fyrir hönd þessa læknishjeraðs leitað á náðir þingsins og spurt það, hvort ekki sje sanngjarnt að hlaupa þarna undir bagga. Skuldabagginn er nógu þungur á hjeraðsbúum, þó að þeir væru allir um að bera hann.

Jeg skal að lokum geta þess í þessu sambandi, að jeg tel Borgfirðingum vera nokkur vorkunn, þó að þeir þrjóskist við að borga sinn hluta af kostnaðinum. Þeir hafa um eitt skeið lagt sjálfir til læknisbústað án þess að krefjast endurgjalds, og aðstaða þeirra er afarerfið með að ná til læknisins þar, sem hann er nú, þó að þeir eigi raunar ekki auðveldara með að ná til neins annars.

Þá skal jeg drepa á ýms atriði úr þessum löngu umr. hjer í dag.

Jeg skal þá fyrst taka það fram, að jeg verð að álíta, að það hafi komið fram mjög fáar aðfinslur við störf n. og till., og þær fáu aðfinslur, sem fram komu, voru sagðar af svo mikilli kurteisi, að það er ekki ástæða til annars en að svara þeim kurteislega.

Hv. 1. þm. G.-K. fann að meðferð n. á Flensborgarskólanum. Að því ætla jeg samt ekki að víkja neitt að ráði, vegna þess að hæstv. dómsmrh. hefir talað um það, og er hann málinu miklu kunnugri heldur en jeg. Það, sem um var að ræða hjá n., var aðeins að færa þetta aftur í það horf, sem hæstv. stj. hafði lagt til í sínu frv. Jeg skal geta þess, að sú atkvgr. í hv. Nd., sem vitnað var í, átti ekki við þetta. Það atriði, að færa burtu úr horfi stjfrv. til þess sem nú er, var samþ. þar með 14:13 atkv. Að öðru leyti ætla jeg ekki að fjölyrða um þetta, en verð að álíta að sá góði maður, sem stofnaði skólann með gjöf sinni, geti verið rólegur í gröfinni og ánægður með þetta, því að málið verður í höndum fræðslumálastjóra, og hann leggur gott eitt til.

Hv. 4. landsk. vildi gera heldur lítið úr störfum þingsins, sjerstaklega í sambandi við fjárlögin og tekjuliði þeirra. Hann sagði, að þingið ætlaði að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög bara með því að teygja úr tekjuvonunum, og hv. 3. landsk. var honum sammála um það. Þessi aðfinsla á því við fjvn. þessarar d., því að það er hún, sem hefir teygt úr tekjuvonunum. Hinsvegar álít jeg það ekki þýðingarlaust atriði, hvernig tekjurnar eru áætlaðar. Ekki af því, að það breyti neinu í raun og veru, heldur vegna þess, að fjárbeiðnir eru margar og þörfin víða brýn fyrir útgjöldin, og jeg býst þannig við, að áætlun tekna hafi áhrif á þær fjárhæðir, sem veittar eru til þarflegra fyrirtækja, og hafi þannig áhrif á fjárhagsútkomuna.

Hv. 2. þm. S.-M. ber fram brtt. við brtt. n. um að lækka um 1 þús. kr. þann styrk, sem áætlaður er til gamalmennahælisins „Hafnar“ á Seyðisfirði. Það var ætlast svo til, að þetta yrði 1/6 kostnaðar, og getur skeð, að það láti nærri, ef miðað er við kaupverð hússins, því það mun vera um 16500 kr. En þegar búið er að bæta við húsgögnum og ýmsum áhöldum, sem óhjákvæmilega verður að kaupa, þá er ekki hægt að búast við, að kostnaðurinn verði minni en rúm 20 þús. kr., og þá er styrkurinn ekki orðinn nema 1/8 kostnaðar. Þetta er mannúðarlegt fyrirtæki og jeg álít, að þinginu sje sæmd að því að hlaupa undir bagga með því, og það er áreiðanlega vel gert að styrkja það í byrjun, því meira því betra. Jeg verð því að halda því fram fyrir n. hönd, að brtt. hv. 2. þm. S.-M. eigi að falla.

Hv. 3. landsk. vandaði um það við n. eða lýsti yfir því, að henni hafi yfirsjest, þar sem hún leggur til, að feldur sje niður 2 þús. kr. styrkur til gagnfræðaskóla Reykjavíkur. Hann sýndi fram á, að þessi 2 þús. kr. styrkur væri sanngjarn, þegar miðað er við aðra samskonar skóla, og jeg get fyrir mitt leyti gengið inn á það, að upphæðin er sanngjörn, ef á annað borð á að styrkja skólann, en jeg verð að líta svo á, að skólinn sje orðinn til fyrir utan það skipulag, sem nú er orðið í skólamálum landsins, og því beri ekki að veita honum styrk. Hv. þm gengur eflaust gott til, en jeg get samt ekki verið honum sammála.

Þá hefi jeg minst á þau atriði sem jeg hefi tekið eftir, að átalin hafi verið í sambandi við störf fjvn. En þá myndi þykja eðlilegt, að jeg sneri mjer nokkuð að brtt. þeim, sem komið hafa fram frá einstökum þm., og gæf hv. deild bendingar um það, hvernig fjvn. vill láta taka þeim till. En svo vill nú til, að frá hendi n. get jeg ósköp litlar bendingar gefið. Að af greiðslu fjárl. hjer hefir verið unnið með svo miklum hraða, að n. hefir engan tíma haft til að skapa sjer rökstutt álit um till., nema þá fáar Stundum er það nú líka svo, að erfitt er að gera sjer fulla grein fyrir þeim, fyr en búið er að tala fyrir þeim. Svo var það um till. þá, er jeg talaði fyrir áðan, sem jeg hygg, að hv. þdm. hafi ekki áttað sig á áður. Þar sem því nú ekki er hægt að segja, að n. haf tekið afstöðu til þessara brtt., þá verður það, sem jeg segi um þær, að skoðast talað út frá mínu brjósti, nema jeg taki annað sjerstaklega fram. Er þá best að jeg gangi á röðina og nefni þær till., sem mjer finst ástæða til að minnast á og jeg get eitthvað sagt um.

Jeg vil þá fyrst minnast á III. till. á þskj. 562: Til akbrautar yfir Fjarðarheiði, gegn 3000 kr. tillagi annarsstaðar að, 27000 kr. Flm. till. eru þeir hv. þm. Seyðf. og hv. 4. landsk. Fyrir þessari hv. d. lá í fyrra till. sama eðlis og þessi og svo lík, að duga mætti að vísa til þess, sem þá var sagt. Hjer er þó gerð till. um það, að lagt verði annarsstaðar frá 10% móti ríkissjóði, sem er nú ekki mikið, úr því annars nokkuð er lagt fram. Fjvn. hefir enga afstöðu tekið til þessarar till. Hún kom að vísu til orða hjá n., en atkv. fjellu þar ekki, svo að hægt sje að lýsa vilja hennar um till. En þar sem till. snertir mig eða mitt kjördæmi sjerstaklega, þá gefur það mjer ástæðu til að fara um hana nokkrum orðum. Jeg skal þá fyrst lýsa yfir því, að jeg er með sjálfum mjer mótfallinn því, að hlutaðeigandi hjeruð sjeu krafin um framlög á móti ríkissjóði. Hjer liggur það nú að vísu ekki fyrir, að hjeraðið sje krafið um þetta, heldur hefir Seyðisfjörður boðist til að leggja þessa upphæð fram. Jeg get nú lýst því yfir, að jeg tel það ekki kurteisi að neita slíku boði, enda gæti það ekki talist góð ráðsmenska fyrir landsins hönd að gera það. En jeg er þó mótfallinn því, þegar ríkið lætur vinna að slíkum umbótum, að viðkomandi hjeruðum sje gert að skyldu að leggja fje á móti. Jeg álít, að af þeirri stefnu gæti stafað nokkur hætta. Ef framlög ríkissjóðs væru miðuð við það, sem viðkomandi hjeruð gætu eða vildu leggja fram á móti, þá mundu þau hjeruð, sem mest peningaráð hafa, draga til sín framlög ríkissjóðsins, en þau, sem fátækari eru, mundu ekkert fá og dragast meir og meir aftur úr í framförunum. Þetta álít jeg, að gæti orðið mjög óheppilegt fyrir heildina. Það mundi koma einskonar uppdráttarsýki í suma landshluta. Fólkið mundi dragast meir og meir saman þangað, sem fjármagnið væri, líkt og nú er um Reykjavík. Væri það hreint ekki holt fyrir þjóðfjelagið. — Þetta var þá það, sem jeg vildi segja um þetta sjerstaka atriði.

Um málið í heild er það frá mínu sjónarmiði að segja, að enda þótt það sje álit mitt, að vegur eigi að koma yfir Fjarðarheiði á sínum tíma, þá tel jeg, að meiri þörf og fyllra rjettlæti krefji, að aðrir vegir gangi þar á undan. Jeg álít, að sá vegur hafi sjerstöðu samanborið við flesta, ef ekki alla aðra vegi á landinu. Fyrst er nú það, að önnur akbraut liggur til hjeraðsins alveg á sama stað frá góðri höfn. Sú akbraut er lífæð hjeraðsins. Hin mun tæplega geta náð því að kallast það, þó lögð verði. Jeg hjelt því fram á síðasta þingi, að alment væri litið líkt á þetta mál á Austurlandi og jeg hefi gert, og taldi mig ekki hafa ástæðu til annars en halda það, þar sem málinu hafði ekki verið hreyft á neinum þingmálafundi utan Seyðisfjarðar. Það er í fyrsta sinni seint á síðastl. ári og snemma á þessu ári, að þetta mál hefir verið tekið til umr. á þingmálafundum í Hjeraði. En jeg lít þó svo á enn, að það sje margt fleira, eða sitthvað fleira, sem Norðmýlingar þurfa og þeim ríður meira á en akveg yfir Fjarðarheiði. En það mun rjett, að í 2 eða 3 hreppum mun nokkur áhugi vera fyrir að leggja þennan veg. En jeg vil geta þess, að enda þótt sá áhugi sje fyrir þessu þarna, þá kæri jeg mig ekki um að gera svo sjerlega mikið fyrir hann. Sá áhugi er einmitt á því svæði, sem búið er að fá akbraut til Reyðarfjarðar, eða hefir komist í það samband við Fagradalsbrautina, sem fáanlegt er frá hendi ríkissjóðs, en óskar nú eftir að fá líka akbraut til Seyðisfjarðar, til að greiða götu sína þangað. Þetta er nú máske eðlilegt frá þeirra sjónarmiði, lítandi þar auðvitað fyrst og fremst á sinn eiginn hag. En frá sjónarmiði þeirra manna, sem einkum eiga að líta á hag fjöldans, svo sem þm. vitanlega eiga að gera, þá er það einkennilegt að koma fram með slíka till., þegar ástandið er víða svo annarsstaðar, að menn verða að flytja kaupstaðarvörur sínar á klökkum um langan veg. Það sýnist þó liggja nær að líta fyrst á þarfir þessara manna. En hjer eru líka aðrir aðiljar en Fljótsdalshjerað og Norður-Múlasýsla. Það er líka Seyðisfjörður. Jeg lít nú svo á, að þeir, sem búa við jafngóðar samgöngur á sjó og Seyðfirðingar gera, hafi ekki eins mikla þörf fyrir samgöngur á landi eins og sveitahjeruð hafa. En þó þeirra rjettur sje minni, þá eiga þeir þó líka nokkurn rjett. Þeir greiða fje í ríkissjóð og hafa sínar þarfir. Jeg get líka virt áhuga Seyðfirðinga í þessu máli og þykist vita, að hann muni vera einlægur, og vildi jeg því gjarnan geta tekið hann til greina.

Nú sje jeg, að margt mun undan ganga af því, sem jeg vildi gjarnan að gengi fyrir þessu. Svo er um veg frá Egilsstöðum að Óshöfn. Það hefði verið mikið æskilegra að fá þá höfn tengda við bygðirnar og Fagradalsbrautina en að fá veg yfir Fjarðarheiði. Nú var borið fram frv. í hv. Nd. um að taka þann veg inn í tölu þjóðvega ásamt fleirum. En þar sem það nú er sýnt, að sú hv. d. ætlar ekkert að gera í þessu, þá er ein af þeim ástæðum fallin í bili, sem jeg hafði til að vera móti þessum Fjarðarheiðarvegi í fyrra. Jeg leit samt þá svo á, og geri enn, að þegar farið verður að leggja veg yfir Fjarðarheiði, þá muni Austurland eiga erfiðara um fjárbónir sínar til annara vega, einkum meðan á því verki stendur. En þar sem jeg þykist sjá, að þingið vilji ekki láta aðra vegi ganga á undan þessum á Austurlandi, þá þykir mjer naumast hlýða að slá hendi á móti fjárveitingu til þessarar brautar, ef fáanleg er. Og í öðru lagi vil jeg ekki láta líta svo út, að slík fjárveiting strandi á mjer einum. Svo var það í fyrra, og meðan hv. Nd. fær ekki um þetta að fjalla, þá má jafnvel álíta svo, að þessi fjárveiting strandi eingöngu á mínu atkv. Jeg þóttist sannfærður um það á síðasta þingi, að hv. Nd. væri ekki þá við því búin að byrja á fjárframlögum til akbrautarinnar yfir Fjarðarheiði, en hvað nú skeður, læt jeg óspáð um. En hitt verð jeg þó að segja, að ef byrja á á því að leggja veg eftir þessari leið, þá er sú fjárveiting, sem hjer liggur fyrir, hlægilega lág. Mundi lengi verið að leggja veg þennan með svo litlu árlegu fjárframlagi. En á þessu verður sjálfsagt hert betur síðar. En vilji þingið ekki sinna því, sem að mínu áliti og margra annara manna á Austurlandi ætti að ganga fyrir Fjarðarheiðarbraut, þá þykir mjer þó ekki rjett að slá hendi á móti því, sem fæst og í eðli sínu kann að vera gott.

Það er ekki rjett, sem hv. 6. landsk. sagði í ræðu hjer í dag, að ekki væri akfært heim að Eiðum. Þó má nú máske frekar orða það svo, eins og einhver sagði hjer í dag, að báðir hafi rjett fyrir sjer. Að Eiðum er sem sje fært á bílum í þurkatíð um hásumarið. En þegar rigningar ganga, er ekki víst, að fært sje þangað nokkurn dag ársins á bíl, en þá er reynt að slarka með vagna, en eftir 1–2 ár verður vegurinn orðinn ófær, ef ekki er aðgert. Nú hefir hreppurinn neitað að halda þessum vegi við, og verði honum ekki haldið við af ríkinu, þá verður vegurinn ófær og verður þá að flytja kolin heim á klökkum. Þetta er 15 km. vegur, gerður af Suður- Múlasýslu og Eiðahreppi með styrk frá ríkinu. Ef ekki verður við veginn gert, verður hann bráðum ófær, og hefir því hv. 6. landsk. rjett fyrir sjer að nokkru leyti.

Þá eru hjer ýmsar till. til einstakra manna. Eins og jeg hefi áður sagt, þá hefir n. enga afstöðu til þeirra tekið. Get jeg því ekkert fullyrt fyrir hennar hönd um þessar brtt. En jeg verð nú samt heldur að hallast að þeirri skoðun, að n. ráði yfirleitt frá að samþ. þær, þótt undantekningar kunni að vera um sumar og hún láti aðrar máske hlutlausar. Verður því hver og einn að gera slíkt upp við sjálfan sig, enda munu menn því fyllilega vaxnir.

Tvær síðustu till. eru nokkuð annars eðlis en hinar. Þær eru heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast allháar upphæðir fyrir Neskaupstað. Fyrir hönd n. hefi jeg ekkert um þetta að segja.

En það má líta svo á, að hliðstæðar ábyrgðir þessu hafi verið samþ., og sje því ekki ástæða til að neita þessu. Eftir áliti okkar austanlands er þessi kaupstaður vel stæður og er nú í uppgangi. Ætti því ekki að stafa hætta af því að ganga í þessa ábyrgð. Jeg verð að halda, að hlutaðeigendur þættust verða hart úti, samanborið við ýmislegt annað, sem samþ. hefir verið ef þeim verður neitað um þessa ábyrgð, en hv. deildarmenn ráða vitanlega, hvernig þeir snúast við þessu.