08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Jónsson:

Jeg þarf að svara hv. þm. Seyðf. nokkrum orðum viðvíkjandi Fjarðarheiðarveginum. Hann sagði, að jeg myndi þekkja minst til þarna eystra af hv. þdm. og því ætti jeg ekki að fara að ráðleggja deildinni neitt í þessu máli. Jeg játa það að vísu, að jeg hefi aldrei ferðast þarna um, en þetta mál er nú orðið svo þvælt hjer í hv. deild, að jeg hygg, að jeg hafi fengið á því öllu betri skilning en þótt jeg hefði farið um veginn. Maður getur líka kynt sjer þetta nokkuð á landabrjefum og aflað sjer frekari upplýsinga, þannig að maður standi lítið ver að vígi en hinir, sem reynt hafa. Jeg skil ekki í öðru en að hann sem gamall þm. geti játað, að margar styrkbeiðnir hafa komið til þingsins, sem virðast ekki við nánari athugun hafa við nein rök að styðjast.

Hv. þm. hefir ekki hrakið þau orð mín, að þörfin fyrir þennan veg sje ekki svo brýn, að hann geti ekki beðið. Þá sagði hv. þm., að jeg hefði farið of sterkum orðum um snjóalög á þessari leið, er jeg sagði, að þessi vegur myndi ekki verða fær nema 3 mánuði ársins. Jeg byggi þessi ummæli mín á brjefi vegamálastjóra, sem jeg hefi ekki meðferðis, en með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp kafla úr áliti þess manns, sem rannsakaði þetta, og munu menn þá sannfærast um, að þetta hefir ekki verið ofmælt hjá mjer. Hann segir svo:

„Enda þótt komið væri fram í júlímánuð, var ennþá afarmikill snjór á heiðinni, og víða það mikill, að illmögulegt var að fylgja veginum. Til þess að komast nokkurnveginn hindrunarlaust áfram, varð víða að fara langt fyrir ofan (norðan) núverandi veg, enda liggur hann á löngum kafla um hinar verstu snjókistur“.

Svo minnist hann á þetta aftur síðar:

„Miklar líkur eru fyrir því, að hægt sje að koma vegi þannig fyrir og án stórkostlegs tilkostnaðar haga hæð vegarins svo, að hann alla jafnan verði kominn undan snjó um mánaðamót júní–júlí, enda engin frágangssök að moka síðustu skaflana, þegar komið er svo langt fram á vor“.

Svona er nú ástandið, að það er von um, að vegurinn verði orðinn fær um mánaðamótin júní og júlí, með því að moka síðustu skaflana. Já, það kvað með kostgæfni mega moka svo af veginum, að bílar komist leiðar sinnar. (JóhJóh: Þetta er lýsing eftir ókunnugan mann). Hann segist þó hafa stuðst við upplýsingar frá þeim ágæta manni, sem hv. þm. Seyðf. segir, að farið hafi 1200 sinnum yfir Fjarðarheiði. Þessi lýsing er ekki svo björguleg, að fýsilegt sje að fleygja mörg hundruð þúsundum í þessa vegagerð, meðan fjöldi nauðsynlegra framfarafyrirtækja bíður og vitanlegt er, að þörf hjeraðsins er þegar betur fullnægt á annan hátt. Þó að jeg sje ef til vill ekki kunnugur þar eystra, veit jeg þó, að Fagradalsbrautin er fær miklu lengur en þrjá mánuði ársins.

Hv. þm. Seyðf. var að fetta fingur út í það, að jeg hafði sagt, að síst væri betri verslun á Seyðisfirði en Reyðarfirði, því að þar væri eitt af bestu kaupfjelögum landsins. Hv. þm. var nú ekki alveg á því, að svo væri, og sagði, að verðlag kaupfjelagsins væri svo hátt, að smákaupmennirnir á Reyðarfirði þrifust mætavel í skjóli þess. Ekki virðist nú reynslan staðfesta þessa velgengni kaupmannanna. Einn kaupmaður þar hefir nýlega orðið gjaldþrota um 200 þús. kr. (JóhJóh: Síldarspekulationir). Jeg skal ekki segja um, af hverju tægi sú kaupmenska var, sem setti hann yfir um. Annar hefir nýverið orðið að leita samninga við lánardrotna sína og fengið 60% af skuldum sínum gefið upp. Ekki bendir þetta á uppgang kaupmanna þar. Og jeg þori að fullyrða, að mjer er svo vel kunnugt um efnahag manna hjer eystra, að jeg veit, að menn sjeu engu ver stæðir á fjelagssvæðinu en á Seyðisfirði og norðurfjörðunum. Jeg held, að hv. þm. Seyðf. verði erfitt að sanna, að verslunarkjörin á Reyðarfirði sjeu svo slæm, að neyðarkostur sje að leita þangað.

Aðalatriðið í mótmælum mínum stendur enn óhrakið. Þörfin er ekki brýn, og eiginlega engin. Kostnaður yrði geysimikill, en vegurinn ónothæfur mestan hluta árs. Auk þess hefir ekki verið á það minst, að verið gæti, að Seyðfirðingum veittist erfiðlega að leggja sinn hlut fram, og a. m. k. gætu þeir varið því fje betur. Einu rök hv. þm. voru þær áskoranir, sem borist hafa um þetta efni frá Seyðisfirði, en upp úr þeim má ekki leggja of mikið. Aftur skal það játað, að vegarlagningin skapaði mikla atvinnu fyrir Seyðfirðinga, og þar mun fiskur liggja undir steini í þessu máli.