08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 1. þm. G.-K. hefir nú skýrt þetta mál allítarlega frá sínu sjónarmiði, en af því að sumt var rangt hermt í ræðu hans, sennilega af ókunnugleika, verð jeg að gera þar á nokkrar leiðrjettingar.

Það kom skýrt fram í ræðu hv. 1. þm. G.-K., að hann hefir ekki háar hugmyndir um þörfina á Flensborgarskólanum, enda er ekki hægt að neita því, að lítils vilja hefir gætt hjá þessum hv. þm. til þess að vinna að því, að skólanum færi fram. Hann álítur það ósennilegt, að Mýrasýsla geti staðið undir sínum loforðum, og að eins mundi um Gullbringu- og Kjósarsýslur, ef þær sýslur lofuðu fjárframlögum til síns skóla. Honum þótti það mjög lofsamlegt, að þessar sýslur skyldu hafa tekið lán til vegagerða — og kemur mjer ekki til hugar að lasta það —, en hitt þótti honum ekki að sama skapi lofsamlegt, að sýslurnar tækju lítið lán til þess að bæta þessa skólastofnun fyrir hina upprennandi kynslóð. Sá andi, sem kemur fram í þessu hjá háttvirtum 1. þm. G.-K., er gagnstæður því viðhorfi, sem jeg hefi til þessa máls. Þetta er hausthugur, hugur gamals manns, sem gerir ráð fyrir, að alt geti hangið áfram og að gera megi þetta gamla einokunarhús að viðunandi skóla með heimavistum. Því að þessi hv. þm. gleymdi að láta þess getið, að húsið er frá 18. öld, að það er alt sundur grafið og fult af rottum og harla ólíklegt, að það verði liðið til lengdar að hafa manneskjur í því, þó að rotturnar geti haldist þar við.

En hv. 1. þm. G.-K. er fullkomlega ánægður með þetta. Hann vill umfram alt hafa ódýra skólastofnun fyrir sitt kjördæmi, og þótt önnur hjeruð sýni meiri rausn gagnvart skóla sínum en hans hjerað, vill hann samt láta það, í algeru lagaleysi, njóta meiri styrks til skóla síns en önnur hjeruð njóta, þau sem betur gera við skóla sinn. En það er að fara aftan að siðunum, ef ríkið á að styrkja þær sýslur mest, sem minst vilja leggja á sig fyrir skóla sinn. En jeg trúi því ekki, að svo sje í þessu tilfelli. Jeg held, að Hafnarfjörður og hlutaðeigandi sýslur taki vel í þessa málaleitan og verði ekki eftirbátar annara sýslna í þessu efni, þótt svo hafi verið hingað til.

Það er hinn mesti misskilningur, þegar verið er að blanda Flensborgarskólanum, sem er einkafyrirtæki, rekið með ríkisstyrk, saman við ríkisskólana. Hv. þm. gerði sig sekan í dæmalausum ósannindum, þegar hann fullyrti, að afstaða Flensborgarskólans til ríkisins væri hliðstæð afstöðu Akureyrarskólans. Þetta eru 50 ára gömul ósannindi. Akureyrarskóli hefir altaf verið ríkisskóli, en Flensborgarskólinn aldrei. Alþingi getur því, ef það vill, tekið allan styrkinn af Flensborgarskólanum. Það væri fullkomlega löglegt. Það er alveg á valdi Alþingis, hvort þessi einkastofnun fær styrk eða ekki. Jeg nefni þetta sem dæmi þess, hve hv. 1. þm. G.-K. er orðinn sljór og ókunnugur þessum málum — eða þá ósvífinn í að segja ósatt. En fari svo, að Hafnarfjörður og aðstandandi sýslur vilji ekki taka á sig byrðar að neinu leyti fyrir skóla sinn, eins og öll önnur hjeruð landsins gera, fer varla hjá því, að alþingisfulltrúar hinna hjeraðanna, sem rýja sig inn að skyrtunni, hvert fyrir sína skólastofnun, segi sem svo, þegar Hafnfirðingar koma og biðja um styrk fyrir sinn skóla: Ykkar skóli má vera eins sundurgrafinn af rottum, eins óheilnæmur, eins ónothæfur sem vill. Við leggjum ekkert í hann.

Hv. 1. þm. G.-K. sagði, að það væri óhugsandi, að Alþingi færi að gera Flensborgarskóla að tveggja ára skóla, af því að hann hefði altaf verið þriggja ára skóli. Þegar Þórarinn sál. Böðvarsson gaf sína góðu gjöf, datt honum ekki í hug, að skólinn yrði nema tveggja ára skóli, en skólinn hefir hinsvegar verið þriggja ára skóli um langt skeið, vegna þess hve Alþingi hefir verið ríflegt í fjárframlögum til hans. Og það dettur engum í hug, að þegar búið er að setja heildarlöggjöf um þessa kaupstaðaskóla, verði farið að skapa ósamræmi með því að hafa þriggja ára skóla í Hafnarfirði, en tveggja ára skóla í öllum öðrum kaupstöðum. Jeg býst við, að þarna verði, sem alstaðar annarsstaðar, hafður tveggja vetra skóli, með framhaldsnámskeiði þriðja veturinn fyrir þá, sem því vilja sinna. En um þetta hefir oft verið rætt hjer í hv. þd. áður. Það sýnir ekkert nema frekju hv. 1. þm. G.-K., að hann skuli leyfa sjer að halda því fram, ofan á þennan ófullkomleika sinn í andstöðunni við þá viðbúð, sem þessi skóli hefir haft, að honum eigi að gera hærra undir höfði en öðrum skólum. Jeg vil minna á það, að Akureyri hefir nú gefið ríkisskólanum þar — ekki sínum eigin skóla — tólf dagsláttur af verðmætu landi, og sýnt með því þakklæti sitt við Alþingi. Þetta get jeg kallað fórnfýsi. En það hefir aldrei heyrst frá hv. 1. þm. G.-K., að Hafnarfjörður ætti að láta nokkuð af mörkum til síns skóla, heldur að alt, sem til hans þarf, ætti að koma úr ríkissjóði og sama vanrækslan að haldast heima fyrir. Jeg vil upplýsa dálítið í þessu sambandi, sem jeg held, að jeg hefði ekki komið inn á, ef hv. 1. þm. G.-K. hefði ekki sýnt svo mikla mótspyrnu gegn þessari till. hv. fjvn. Svo er mál með vexti, að skólanefnd Flensborgarskólans hefir þverbrotið þær reglur, sem Alþingi setur fyrir þessum styrk til skólans, um þriggja ára skeið, og látið skólagjöldin falla niður. Skólanefndinni datt ekki í hug að fullnægja því skilyrði, sem Alþingi setur fyrir styrknum, heldur segir „kort og godt“: Við skiftum okkur ekkert af því, þótt þetta standi í fjárlögunum. — Einn skólanefndarmaðurinn játaði þetta fyrir mjer í dag.

Auðvitað átti bæði núv. og fyrv. stj. að neita að borga út styrkinn, en það sýnir, hversu taumleysið, sem hv. 1. þm. G.-K. hefir gerst hjer talsmaður fyrir, gengur langt, að skólastjórnin skuli leyfa sjer að ganga framhjá þessu skilyrði Alþingis. Jeg hefi ekki kært mig um að flíka þessu fyr en nú, er þessi seinheppilegi málsvari Flensborgarskólans, hv. 1. þm. G.-K., gaf mjer tilefni til þess. Ef Alþingi samþ. að veita Flensborgarskóla sama styrk sem að undanförnu, neyðist jeg til að láta fullnægja þessu skilyrði, en það kemur í sama stað niður, hvort Hafnfirðingar brjóta þetta skilyrði eða fallast á mína uppástungu í þessu máli. Annars vakir það eitt fyrir mjer að láta Alþingi vita um, hvernig ástatt er um þessa einkastofnun og hversu hún er vanrækt. Aðstandendur skólans verða að skilja það, að þetta skeytingarleysi getur ekki haldið áfram og að taka verður í taumana. Jeg get skilið það, að hv. 1. þm. G.-K., sem er búinn að vera fulltrúi þessara sýslna í 30 ár, líki það miður, því að það er samræmi á milli ræðu hans, þeirrar er hann hjelt hjer áðan, og niðurlægingar skólans og svika skólagjaldanna.

Hv. 1. þm. G.-K. sagði, að hv. Nd. hefði samþ. að veita Flensborgarskólanum sama styrk sem áður með miklum atkvæðamun. Það var nú samt svo, að eftir mikil hrossakaup frá hálfu flm. (ÓTh) tókst loks að merja aðalbrtt. í gegn með 1 atkv. mun, og þegar svo var komið, var ekki um annað að gera en samþ. styrkinn til skólans. Þetta er því ekkert annað en blekkingar hjá hv. 1. þm. G.-K. Íhaldsflokkurinn gerði það að flokksmáli að koma þessu fram og tókst það með tilstyrk þeirra, sem ókunnir eru núverandi ástandi skólans.

Þá leyfði hv. þm. sjer að halda því fram, að það væri ákaflega góður staður, sem skólinn stæði nú á. Nú hafa nýlega verið samþ. ný hafnarlög fyrir Hafnarfjörð. Samkv. þeim á að gera hafnargarð rjett fyrir vestan skólann og er ætlast til, að kola„plan“ verði skamt frá skólanum! Staðurinn er sannarlega nægilega slæmur nú, þó því væri ekki bætt við. En auðvitað hefir hv. þm. ekkert að athuga við þetta. Það er þó ekki einn einasti maður í Hafnarfirði, sem dettur annað í hug en skólinn verði fluttur, þegar hann verður endurbygður. Það er helst talað um tvær hæðir fyrir skólasetur, og eru báðar góðar. En það er ekki nokkur maður með fullu viti, nema hv. þm., sem er á þeirri skoðun, að skólinn eigi að vera kyr.

Hv. þm. sagði, að það gerði ekki til, þó húsin væru ljeleg, menn gætu lært þar fyrir það. Þessu trúi jeg vel upp á hv. þm. Hvernig gæti hatursmaður samgangna, hatursmaður landssímans, hatursmaður kaupfjelaganna, hatursmaður Landsbankans hugsað öðruvísi? Hann hlýtur að álíta það allra best, að unglingunum sje safnað saman í rottusmogna kumbalda, þar sem berklarnir fá sem best þrifist. Það er fullkomið samræmi í því.

Jeg þarf ekki vitni hv. þm. um það, hvernig Hafnfirðingar tóku fundarboði mínu um skólann í vetur. Um 400 manns sóttu fundinn og allir, sem töluðu, tóku vel í mál mitt, að sýna skólanum sóma. Og jeg er viss um, að þegar hv. þm. kemur til að tala við kjósendur sína, þá koma ekki eins margir. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. hefir nokkru sinni vakið aðra eins hreyfingu þar og mjer tókst með fundinum. Hafnfirðinga má alls ekki leggja á borð við hv. þm. í þessu efni; þeir hafa alt aðra skoðun á málinu.

Af því að jeg sje, að fyrv. andstæðingur hv. þm. í járnbrautarmálinu, hv. 3. landsk., er að kveðja sjer hljóðs, og þetta mun verða hans síðari ræða, þá skal jeg minnast hjer á mál, sem mjer er sagt, að hann hafi rætt um hjer í dag.

Í Nd. komst inn í fjárl. fjárveiting til hins nýja gagnfræðaskóla í Reykjavík. Það skiftir ekki máli, að hann er lítill, 2000 kr. nú; næsta ár verður hann vafalaust 4000 kr. En það er ekki upphæðin, sem jeg vil mótmæla, heldur krafan sjálf. Á síðasta Alþingi voru samþ. lög um gagnfræðaskóla í Reykjavík. (JÞs Enginn þekkir þau!). Hv. þm. var þó ánægður með þau í fyrra, en flokksmönnum hans í Nd. þótti betra að gera skólann eiginlega nafnlausan, eða kalla hann ungmennaskóla. Þessi skóli var stofnaður til þess að bæta úr hinni brýnu þörf til alþýðufræðslu í höfuðstaðnum. Um hann voru sett svipuð hlutföll og gilt höfðu um skóla í kaupstöðum landsins. En hvað gerist þá? Jú, það gerðist, að um það bil að skólinn á að fara að starfa, þá rís upp nokkur hluti af bænum, flokksmenn hv. 3. landsk., og neitar að láta sín börn ganga í þann sama skóla og þeir hugðu að fátækra manna börn mundu sækja! Áður hafði fólk þetta yfirfylt mentaskólann og aukið árlegan kostnað við hann á einum mannsaldri úr 20 þús. kr. og upp í 150 þús. kr. Þetta fólk vissi það ekki, að í mentaskólanum ríkti óforsvaranlegt ástand, að það komu fyrir milli 20 og 30 berklatilfelli á ári. Þegar stj. tók í taumana og bauð, að þetta ástand skyldi hætta þá fyltist fólk þetta reiði við stj. fyrir það að hafa bjargað börnum þess úr voðanum. Það stofnar skóla. Því dettur ekki í hug að nota þann skóla, sem ríkið hafði ætlað því. Nei, það stofnar prívatskóla. Það er í sjálfu sjer lofsamlegt og jeg er ekki að fást um það hjer. En — það liðu ekki vikur, fyr en þessi skóli var kominn á bæinn! Það liðu ekki mánuðir fyr en reynt var að koma honum á landið! Þessir menn, er hjeldu, að börn sín væru of fín til að ganga í skóla með börnum fátæklinga, geta svo ekki staðið straum af skóla sínum sjálfir, heldur koma og biðja um ríkisstyrk. Það er ekki til hroðalegri aumingjaskapur. Það er heldur ekki til ósvífnari frekja en að heimta peninga til þessa skóla eftir að hafa sýnt annað eins skeytingarleysi um mentaskólann og gert hafði verið og eftir að hafa ráðist á það, sem gert var til bjargar honum.

Mjer þótti rjett að taka þetta fram nú, svo að hv. 3. landsk. gæfist kostur á að svara.