13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

16. mál, fjárlög 1930

Halldór Steinsson:

Jeg var að hugsa um að hætta við að kveðja mjer hljóðs að þessu sinni, því að jeg hefi andstygð á löngum ræðum, sjerstaklega undir fjárl., enda sýnist það svo, að lítið muni þýða að tala, þegar ekki er nema þriðjungur deildarmanna við; — en það þykir viðkunnanlegra, þegar maður á brtt., að geta þeirra að einhverju.

Jeg á fyrst XIII. brtt. á þskj. 617; það snertir bókasafnið í Stykkishólmi. Jeg skýrði við aðra umr. allítarlega frá þessu bókasafni, frá hag þess, hversu bágborinn hann væri, og jafnframt tók jeg það fram, að þetta væri langstærsta bókasafn landsins, að Landsbókasafninu undanskildu. Jeg ætla þess vegna ekki að endurtaka þau ummæli, sem jeg hafði um safnið þá, en vísa aðeins til þeirra.

Jeg hefi lækkað mjög þær brtt., sem jeg flutti við 2. umr., aðra um helming, en hina að miklum mun, þannig að jeg fer aðeins fram á 200 kr. árlega hækkun á framlagi úr ríkissjóði til sýslubókasafna, en lækka hinsvegar síðari brtt. mína úr 800 kr. niður í 400 kr. Jeg verð að segja það, að þegar jeg minnist þess, að fyrir fáum árum voru í einu veittar 3000 kr. til bókakaupa handa bókasafninu á Seyðisfirði, þá sýnist þetta vera ákaflega í hóf stilt, þótt safninu sje í eitt skifti fyrir öll veittar 400 kr., þessu safni, sem sannarlega tekur fram öllum stærri bókasöfnum í kaupstöðum þessa lands. Jeg vona því, að þessar litlu og smávægilegu brtt. mínar geti fundið náð fyrir augum hv. deildar.

Þá vil jeg minnast örlítið á brtt. mína við 23. gr., sem er undir XXXIII. á sama þskj. Jeg get verið þakklátur hv. fjvn. þessarar deildar fyrir það, að hún tók upp við 2. umr. málsins fjárupphæð til hafnarbóta í Ólafsvík, þótt sú upphæð væri ekki eins há og jeg fór fram á í brjefi mínu til n. Hinsvegar gerði jeg ráð fyrir því, að hv. n. myndi taka upp heimild til ábyrgðar á láni fyrir hreppinn, á móts við þá fjárupphæð, sem veitt var í fjárl., og jeg hafði því frekar ástæðu til að búast við því, þar sem hv. n. hafði tekið mjög vingjarnlega í það og frsm. n. hafði lýst því yfir, að hún hefði ekki gert það vegna þess, að hún hefði enga afstöðu tekið til 23. gr., og mundi því taka þetta atriði til athugunar til 3. umr., eins og önnur atriði 23. gr. Með því að mjer var kunnugt um, að hv. n. hafði ekki tekið upp þessa ábyrgðarbeiðni, flutti jeg brtt. um þetta. Hinsvegar hefir mjer skilist á nefndarmönnum, að þeir líti svo á, að óþarft sje að taka þetta upp, vegna þess að skýr og glögg ákvæði sjeu um þetta í hafnarlögunum frá 1919. Jeg verð að játa það, að jeg tel, að sú heimild sje nægilega skýr, og svo framarlega sem jeg hefði heyrt það á hv. frsm. n. eða á hæstv. fjmrh., að þeir teldu þessa heimild vera til staðar, og ef þeir gera það við þessa umr., þá mun jeg taka þessa brtt. mína aftur. Jeg flutti hana aðeins til að fá fulla vissu um það, hvern skilning fjvn. og fjmrh. leggja í hafnarlögin frá 1919.