01.05.1929
Efri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Hv. 6. landsk. andæfði brtt. mínum á þskj. 461 og færði til þess tvær ástæður. Fyrri ástæðan var sú, að till. rýrðu starfsfje Búnaðarbankans, en hin síðari, að viðlagasjóður væri óþarfur eftir að Búnaðarbankinn byrjaði að starfa, þar sem hann tæki að sjer verkefni viðlagasjóðs. — Fyrra atriðið get jeg ekki sjeð, að sje rjett. Að því er snertir veðdeild bankans er í frv. sjeð fyrir því, að vaxtabrjef veðdeildar gangi út, þar sem heimilað er að taka ríkislán til þess að kaupa þau, og annað fje þarf sú deild ekki að nota en það, sem hún fær fyrir vaxtabrjef sín. Þótt ríkissjóður verji ekki vöxtum og afborgunum af skuldabrjefum viðlagasjóðs til þess að kaupa vaxtabrjef veðdeildar Búnaðarbankans, rýrir það ekki starfsfje bankans svo lengi sem sjeð er fyrir því, að vaxtabrjefin seljist. Um þann hluta viðlagasjóðs, sem ætlaður er bústofnslánadeildinni, er það að segja, að eftir frv. er ákveðið, að sá hluti viðlagasjóðs skuli vera tryggingarfje, en ekki stofnfje. Kaflinn um bústofnslánadeildina inniheldur engin ákvæði um það, að vextir af þessu tryggingarfje skuli renna til þeirrar deildar sjálfrar, heldur verður að líta svo á eftir frv., að ríkið ætti þá vexti óbundna. Ennfremur er það svo eftir frv., að framlag ríkisins í peningum, 50 þús. kr. árlega í 6 ár. er talið tryggingarfje, en ekki stofnsjóður. A þessu gera till. mínar þá breytingu, að framlag ríkisins verður eign bústofnslánadeildar, og álít jeg, að það sje til bóta, líka frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja, að Búnaðarbankinn eignist sem mest sjálfseignarfje.

Þá kem jeg að hinni ástæðu hv. 6. landsk., og get jeg heldur ekki fallist á hana. Það er ekki nema eðlilegt, að þau verkefni viðlagasjóðs, er landbúnaðinn snerta, hverfi til Búnaðarbankans. Þetta er fullnaðarspor, að í stað þeirrar sundurlausu og oft ónógu hjálpar, sem viðlagasjóður gat veitt á þessu sviði, er sett fullkomin stofnun, sem fullnægir kröfum landbúnaðarins. En það má ekki gleyma því, að ýmsir aðrir atvinnuvegir eru enn skemra á veg komnir en landbúnaðurinn, og það atvinnuvegir, sem í nútíð, og þó einkum í framtíð, verða landinu mjög nauðsynlegir. Get jeg sem dæmi tekið þriðja stærsta atvinnuveg landsins, iðnaðinn.

Þegar settur er á stofn búnaðarbanki, sem er fær um að taka að sjer öll viðfangsefni til styrktar landbúnaðinum, virðist það ekki nema eðlilegt, að viðlagasjóður sje látinn óáreittur, til þess að hann geti aukið við sig eftir því sem skuldir innheimtast og tekið að sjer ný verkefni, nauðsynleg atvinnuvegum þjóðarinnar. Eitt af verkefnum hans gæti t. d. verið það, að veita hagkvæm lán til þess að koma á fót nauðsynlegum iðnaðarfyrirtækjum í landinu.

Jeg verð að álíta það skakt, ef á að afskera löggjafarvaldið frá því að styðja að eflingu annara atvinnuvega landsins með þessu móti, um leið og gerðar eru ráðstafanir til þess að efla landbúnaðinn. Jeg vil því alvarlega leggja hv. dm. það á hjarta, að viðfangsefni framtíðarinnar eru ekki tæmd, þótt sjávarútvegurinn sje kominn í gott horf og komið verði á fót stofnun, er fullnægi kröfum landbúnaðarins. Framþróunin verður að halda áfram á þann hátt, að fjölbreytni atvinnuveganna aukist samhliða því, að hver atvinnuvegur verður stærri og styrkari.