13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Þorláksson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 617, við 16. gr. 9. lið, um fjárframlag til að rannsaka og gera till. um raforkuveitur utan kaupstaða.

Brtt. mín fer fram á, að felt sje burtu það skilyrði, að á móti ríkissjóðsframlaginu komi fimtungs framlag frá hlutaðeigandi hjeraði. Ástæðan fyrir þessari brtt. er ekki sú, að jeg telji hlutaðeigandi hjeruðum ofvaxið að leggja þetta fram, heldur er hún miklu fremur sú, að með þessu skilyrði verði verkið ekki unnið á svo haganlegan hátt sem þarf. Það, sem þarf að gera, er að undirbúa heildarskipulag fyrir þessar raforkuveitur, og auðvitað fer best á því þannig, að það nái yfir sem flest hjeruð í einu, en ekki sje beint sundurlausum rannsóknum að einstökum hjeruðum. Það liggur í hlutarins eðli, að ef þessu skilyrði er haldið, sem jeg nú vil fella burtu, þá er ekki rjett að hafa þessa rannsókn á fleiri stöðum en þeim, sem hafa beðið um hana. Nú getur vel staðið svo á, að 1 eða 2 hreppar hafi bitið sig fasta í að virkja eitthvert vatnsfall og biðji um rannsókn og leggi fram þennan fimtung kostnaðar, sem settur er að skilyrði, en þá getur staðið svo á, að þetta strandi á þriðja hreppnum, sem óhjákvæmilega verður að taka þátt í því, en neitar að leggja fram sitt framlag.

Þá flyt jeg XIX. brtt. á þskj. 617. Hún er um það, að forstöðumanni efnarannsóknarstofu ríkisins sjeu veittar 700 kr. til þarabrenslutilrauna. Hann hefir nokkuð fengist við rannsóknir á því, hvort hægt muni vera að vinna joð úr þara hjer við land, svo að arður verði af, en segist þurfa að fá tækifæri til þess að senda nokkrar smálestir af þaraösku á erlendan markað, til þess að fá vitneskju um, hve markaðshæf varan sje. Mun hann síðan gefa almenningi skýrslu um árangurinn. Mjer finst ekki rjett að neita um þennan styrk, ef hann gæti leitt til dálítils atvinnurekstrar.

Þá á jeg brtt. á þskj. 619 um að veita 1000 kr. til dragferju á Hólsá, gegn jafnháu tillagi annarsstaðar frá. Þegar fjárl. komu frá Nd., voru í þeim 7500 kr. í þessu skyni, en sú upphæð var feld niður við 2. umr. í þessari deild, vegna þess að ekki þótti nægilega víst, að staðurinn væri öruggur, til þess að rjett þætti án frekari rannsóknar að verja svo miklu fje til þessa.

Hjer er um mikla samgöngubót að ræða fyrir Vestur-Landeyjar, en aðstaða þeirrar sveitar til samgangna hefir versnað mjög við hina svonefndu Djúpósfyrirhleðslu. Með henni voru Þverá og Rangá báðar sameinaðar í eitt fljót, Hólsá. Áin, sem áður hafði runnið eftir þessum farvegi, hafði auðvitað verið mikið vatnsminni og fær á hestum, en nú verður hún ekki farin nema á ferju. Sá ferjustaður, sem hjer um ræðir, er rjett fyrir ofan Djúpós, og á leið frá Reykjavík, þegar kemur yfir ána, skiftast leiðirnar. Liggur annar vegurinn niður með ánni og er bílfær, en hinn vegurinn liggur upp með Hólsá og Þverá. Þessa leið þarf að lagfæra nokkuð, til þess að hún verði bílfær, og hefir sýslunefnd Rangæinga þegar veitt fje til þess. Er ekki talin nein fyrirstaða á, að leiðin komi að fullum notum, ef ferja fæst. Vegamálastjóri hefir nýlega rannsakað staðhætti austur þar, og staðfestir umsögn hans þetta.

Munurinn á þeirri ferju, sem 7500 kr. voru veittar til í Nd., og þeirri, sem jeg flyt brtt. um við þessa umr., er sá, að nú er ekki gert ráð fyrir, að ferjan geti flutt hlaðnar flutningabifreiðir yfir ána, heldur sjeu bifreiðarnar affermdar á ferjuna og aðrir bílar taki við þeim hinumegin árinnar. Þó er gert ráð fyrir, að hún geti flutt tómar flutningabifreiðar, en annars er ætlunin að hafa staðbundna bifreið fyrir austan ána.

Vona jeg, að hv. deild geti fallist á að styðja þessa samgöngubót, sem er nauðsynleg bæði vegna flutninga að og frá, og ennfremur vegna þess að sú sveit, er nýtur mests góðs af henni, er óvenjulega mikil heyskaparsveit, og kemur oft fyrir, að uppsveitir Rangárvallasýslu þurfa að sækja heyskap sinn þangað. Þessi dragferja mundi greiða stórum fyrir því, að slægjur í Vestur-Landeyjum yrðu að meiri notum en verið hefir.

Þá á jeg XXIV. brtt. á þskj. 617, við 23. gr. IV. (Skeiðaáveitan), um að síðari málsl. falli burt. Við fyrri liðinn, sem hljóðar um það, að skipaðir verði 3 menn til að rannsaka ástand Skeiðaáveitunnar og hag bænda á áveitusvæðinu, hefi jeg ekkert að athuga. En seinni liðurinn, sem felur í sjer heimild til stj. til að taka að sjer lán þau, er á áveitunni hvíla, að þeim hluta, sem bændum er um megn að greiða þau, legg jeg til, að falli niður.

Jeg ber ekki þessa brtt. fram vegna þess, að jeg vilji sýna áveitubændunum neina ósanngirni, ef kringumstæður þeirra eru svo erfiðar, að þeir þurfa frekari styrks með en þeir fá árlega, heldur af því, að jeg álít, að þingið megi ekki selja stj. sjálfdæmi um þetta mál. Þetta á að berast undir Alþingi, eins og aðrar till. um útgjöld af opinberu fje.

Jeg vil í þessu sambandi rifja nokkuð upp af ummælum hæstv. dómsmrh., þegar raforkuveiturnar voru til umr. hjer í Ed. Jeg hafði vegna þingskapa ekki tækifæri til að leiðrjetta þá helstu fjarstæðurnar, sem hann fór með, enda þótt þörf væri á því.

Hæstv. dómsmrh. talaði mikið um mistök í framkvæmdum og áætlunum opinberra fyrirtækja hjer, sem stöfuðu af ófullkomnum undirbúningi af verkfræðinganna hálfu. Skeiðaáveitan hefði sett bændur á vonarvöl vegna þessara mistaka. Nú hefir verið útbýtt hjer vjelritaðri skýrslu, dags. í janúar þ. á. og undirritaðri af tveim málsmetandi mönnum austanfjalls. Þessi skýrsla sýnir, að kostnaður hefir orðið við áveituna um 424 þús. kr., en áætlunarupphæðin 1916 var 107 þús. kr. Nú sýnir skýrslan ennfremur, að af þessum 424 þús. kr. falla 114 þús. kr. undir liði, sem ekki eru teknir með í áætluninni, 22 þús. í mannvirki utan áætlunar og 92 þús. í afföll, vexti og afborganir, sem verkfræðingar reikna aldrei með, af því að þeir liðir tilheyra ekki sjálfri framkvæmdinni. Eftir verða þá 310 þús. kr. Eftir því hefir kostnaðurinn numið tæplega þrefaldri áætlunarupphæðinni, eða sem svarar vísitöluhækkun úr 100, þegar áætlunin var gerð, upp í 290, þegar verkið var framkvæmt. Þessi hækkun er ekki meiri en önnur verðlagshækkun í landinu á sama tíma, eða frá 1914 –1915 til 1919–1922, þegar aðalframkvæmdirnar voru gerðar. Hækkunin er því eðlileg afleiðing vaxandi dýrtíðar á vinnukostnaði og öðru verðlagi í landinu frá því að áætlunin var samin og uns verkið var unnið. Það er alveg fullkomlega eðlilegt, að verðlag á þessum framkvæmdum fylgi sömu lögmálum og annað verðlag í landinu. Skal jeg geta þess til frekari sönnunar, að þegar tekin var ákvörðun um Flóaáveituna í árslok 1921, var fult samkomulag um það meðal þeirra, sem að henni stóðu, að gera ráð fyrir, að áætlunarkostnaðurinn þrefaldaðist. En dýrtíðin fór heldur minkandi á þeim árum, sem Flóaáveitan stóð yfir, og því varð kostnaðurinn heldur minni en þrefaldur áætlunarkostnaðurinn.

Að því er hina margumræddu klöpp snertir, þá er það að segja, að rangt er, að verkfræðingarnir hafi ekki gert ráð fyrir henni í áætlunum sínum og að hún hafi komið þeim að óvörum. Í áætluninni er gert ráð fyrir um 12000 teningsmetrum af hraunklöpp í botni aðfærsluskurðarins, sem muni kosta 1.50 kr. á tenm., en annars var gert ráð fyrir meira en helmingi minni kostnaði á tenm. Nú reyndist svo, að af þessum 12000 tenm. voru 4200 svo harðir, að skurðgrafan tók þá ekki. Vinslan á þessum 4200 tenm. varð því miklu dýrari en 1.50 kr. á meter. Þó hefir klöppin ekki náð að hleypa kostnaðinum meira fram en eðlilegt var vegna hækkunar vísitölunnar, og stafaði það af því, að skurðgrafan gat unnið á 2/3 af hinni áætluðu hraunklöpp, og auk þess var gerð upphæð fyrir ófyrirsjeðum kostnaði, sem hægt var að hlaupa upp á. Það er því fullkominn misskilningur, að áætlunin hafi verið ógætileg og að útreikningarnir hafi valdið meiri vonbrigðum en vænta mátti eftir vaxandi dýrtíð.

Hinsvegar er því svo farið, bæði um Skeiða- og Flóaáveituna, að fjárhagsgeta manna á áveitusvæðinu veltur á því, að verkinu sje haldið áfram það langt, að menn geti gert afurðir sínar markaðshæfar. Nú er verið að byggja mjólkurbú við Ölfusárbrú, og er gert ráð fyrir, að Skeiðamenn verði þar einnig þátttakendur. Það mun óhætt að gera ráð fyrir því, að þegar nautpeningsrækt í Flóanum er komin á það stig, sem áveitan getur borið, þá verði vextirnir af áveitukostnaðinum ekki nema sem svarar 1 eyri á hvern lítra mjólkur, sem fer í mjólkurbúin. Þessi kostnaður yrði bændunum ekki tilfinnanlegur, ef vextirnir væru teknir beint af arði mjólkurbúsins. Sama hygg jeg, að yrði uppi á teningnum á Skeiðum. Að vísu er það rjett, að Flóaáveitan hefir notið nokkuð meiri hlunninda, vegna þess að hún hefir ekki þurft að bæta á sig vöxtum og afföllum af stofnkostnaðinum meðan verkið stóð yfir, og því er sanngjarnt, að ríkissjóður hlaupi nokkuð undir bagga með Skeiðabændum, vegna þeirra örðugleika, sem styrjöldin leiddi af sjer fyrir þessar framkvæmdir.

En þó má Alþingi ekki kasta frá sjer rjetti sínum í þessu máli. Hinsvegar eru sjerstakar, en þó ekki rjettmætar ástæður fyrir því, að stj. vill fá þessa heimild. Svo stendur á, að í fyrra fór hæstv. dómsmrh. í einn af sínum mörgu útreiðartúrum og komst austur á Skeið. Hann sagði þá við bændurna: Ríkið á að hlaupa undir bagga með ykkur. Þið eigið að greiða y8 skuldanna, ríkið 1/3 og 1/3 á að greiðast á þann hátt, að þið látið skækla af jörðum ykkar upp í þann hluta.

Eins og nærri má geta, ljetu Skeiðabændurnir sjer vel líka fyrsta liðinn, og þá ekki síður annan, að ríkið tæki á sig þriðjung skuldabaggans. En þegar kom að þriðja liðnum, vildu þeir helst eiga sínar jarðir sjálfir óskertar.

Nú var hæstv. dómsmrh. búinn að vekja svo miklar vonir, að honum þykir eðlilega leitt að þurfa að láta bændurna verða fyrir vonbrigðum, og því er farið fram á þetta nú. En þótt skemtilegt sje fyrir hæstv. dómsmrh. að uppfylla þetta loforð, þá álít jeg það ekki næga ástæðu til þess, að þingið afsali sjer rjettindum sínum og fjárveitingarvaldi í hendur hans.

Þá á jeg ekki fleiri brtt. sjálfur, en vil minnast með nokkrum orðum á tvær af þeim öðrum brtt., sem fram hafa komið.

Er það þá fyrst till. hv. fjvn. á þskj. 617, V., um að færa niður fjárveitingar til nýrra vega um 65 þús. kr. alls. Mjer heyrðist á hæstv. fjmrh., að honum væri þessi till. mjög geðþekk, og get jeg skilið það, þar sem búið er að hlaða svo miklu á fjárl. og auk þess að samþ. mikið af útgjaldaaukandi löggjöf. En jeg vil vara hann við því að byggja nokkrar vonir um lækkun á útgjaldaliðum fjárl. á því, þó að þessi till. verði samþ. Jeg er sannfærður um það, að ef till. verður samþ., verður það til þess, að hv. Nd. gengur ekki að fjárl. óbreyttum eins og þau koma hjeðan, heldur færir þennan lið upp aftur. Og það má enginn láta sig dreyma um það, að fjárl. geti komist í gegn við þessa einu umr. í hv. Nd. án töluverðrar hækkunar á heildarútgjöldunum, ef nokkurri brtt. verður hleypt þar að á annað borð. Það kom fyrir á meðan jeg hafði með höndum yfirstjórn fjármálanna, að fjárl. tóku breytingum við eina umr. í Nd., og kostaði aldrei minna en 100 þús. kr. hækkun á heildarútgjöldunum. Ef hæstv. fjmrh. lætur sjer því ant um að halda í hemilinn á hækkunartill., gerði hann rjettast í því að leggjast á móti þessari brtt. hv. fjvn., þar sem vitanlegt er, að ef hún verður samþ., verður það til þess, að fjárl. verða opnuð Í hv. Nd. og þar hleypt að ýmsum brtt., sem fleiri eða færri verða samþ. og allar eru til hækkunar á útgjöldunum.

Hin brtt., sem jeg vildi minnast á. er frá hæstv. dómsmrh., á þskj. 617, XXIX., um að kaupa til handa landinu, ef um semst, prentsmiðjuna Gutenberg með tilheyrandi húsum og lóð, fyrir alt að 155 þús. kr.

Það er nú svo, að landið hefir ekki átt eða rekið neina prentsmiðju til þessa. Ef hinsvegar á að fara að kaupa þessa prentsmiðju, getur það ekki þýtt annað en að ríkið taki að sjer rekstur hennar sem ríkisfyrirtækis á eftir. Nú má auðvitað um það deila, hvort þetta sje rjett, en um hitt verður ekki deilt, að það er rangt að ráðast í svona mikið fyrirtæki með því einungis að samþ. slíka heimild í 23. gr. fjárl. Það má ekki eiga sjer stað, að þingið sleppi úr höndum sjer ákvörðunarvaldinu um það, hvort starfsemi ríkisins eigi að færast yfir á ný og ókönnuð svið. Þingið verður að halda á þessu valdi sínu og afgreiða slík mál samkv. því, sem stjórnarskráin ákveður um lagafrv. Það verður að krefjast þess, að öll slík mál sjeu borin fram í lagafrumvarpsformi og gangi í gegnum 3 umr. í hvorri þd., að minsta kosti. Jeg álít, að þessi brtt. eða slík heimild sem þessi sje þess eðlis, að það sje skylda hæstv. forseta að vísa henni frá, af því að hún felur í sjer meira en fjárbrúkunarheimild fyrir árið 1930.

Um efni þessarar brtt. að öðru leyti skal jeg ekki ræða, enda er ekki tími til þess að ræða um það í sambandi við þetta fjárlagafrv., hvort það sje rjett eða rangt, að ríkið taki að sjer slíkan rekstur og starfrækslu, sem hjer er stefnt að. Allir þeir, sem kunnugir eru þessu fyrirtæki, Gutenberg, vita, að ef ríkið fer að kaupa það, verður næsta skrefið að leggja fram mikið fje til endurbóta á því, svo að það geti komist í það horf að teljast viðunandi ríkisprentsmiðja. Ef til vill verður sá kostnaður jafnmikill og kaupverðið, sem hjer er gert ráð fyrir, en þar fyrir er ekki hægt að gera grein fyrir því nú, hve mikil byrði rekstur slíks fyrirtækis kann að verða í framtíðinni.

Af þessum ástæðum teldi jeg rjett, að hæstv. forseti hleypti ekki þessari till. að, en ef hann getur ekki fallist á það, teldi jeg rjett af hv. deild að fella till., svo að hægt yrði á venjulegan og stjórnskipulegan hátt að gera út um það, hvort ríkið á að færast það nýmæli, sem hjer er stefnt að, í fang.