13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

16. mál, fjárlög 1930

Ingvar Pálmason:

Jeg á hjer allmargar brtt., ýmist einn eða með öðrum. Vil jeg gera grein fyrir þeim í stuttu máli.

Vil jeg þá fyrst minnast á brtt., sem jeg flyt með öðrum um að taka upp 3000 kr. utanfararstyrk til glímufjelagsins „Ármanns“ til að sýna íslenska glímu erlendis. Nd. hafði samþ. 4000 kr. fjárveitingu í þessu skyni, en hún var feld niður hjer við 2. umr. Þetta fjelag mun vera hið fjölmennasta glímufjelag hjer á landi og hefir sýnt mikinn dugnað í því að efla íþróttir. Nú er svo ástatt, að fjelagið hefir undirbúið för til Þýskalands, til að sýna íþróttir, og þó einkum glímu. Er ekki vansalaust að hætta við þá för, enda hafa þegar verið gerðar nokkrar ráðstafanir til móttöku í Þýskalandi. Jeg skal geta þess, að í þessu fjelagi eru meðlimir víðsvegar að af landinu og að til er ætlast, að menn úr öllum fjórðungum taki þátt í förinni. Þessi för ætti að geta orðið til að vekja áhuga fyrir og kynningu á íslensku íþróttalífi og Íslandi yfirleitt. Jeg vona því, að hv. deild geti gengið inn á að veita þessa fjárhæð, ekki síst þegar á það er litið, að í fjárl. er styrkur til annars fjelags í sama skyni, þótt lægri sje, og hygg jeg, að 3000 kr. til „Ármanns“ geti ekki talist of hátt, þegar á það er litið, því að hann mun vera hlutfallslega mannfleiri.

Þá er XIV. brtt. um lokastyrk til Maríu Markan til náms í söng. Umsókninni fylgja lofsamleg ummæli merkra þýskra söngdómara. Segja þeir, að ungfrúin hafi undurfagra rödd og mikla tónlistargáfu og eigi skilyrðislaust að halda áfram á listabrautinni. Hún hefir sungið opinberlega, og hafa þýsk blöð farið um hana lofsamlegum orðum, og fylgja umsagnir þeirra með umsókninni. bæði á frummáli og í þýðingu. Þótt lítið sje í þessum fjárl. af fjárstyrkjum til listamanna, sýnir þó saga þingsins, að það hefir oft verið fúst til að styrkja þessa menn.

Mjer virðist, að þar sem þetta er fyrsta konan, sem sækir um styrk til þess að ljúka fullnaðarnámi í sönglist, þá eigi þingið að bregðast vel við því. Ýmsir karlmenn hafa fengið opinberan styrk til söngnáms, en konur ekki; þess vegna finst mjer, að hv. þd. ætti að samþ. þessa fjárveitingu; það er aðeins um að ræða lokastyrk í eitt skifti fyrir öll.

Þá á jeg tvær brtt. á sama þskj., XXX. við 23. gr. Jeg flutti þær báðar við 2. umr. En af því að hv. fjvn. hafði ekki tekið afstöðu gagnvart neinum brtt. við þessa grein fjárl., þá tók jeg þær aftur. Fyrri till. fer fram á, að ríkissjóður ábyrgist alt að 125 þús. kr. lán fyrir Neskaupstað, til barnaskólabyggingar, gegn þeim tryggingum, er stj. metur gildar. Síðari till. fer fram á, að ríkissjóður ábyrgist alt að 80 þús. kr. lán fyrir Neskaupstað, til rafveitu. Jeg talaði fyrir þessum till. við 2. umr., og er óþarfi að enduraka það nú. Þó vil jeg taka það fram, að mjer er ekki kunnugt um, að Alþingi hafi neitað um ábyrgð á lánum til barnaskólabygginga í kaupstöðum, þegar sótt hefir verið um þau. Þegar Neskaupstaður hlaut kaupstaðarrjettindi samkv. lögum frá síðasta þingi, þá var um leið ljett kvöðum af ríkissjóði til barnaskólans þar. Það er venjulegt, að ríkissjóður leggi fram 1/3 byggingarkostnaðar við barnaskóla í sveitum og kauptúnum, en ekkert til barnaskóla í kaupstöðum. Má því segja, að ríkissjóður hafi losnað við þá kvöð með því að Neskaupstað voru veitt kaupstaðarrjettindi. En síðan komið var upp barnaskóla í Neskaupstað, hafa eigi verið lagðar nema 2000 kr. fram til hans úr ríkissjóði.

Jeg tel algerlega útilokað, að hv. þd. leggi á móti þessari till. — Aftur á móti má segja, að það sje öðru máli að gegna um síðari till., ábyrgðarheimild fyrir 80 þús. kr. lántöku til rafveitu, þó mjer þyki það undarlegt, ef þingið legst á móti henni, þar sem komið hafa inn í þessa gr. fjárl. í Nd. ábyrgðarheimildir fyrir þremur samskonar lánum til rafstöðva. En þó stendur nokkuð öðruvísi á um þessa till. mína; þetta er eini staðurinn af þeim, sem hjer um ræðir, þar sem búið er að framkvæma verkið, svo að ekki þarf með slíkri ábyrgðarheimild að ýta undir hlutaðeigendur. Hjer er aðeins verið að fara fram á, að Neskaupstaður geti átt kost á hagkvæmara láni. Og þó að hv. Alþingi vildi, af umhyggju fyrir Neskaupstað, eigi leggja á hann bagga nýrrar lántöku, þá er of seint að afstýra því nú, þegar framkvæmdum verksins er lokið. Hvernig sem á þetta er litið, þá held jeg, að ekkert af þessum þremur rafveitufyrirtækjum, sem nú hafa hlotið ábyrgðarheimild í fjárl., sje líklegra til að standa straum af lántökunum en rafveita Neskaupstaðar. Jeg hygg því, að þessi ábyrgðarheimild sje síst áhættumeiri en hinar. Auk þess er hjer um að ræða lægri lánsupphæð en þá lægstu af hinum þremur, og margfalt lægri en þá hæstu. Og jeg þori óhræddur að bera saman eignir Neskaupstaðar við eignir hinna kaupstaðanna, sem fengið hafa þessar ábyrgðarheimildir. Jeg vil mega vænta þess, að hv. þd. samþ. þessa till., en fari ekki að refsa þeim eina kaupstað, sem ráðist hefir í að leggja út í þessar framkvæmdir án þess að hann fengi fyrirfram loforð um ábyrgð ríkissjóðs fyrir láni til verksins.

Jeg á ennfremur till. á sama þskj. undir XXXV., ásamt hv. 2. þm. N.- M. og hv. þm. Seyðf. En hv. frsm. mætti svo vel fyrir henni, að jeg hefi þar engu við að bæta. Út af því, sem fram kom í umr. um 2. lið VI. brtt. á þskj. 619, frá hv. 6. landsk., að við till. bætist sú aths., að rit þessa prests, „Ættir Austfirðinga“, verði eign landsbókasafnsins að honum látnum, vil jeg aðeins segja, að jeg tel það fyllilega frambærilegt og hefi ekkert við það að athuga.

Þá á jeg enn brtt. á þskj. 619, III., með hv. 2. þm. N.-M., þess efnis, að veittur verði 5000 kr. styrkur úr ríkissjóði til þess að gera Lagarfoss laxgengan. Það mun ef til vill þykja of mikið að fara fram á helming kostnaðarins úr ríkissjóði, en þessi fyrirhugaða framkvæmd er einstæð í sinni röð og veltur á mjög miklu, hvort þessi tilraun ber góðan árangur eða ekki. Kunnáttumenn á þessu sviði hafa að vísu gefið miklar vonir um góðan árangur af þessari tilraun; en hún verður dýr, og það er erfitt að fá rjetta hlutaðeigendur til að leggja fram sinn hlut á móti; þeir búa dreifðir á stóru svæði, því að það eru fleiri en þeir, sem við Lagarfljót búa, sem hafa talsverðar veiðivonir, ef vel tekst. Hinsvegar er fullyrt af kunnáttumönnum, að ef það tekst að gera fossinn sæmilega laxgengan og stofna öflugt laxaklak, þá yrði hjer um að ræða fiskirækt í stærri stíl en nokkursstaðar þekkist hjer á landi.

Það er því fyllilega eðlilegt, að ríkið leggi nokkurt fje fram til þessarar tilraunar, þar sem hún verður svo miklu dýrari en önnur samskonar fyrirtæki hjer á landi. Fullyrt er af kunnáttumönnum, að það geti ekki kostað minna en 10 þús. kr.

Ennfremur er fullyrt af okkar færasta manni í þessum efnum hjer á landi, Pálma Hannessyni, að það sje ekki áhorfsmál að ráðast í þetta fyrirtæki, vegna þess að árangurinn muni verða svo mikill. Við höfum samt flutt varatill. um að veitt verði úr ríkissjóði 1/3 kostnaðar, alt að 3000 kr., og ber að skoða það sem endurveiting. Þar sem þingið hefir áður, fyrir tveimur árum, samþ. slíka fjárveitingu í þessum tilgangi, þá skil jeg ekki, að það sjái sjer fært að leggja á móti varatill. Við teljum að vísu fyllilega sanngjarnt, að þingið samþ. aðaltill. okkar, eins og allir málavextir liggja fyrir. Skal jeg svo ekki lengja umr. meira að sinni.