13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

16. mál, fjárlög 1930

Jóhannes Jóhannesson:

Eins og hv. frsm. gat um, hefir n. ekki getað orðið sammála um allar þær till, sem hún ber fram nú við þessa umr. Eru því flestar till. hennar á þskj. 617 aðeins frá meiri hl. n. Hinsvegar hefir minni hl. n., hv. 2. landsk. og jeg, leyft sjer að bera fram tvær brtt. á sama þskj., nefnilega tölulið II og IV, um hækkun tekna fjárlfrv. um samtals 50 þús. kr.

Öll fjvn. var sammála um, að þessi hv. d. ætti ekki að skila frá sjer fjárl. með tekjuhalla, og sömuleiðis um það, að leggja til, að tekju- og eignarskatturinn í frv. verði hækkaður um 100 þús. kr. Telur öll n. það óhætt, eftir upplýsingum þeim, sem hv. frsm. skýrði frá, að fyrir n. hafi legið.

Hinsvegar hefir hv. meiri hl. n. lagt það til, að jafnvægi verði náð í tekjum og gjöldum með því að lækka ýmsa gjaldaliði til verklegra framkvæmda, vegalagninga og sandgræðslu. Minni hl. getur með engu móti fallist á, að rjett sje, nauðsynlegt eða sanngjarnt að fara að klípa af framlögunum til verklegra framkvæmda, þótt til þeirra sje í þessu frv. veitt með allra mesta móti, þar sem fjárhagur ríkissjóðs og horfurnar eru eins góðar og nú er og tekjurnar jafnvarlega áætlaðar og gert er.

Í stað þess að fylgja lækkunartill. meiri hl. n., ræður minni hl. til, að þessi hv. d. hækki aukatekjurnar í frv. um 25 þús. kr. og vörutoll um sömu upphæð. Næst þá jöfnuður á tekjum og gjöldum fjárl.

Aukatekjurnar námu árið 1925 436760 kr., 1926 455953 kr., 1927 490843 kr., 1928 567859 kr. Eins og tölurnar sýna, hækka þær árlega. En í fjárlagafrv. eru þær áætlaðar 450000 kr., en við í minni hl. n. stingum upp á 475000 kr. Það er mun lægri upphæð en 1927 og 1928, en aðeins örlítið hærri en 1925 og 1926. Reynslan hefir auk þess sýnt, að þetta er fastur tekjuliður. Þar eru engin stór stökk upp eða niður.

Um vörutollinn er það að segja, að árið 1925 nam hann 2176128 kr., 1926 1414817 kr., 1927 1167179 kr., 1928 1635946 kr. Í fjárlagafrv. er hann áætlaður 1350000 kr., en við leggjum til 1375000 kr. Það er miklu lægri upphæð en 1925, 1926 og 1928. 1927 er hún dálítið lægri, en mjer er ekki ljóst, hvaða ástæður liggja til þess.

Það er fyrirsjáanlegt, að árið 1930 verða vöruflutningar til landsins meiri en venjulega. Sennilega verða gjöldin meiri vegna alþingishátíðarinnar, en tekjurnar verða líka mun ríflegri en venjulega. Jeg held því, að ekki sje ástæða til að bera það fyrir sig sem grýlu, að útgjöldin verði svo mikil 1930. Hv. 2. landsk. og jeg viljum því ráða hv. deild frá því að samþ. lækkunartill. meiri hl. n. Jeg þori að fullyrða, að óhætt er að samþ. till. okkar minnihl.manna án þess að tekjur fjárl. verði áætlaðar óvarlega.