13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Páll Hermannsson):

Áður en jeg minnist á frv. sem heild skal jeg geta þess, sem reyndar er augljóst, að fullkomið samkomulag hefir ekki náðst í fjvn. um brtt. við fjárlfrv. Þetta sjest best á því, að minni hl. ber fram sjerstakar brtt. Jeg skal ekki fara út í þann ágreining, sem orðið hefir, að svo stöddu. Til þess gefst væntanlega tækifæri, þegar hv. minni hl. hefir mælt fyrir sínum till.

Á fjárlfrv. eins og það er nú er reikningslegur tekjuhalli ca. 130 þús. kr. Að þessu sinni ber fjvn. fram brtt., sem leiða af sjer 20 þús. kr. útgjaldahækkun, svo að sá reikningslegi tekjuhalli yrði þá, að þeim viðbættum, ca. 150 þús. kr. Aftur á móti hefir n. borið fram hækkun á tekjuliðum, sem nemur 100 þús. kr., og lækkun á útgjaldaliðum um 80 þús. kr., og verður þá niðurstaðan reikningslegur tekjuafgangur um 30 þús. kr. Eftir fjárlfrv. eru útgjöldin áætluð nálægt 12 milj. kr. Raunar vantar á þá upphæð enn nokkra tugi þúsunda, en gera má ráð fyrir, að það skarð verði fylt þegar frv. verður afgr. frá þessari hv. deild. Eru þá útgjöld fullri miljón kr. hærri en áður hefir átt sjer stað.

Ef litið er á tekjurnar eins og næst verður komist að þær hafi orðið árið 1928, mun láta nærri, að þær hafi verið um 15% hærri en útgjöldin eru nú áætluð. Eftir þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir, hafa tekjur ársins 1928 numið ca. 13870 þús. kr. Nú er það öllum kunnugt, að árið 1928 var óvenjulega mikið tekjuár. Þá verður og að gera ráð fyrir sjerstök um útgjöldum árið 1930, samkv. lögum frá þessu þingi, og þegar þess einnig er gætt, að árið 1930 hlýtur að verða alveg sjerstakt útgjaldaár vegna hátíðarinnar það ár, þá leit meiri hl. fjvn. svo á, að það gæti engan veginn talist varlegt að hækka tekjuáætlunina frá því, sem nú er, meira en hann þegar hefir lagt til.

Hitt er vafaatriði, hvort útgjöldin eru ekki þegar orðin of há, samanborið við þær tekjuvonir, sem búast má við árið 1930. Þó hefir n. ráðist í að láta að mestu lenda við þau útgjöld, sem þegar eru komin inn í frv.

Þó að meiri hl. beri nú fram um 80 þús. kr. útgjaldalækkun, getur það ekki talist mikið, ef litið er á heildarupphæð fjárl.

Jeg sje ekki neina þörf á að tala meira um frv., — býst við, að það kunni að gera einhverjir aðrir —, en skal þá snúa mjer beint að þeim einstöku brtt., sem n. hefir borið fram á þskj. 617.

Fyrsta brtt. er við 2. gr., — að tekju- og eignarskattur verði færður úr 1100000 kr. upp í 1200000 kr. Þetta var eini liðurinn, sem n. í heild sinni gat álitið, að ástæða væri til að færa upp í tekjuáætluninni. Til þess lágu alveg sjerstakar orsakir. N. þóttist hafa nokkurnveginn áreiðanlegar upplýsingar um það, að þessi liður mundi af sjerstökum ástæðum verða nokkuð hærri heldur en hann hefir reynst að undanförnu. Og þær sjerstöku ástæður felast í því, að svo er stilt til, að nú mun tekju- og eignaframtal reynast heldur rjettar af hendi leyst en áður hefir verið; og líka er talið fullvíst, að betur muni innheimtast þessi liður. Hygg jeg, að þetta muni sjerstaklega eiga við um Reykjavík.

Auk þess var n. náttúrlega kunnugt um það, eins og öðrum hv. þdm., að til er líka heimild, sem gæti orðið þess valdandi, að þessi liður hækkaði mikið, enda þótt n. hefði enga sjerstaka hliðsjón af þessari heimild, þegar hún lagði þetta til.

Þá er næst brtt. frá n. við 13. gr. B, um akvegi, þar sem lagt er til að lækka framlag til þeirra sem nemur samtals 65 þús. kr. Jeg sje ekki ástæðu til að fara að lesa hjer upp þá einstöku vegi, sem taldir eru í brtt., en n. reyndi að fara sem sanngjarnlegast í það að klípa af þessum vegum. Jeg skal geta sjerstaklega um tvo liði, sem sje Stykkishólmsveginn og Vesturlandsveginn. Þessir vegir eru lækkaðir um 10 þús. kr. hvor, og er það líklega hlutfallslega meiri lækkun en á hinum. En fyrir n. vakti það, að báðir þessir vegir eiga langt í land að vera fullgerðir, og hlýtur það að taka þó nokkur ár. N. leit því svo á, að það sakaði minna, þótt ekki væri veitt meira til þeirra nú, meiri fjárveiting kæmi ekki að neinum verulegum notum í bili, en hinsvegar væri alls ekki þar með sagt, að þeir vegir yrðu síðar fullgerðir fyrir það. Því að þó að þeir nálguðust meira að verða fullgerðir, ef lagt er meira til þeirra árlega, þá getur svo komið, að fært verði að leggja til þeirra ríflegar, svo að þeir þrátt fyrir alt yrðu fullgerðir jafnfljótt og ef nú væri varið til þeirra dálítið hærri upphæð.

Jeg þykist vita, að ýmsum, bæði á Alþingi og utan þings, muni þykja það hart, að sjerstaklega skuli vera ráðist Í þessa liði, vegina, sem svo fjölda margir, einkum úti um landið, finna svo mikla þörf á. En það er ekki hægt um vik að ráðast á útgjöldin. Það er svo margt af þessu þannig úr garði gert, að það verður ekki numið burt. Og n. komst að raun um, að enda þótt þessi 65 þús. kr. lækkun yrði gerð á þessum lið, þá væri samt eftir atvikum allsæmilega sjeð fyrir vegagerð á landinu. Og þá skoðun sína styður n. fyrst og fremst við það, að eftir hennar till. yrði nú lagt til veganna 60 þús. kr. meira heldur en kunnugt er, að nokkurn tíma hafi verið gert áður, þegar tillit er tekið til þjóðvegagerðar og sýsluvega, svo og brúargerða.

Eftir till. n. yrði lagt til vega og brúargerða 882 þús. kr. 1 síðustu fjárl. var þessi upphæð 822 þús., eftir fjárl. 1927 729 þús., og eftir fjárl. 1926 780 þús., en eftir fjárl. 1925 aðeins 447 þús. kr.

Þegar á það er litið, að árið 1930 verður af sjerstökum ástæðum mikið útgjaldaár fyrir ríkissjóð, þá varð n. að líta svo á, að það yrði ekki beinlínis hægt af neinum að átelja það, hversu lítið fje væri lagt til vega og brúa í landinu, enda þótt farið yrði eftir þeim till., sem n. ber fram.

3. till. er um það, að orðin „og Hafnarfirði“ falli niður í 14. gr. Er þetta alveg sjálfsögð leiðrjetting til samræmis við það, sem nú stendur í frv.

Þá hefir n. lagt til, að í 16. gr. komi 40000 í stað 53500 kr. til sandgræðslu. Hjer er lagt til, að niður falli sjerstök fjárveiting, 12000 kr., sem ætluð var til sandgræðslugirðingar um Helluvaðs- og Grafarnessand á Rangárvöllum, og auk þess 1500 kr., sem ætlaðar voru til sandgræðsluvegar í Bolungarvík í Hólshreppi.

Um þetta 12 þús. kr. framlag til Rangárvalla er það að segja, að ætlast er til, að girðingin verði um land, sem þegar er orðið örfoka, til þess að flýta fyrir gróðri á ný, en ekki til þess að verjast eyðingu af sandfoki. N. varð að líta svo á, að úr því að henni þótti þörf að láta eitthvað af útgjöldum niður falla, þá mundi það að bagalausu mega um þennan lið, vegna þess að ekki verður sjeð, að skemdir mundu af leiða, þó að þetta drægist. Hinsvegar álítur n., að verkið sje gott og nauðsynlegt.

Líkt leit n. á hinn liðinn, til sandgræðsluvegar í Bolungarvík.

Einnig hefir n. lagt til, að 47. liður 16. gr., til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum, verði lækkaður úr 6000 kr. í 4000. Þarna stóð eins á, að n. virtist þessi liður mega lækka án þess að verulegu tjóni þyrfti að verða. Það stendur í frv., að þessar 6000 kr. sjeu fyrri greiðsla til vegarins. Þó að þessari aths. sje ekki breytt í till. n., þá kom alls ekki fram hjá n., að hún ætlaðist til lækkunar á styrknum í heild. Jeg hygg jeg megi segja f. h. n., að fyrir henni hafi vakað, að á sínum tíma yrðu lagðar þær 12 þús. í þennan veg, sem frv. hefir gert ráð fyrir, að greiddar verði. Aðeins mætti búast við eftir till. n., að þetta ætti að gera á þremur árum, 4000 kr. á ári.

Við 18. gr. er leiðrjetting, þar sem á að koma nafnið Guðríður í stað Elín. Það stafar af því, að upplýst er, að kona þessi, ekkja síra Jóhannesar frá Kvennabrekku, heitir Guðríður.

Einnig er við 18. gr. lagt til, að inn komi 3 nýir liðir, að þar verði tekin inn ein ljósmóðir, ein hjúkrunarkona og ein ekkja. Það lágu fyrir upplýsingar um alla þessa liði frá merkum mönnum, frá læknum hjer í Reykjavík og utan Reykjavíkur um hjúkrunarkonuna og ljósmóðurina og frá öðrum mönnum, t. d. tollstjóra hjer í Reykjavík, um ekkju tollvarðar. N. virtist eftir upplýsingunum, sem lágu fyrir, að þessar fjárveitingar yrði að telja rjettlátar samanborið við aðrar í 18. gr.

Þá er við 22. gr. nýr liður, þar sem lagt er til að veita Jóni Guðmundssyni bónda á Brúsastöðum alt að 25 þús. kr. lán úr viðlagasjóði til aukningar gistihússins „Valhöll“ á Þingvöllum, eða ábyrgjast fyrir hann lán í sama augnamiði, með þeim skilyrðum, sem nánar eru tekin fram í gr. Þessi brtt. var gerð eftir mjög ákveðinni ósk frá alþingishátíðarn., og till. er eiginlega beinlínis lögð fyrir n. frá hátíðarn. Fjvn. varð að líta svo á, að þetta lán eða ábyrgðarheimild yrði að teljast nauðsynlegt.

Þá er einnig gert ráð fyrir, að við 23. gr. komi aths. viðvíkjandi ábyrgð á 10 þús. kr. láni til Auðkúluhrepps í Ísafjarðarsýslu, sem sje, að við liðinn bætist: gegn ábyrgð sýslufjelagsins. N. þótti það yfirleitt varlegra, að slíkar lánveitingar yrðu að jafnaði bundnar því skilyrði, að sýslufjelagið ábyrgðist, eins og farið er fram á um samskonar breytingu, er gerð verður á öðrum lið síðar í gr.

32. brtt. er einnig við 23. gr., þar sem í 1. lagi er gert ráð fyrir að taka upp samskonar ákvæði um 3 ábyrgðarheimildir, það er 11., 12. og 13. liður gr., eins og gr. er í frv. Það er ábyrgð fyrir 170 þús. kr. láni til Hólshrepps í Norður-Ísafj.sýslu til rafvirkjunar, 60 þús. kr. láni til Hvammshrepps í Vestur-Skaftafellssýslu, til rafvirkjunar, og ábyrgð fyrir 90 þús. kr. láni til Reyðarfjarðarhrepps, einnig til rafvirkjunar. N. þótti rjett að áskilja ábyrgð sýslufjelagsins fyrir öllum þessum lánveitingum.

Einnig leggur n. til, að inn komi 3 nýir liðir, ábyrgð á 50 þús. kr. láni fyrir h/f Hallveigarstaði, til þess að reisa kvennaheimili á Arnarhólstúni, gegn þeim tryggingum, er stj. metur gildar. Það lágu fyrir n. þær upplýsingar, að þetta fjelag kvenna hefði nú í sjóði allmikið fje og auk þess nokkuð í loforðum. Það eru um 40 þús. kr. innborgaðar. Gert er ráð fyrir, að þessi bygging kosti 130 þús. kr., og n. varð að líta svo á, að þetta myndi kannske verða áhættuminna heldur en margar aðrar ábyrgðir ríkissjóðs. Auk þess þótti n. skemtilegt, ef hægt væri að verða við þessari bón kvenna í landinu um að koma upp allmerkilegri stofnun nálægt þessum merku tímamótum í sögu þjóðarinnar, sem nú fara í hönd, 1000 ára afmæli Alþingis.

Ennfremur leggur n. til, að stj. hafi leyfi til að taka ábyrgð á alt að 200 þús. kr. láni fyrir h/f „Hamar“, til þess að koma á fót dráttarbraut, er geti tekið í þurkví skip á stærð við „Esju“, gegn endurábyrgð bæjarsjóðs Reykjavíkur. Það er kunnugt, að skipastóllinn íslenski af þessari stærð er orðinn allstór, og það er upplýst, að kostnaður við aðgerð á þeim í útlöndum getur orðið æðimikill, auk þess, sem það er tilfinnanlegt að missa þá atvinnu út úr landinu. Nú er hjer ekki til nein sú stofnun, sem geti tekið líkt því svona stór skip til viðgerðar. En þetta hlutafjelag, „Hamar“, hygst að geta komið á fót viðgerðarstöð, ef það getur fengið þetta lán.

N. verður að líta svo á, að þetta sje þjóðþrifnaðarfyrirtæki, og mundi skapa atvinnu og spara fje út úr landinu, en telur hinsvegar áhættulaust að leggja til, að ríkisstj. sje heimilt að ábyrgjast lánið.

Í 3. lagi er lagt til að ábyrgjast 50 þús. danskra kr. lán fyrir Jóhannes Jósefsson, til þess að reisa gistihús hjer í Reykjavík. Eins og menn muna, var stj. heimilað að ábyrgjast stórt lán fyrir þennan mann í fyrra, en það hefir komið í ljós, að ágiskunin, sem gerð var um þetta 1. flokks hótel, varð of lág. Það er þegar fullvíst, að það kostar svo hundruðum þúsunda króna skiftir meira en fyrst var gert ráð fyrir. Þessi maður var því í vanda staddur og leitaði eðlilega til ríkisins um þessa viðbótarábyrgð, og n. fanst sjálfsagt að verða við þessari bón hans.

Í síðasta lagi hefir n. lagt til örlitla orðabreyt. í 23. gr., sem er þess eðlis, að hún skýrir sig alveg sjálf.

Þá held jeg, að jeg hafi minst á allar brtt. n. En af því að jeg á sjálfur tvær brtt. á þessu þskj., þykir mjer rjett að minnast líka á þær um leið.

Fyrri brtt. er sú 27. á þskj. 617, við 23. gr., að þar komi nýr liður, svo hljóðandi: Að lána Hjaltastaðahreppi í Norður-Múlasýslu 25 þús. kr. til 20 ára, með 6% ársvöxtum, gegn ábyrgð sýslunefndar Norður- Múlasýslu. — Þannig stendur á um þessa brtt., að þessi hreppur hefir nú fyrir rás viðburðanna á undanförnum árum komist í svo þröngar kringumstæður, að það er ekki sjáanlegt, að hann komist úr þeim á annan hátt en þann, að hreppsbúar flestir verði alveg að yfirgefa bú sín og hverfa þaðan burt.

Það er ekki þörf á því að telja upp orsakirnar að þessu. Hv. þdm. er kunnugt um það, að undanfarið hefir verið byltuhætt fyrir ýmsa. Verðsveiflur stríðsáranna og áranna næst á eftir höfðu það í för með sjer, að ef út af bar, gat illa farið. Það vildi verða svo þarna sem annarsstaðar, að menn báru ekki gæfu til þess að nota sjer þann fjárhagslega hagnað, er varð af verðhækkuninni, heldur varð það svo, að menn urðu fyrir barðinu á henni að stríðinu loknu, er hinir erfiðu tímar fóru í hönd. Það vildi verða svo, að þó búpeningur væri í háu verði, þá minkuðu skuldir lítið sem ekkert og sumstaðar jafnvel ukust þær, því ýmsir reistu þá bú og keyptu til þess við alt of háu verði. Hafa þeir síðan setið uppi með miðlungsstór bú, en miklar skuldir. Ofan á þetta bætist svo, að þessi umrædda sveit varð eins og fleiri fyrir mjög hörðu árferði um og eftir 1920. Urðu menn þá að verja stórfje til kaupa á útlendu skepnufóðri. Ukust skuldirnar þá hjeraðsbúum yfir höfuð. Líka stendur það þessari sveit mjög fyrir þrifum, að samgöngur eru hinar erfiðustu. Hafa þessir menn einskis notið af fje því, sem varið hefir verið til samgöngubóta á landi.

Nú er svo komið í stuttu máli sagt, að í þessari sveit, þar sem eru 33 búendur, eru 20, sem ekki eiga fyrir skuldum. Og samkv. rannsókn, sem þar hefir farið fram, nema skuldir 22 manna þar fullum 200 þús. kr., en eignir þessara sömu manna eru um 100 þús. kr. Að vísu eru þessar eignir nokkuð lágt metnar, en jeg er ekki viss um, að meira verð fengist fyrir þær, ef það ætti að selja þær nú. Sumir mundu nú ef til vill vilja segja, að þegar svona sje komið, þá sje best fyrir hlutaðeigendur að gefa bú sín upp til gjaldþrotaskifta og flytja svo burt. En jeg verð að halda því fram, að ef hægt væri að komast hjá því, að 2/3 hlutar heillar sveitar flosnuðu upp, þá væri það betur farið. Þá má geta þess, að þessir menn hafa fengið góðar vonir og jafnvel vissu um það, að ef þeir gætu borgað nokkuð af þessum háu skuldum nú þegar, þá mundu þeir geta fengið eftirgefnar ca. 110 þús. kr. Og það er einmitt sú eftirgjöf, sem þeir hugsa sjer að ná með þessu láni. Þeir fóru að vísu fram á það, að fá 35 þús. kr. lán. En jeg taldi enga von til þess, að svo mikið fyndi náð fyrir augum hv. Alþingis, og fór því ekki fram á meira en 25 þús. Jeg leit líka svo á, að ef Alþingi samþ. þetta, þá væri ekki vonlaust, að N.-Múlasýsla gæti á annan hátt liðsint um það, sem á vantar. Jeg verð einnig að álíta, að lánardrottnar gætu gefið meira eftir af skuldunum, því vissa er fyrir því, að minna fengju þeir margir, ef nú ætti að gera bú þessara bænda upp.

Jeg verð svo að vænta þess, að hv. þdm. sjái nauðsyn þessa máls og sjái ekki verulega áhættu í því að samþ. þetta, og það því síður, sem með fylgir yfirlýsing frá sýslunefnd N.-Múlasýslu um það, að hún taki að sjer ábyrgð á þessu láni, eins og líka tilskilið er í brtt. minni. Svo vona jeg, að hv. þdm. líti á þetta með sanngjörnum augum og góðvild og sjái sjer fært að samþ. þessa brtt.

Þá á jeg hjer aðra brtt. ásamt hv. 2. þm. S.-M. og hv. þm. Seyðf. Er það XXXV. brtt. á þskj. 617. Hún er þess efnis, að við 23. gr. XV. komi nýr liður, þar sem stj. sje heimilað að greiða sjera Einari Jónssyni á Hofi í Vopnafirði full laun, þá er hann lætur af embætti.

Ef jeg hefði borið þessa brtt. fram þar, sem einungis hefðu átt um það að fjalla menn af Austurlandi, þar sem þessi maður er þektastur, býst jeg ekki við, að jeg hefði þurft að verja löngum tíma í það að mæla með henni. En með því að það er nú á Alþingi og þar eru, eins og vænta má, saman komnir menn úr ýmsum hlutum landsins, þá er ekki að búast við því, að sjera Einar sje jafnkunnur þeim öllum, og þykir mjer því ástæða til þess að fara nokkrum orðum um till.

Þessi ágæti maður er nú á 76. aldursári, fæddur í des. 1853. Hann var prestvígður 1879 og hefir þannig í sumar verið þjónandi prestur í 50 ár. Prófastur hefir hann verið í 35 ár. Hann var fyrst prestur í Skagafirði í 10 ár og síðan í N.-Múlasýslu í 40 ár. Skal jeg þá aðeins drepa á það, hvernig hann hefir reynst sem embættismaður.

Fyrst má geta þess, að alstaðar, sem hann hefir verið prestur, hefir hann sýnt hinn mesta myndarskap og búið bæði vel að jörðunum og kirkjunum. Þegar hann var á Felli, reisti hann t. d. nýja kirkju og mun hafa orðið að leggja nokkurt fje til hennar úr sínum eigin vasa, ca. 600 kr. Það þykir að vísu ekki mikil upphæð nú, en hefir verið talsvert á þeim tíma. Á Kirkjubæ reisti hann nýjan bæ og myndarlegan fyrir eigin efni. Mun hann hafa kostað um 6000 kr. En 1897 varð hann fyrir því óhappi, að bærinn brann til kaldra kola og bjargaðist mjög fátt af innanstokksmunum. Varð hann þar fyrir miklu tjóni, því bærinn var óvátrygður og inni brunnu miklir fjármunir, búslóð, fatnaður, bækur, allur nautpeningur o. m. fl. Geta má þess í þessu sambandi, að ríkissjóður greiddi ekki neitt af því tjóni, enda þótt honum væri það skylt sem jarðareiganda samkv. ábúðarlögunum. Síðan bygði sjera Einar bæinn aftur þarna, fyrir prestakallslán að sumu leyti, en að nokkru fyrir eigið fje. Að vísu hlupu góðir menn undir bagga með honum, og sýndi sú þátttaka vel það hugarfar, er menn báru til þeirra hjóna. 1910 flutti hann að Desjarmýri í Borgarfirði. Þar bygði hann snotran bæ í stað annars, sem fallinn var. Síðast hefir hann búið á Hofi í Vopnafirði. Þar hefir hann bygt upp flest hús og bætt jörðina að miklum mun. Hann hefir þannig beinlínis unnið mikið fyrir ríkissjóð, þar sem hann hefir stórum bætt þær jarðir, er hann hefir búið á, og sem allar hafa verið eign ríkisins. Þetta er atriði, er mjer finst ástæða til þess að taka nokkuð tillit til, þótt þetta sje ekki í mínum augum neitt aðalatriði.

Sem embættismaður hefir sjera Einar staðið mjög vel í stöðu sinni. Hefir hann verið talinn hinn besti kennimaður. Sjerstaklega hefir hann þó fengið orð á sig sem góður barnafræðari og mun hann að ýmsu leyti hafa verið brautryðjandi á því sviði og tekið upp nýjar aðferðir þar. Einnig hefir hann komið á miklum endurbótum í kirkjusöng, því hann er sjálfur mjög sönghneigður maður og lærður á því sviði, enda fyrsti sveitaprestur á Íslandi, er verulega hefir kunnað að leika á harmoníum. Prófastsstörfum hefir hann gegnt með hinni mestu vandvirkni og samviskusemi. Þá hefir hann og verið hinn mesti frömuður í fjelagsmálum öllum. Lækningar hefir hann líka fengist nokkuð við og hjálpað mörgum á því sviði. Þá má og geta þess, að sjera Einar hefir jafnan verið hinn mesti höfðingi heim að sækja og hjálpsamur við alla. Munu fáir, er til hans hafa leitað, hafa farið bónleiðir til búðar.

Af því, sem jeg hefi hjer nefnt, má sjá, að hann hefir verið duglegur og fjölhæfur maður, sem nú í full 50 ár hefir stöðugt, eftir því sem kraftar hans leyfðu, unnið fyrir land sitt og þjóð. Eiga slíkir menn þakklæti skilið frá þjóðfjelaginu, og er fylsta ástæða til þess að þeim sje nokkur sómi sýndur í ellinni.

Einn er þó sá þáttur í æfi þessa manns, sem jeg á eftir að nefna, og er hann þó síst ómerkari en það, er jeg hefi áður nefnt. Á jeg þar við störf hans í þágu menta í landinu og svo ritstörf hans. Hann var þegar í skóla námsmaður ágætur, enda er hann góðum og farsælum gáfum gæddur. Ekki var hann vel undir skólaveruna búinn, svo sem oft vill verða um fátæka pilta. En að einum vetri liðnum var hann orðinn efstur sinna bekkjarbræðra, og var það jafnan eftir það. Löngum hefir hann fengist mikið við kenslu, sem honum lætur einkar vel. Hefir hann kent fjölda manna undir skóla. Má meðal þeirra finna ýmsa merkustu menn þjóðarinnar núlifandi. En einn merkasti þátturinn í þessari menningarstarfsemi hans munu þó vera ritstörf hans í þágu ættfræðinnar. Hefir hann alla æfi unnið að því að semja ættartölur; sjerstaklega hefir hann fengist við ættir Austfirðinga. Nú hafa 2 bókaverðir við Landsbókasafnið hjer, þeir Guðmundur Finnbogason og Hannes Þorsteinsson, lagt fyrir þingið skjal um þetta efni, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr því eina grein. Hún hljóðar svo:

„Um „Ættir Austfirðinga“, hvernig rit þetta er til orðið og hvað það hefir að geyma, leyfum við okkur að vísa til hjálagðrar skýrslu höfundarins, sem hann hefir samið eftir beiðni okkar. Skal aðeins tekið fram, að með þessu verki hefir ættfræði Austfirðingafjórðungs verið svo að segja reist frá grunni af frábærri elju, lærdómi og samviskusemi, og þar með varðveittur margvíslegur fróðleikur um einstaka menn og ættir, er nú mundi glataður að fullu og öllu, ef höfundurinn hefði eigi aflað hans meðan tími var til. Verkið er því ómetanlegur fjársjóður fyrir ættfræði vora, og má ekki annarsstaðar vera en á Landsbókasafni Íslands, enda hefir það verið löngun og ásetningur höfundarins að koma því þangað“.

Hv. þdm. hafa nú heyrt, hvað þessir 2 merkismenn segja um þetta rit, „Ættir Austfirðinga“.

Hann hefir tjáð mjer, að það sje ásetningur sinn, að rit þetta verði eign Landsbókasafnsins, með sem allra sanngjörnustum kjörum. Og þegar hann talar um sanngjörn kjör, má telja víst, að svo sje.

Jeg þykist nú hafa sýnt, að hjer er ekki um neinn meðalmann að ræða, heldur einhvern besta son hinnar Íslensku þjóðar. Og þegar á það er litið, að hann hefir með stakri trúmensku gegnt embætti í 50 ár, er ekki nema sjálfsagt, að hann njóti fullra prestslauna. Jeg er viss um, að allir, sem þekkja sjera Einar, ljúka upp einum munni um það, hver ágætismaður hann er. Jeg álít því, að hjer sje ekki farið fram á annað en að greiða skuld, sem þjóðin er í við þennan mann fyrir afbragðs vel unnið starf. Jeg vænti þess fastlega, að hv. dm. samþ. þessa till. okkar.