13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

16. mál, fjárlög 1930

Jón. Þorláksson:

Hæstv. dómsmrh. gat ekki í svari sínu gert neina tilraun til þess að hnekkja því, sem jeg hafði gert grein fyrir, að kostnaður við Skeiðaáveituna, eins og hún var áætluð 1916, hefir ekki orðið meiri heldur en eðlilegt var eftir áætlunarupphæðinni og breytingum á dýrtíðinni, sem lágu milli áætlunar og framkvæmda. Verkið var tæplega þrefalt dýrara en áætlað var. Hæstv. ráðh. hefir það nú eftir bændum á Skeiðum, að þeir hefðu aldrei ráðist í þetta fyrirtæki, ef þeir hefðu vitað, að það yrði dýrara en áætlað var í fyrstu. — Það má auðvitað segja þetta um alt, sem gert er á þessum árum. Hitt nær vitanlega engri átt, að klína á verkfræðingana ábyrgðinni á því, að verðlagið hækkaði á þessum árum.

Þá hefir hæstv. ráðh. það eftir þeim fyrir austan, að þeir sjeu ekki færir um að borga meira af áveitukostnaðinum en sem svarar krónutölunni í hinni upphaflegu áætlun. Jeg hygg, að þetta sje ekki rjett, en ef áveitan er svo ljelegt fyrirtæki, að eigendur hennar eru ekki færir um að standa straum af stærri upphæð en áætluð var 1916, er það sönnun þess, að þeir hafa ekki tekið rjetta ákvörðun, þegar þeir ákváðu að ráðast í verkið, ekki einu sinni eins og þá stóð á.

Eins og kunnugt er, er verðlagið hjer í landi 21/2 sinnum hærra nú en þegar þessi áætlun var gerð, þannig að hverjum manni er nú ekki erfiðara að borga 2.50 kr. en 1.00 kr. þá. Verkið er upphaflega áætlað 107 þús. kr., og ætti sú upphæð eftir verðlaginu 1928 að vera um 250 þús. pappírskrónur, en nú er skuldin öll 275 þús. pappírskrónur. Mismunurinn er 1/4 úr framlagi ríkissjóðs, sem skuldin er meiri nú en hún ætti að vera eftir upphaflegu kostnaðaráætluninni og eftir þeim verðbreytingum, er síðan hafa orðið. Það, sem á milli ber, er ekki það, hvort sanngjarnt sje að ljetta undir með eigendum Skeiðaáveitunnar, og veit jeg, að enginn hefir getað fundið út úr ummælum mínum neina beiskju í garð Skeiðamanna. Mjer er yfirleitt hlýtt til þeirra og jeg veit ekki annað en þeim sje meinlaust til mín líka. Það, sem deilt er um, er það, hvort hæstv. stj. eigi að vera einvöld í fjármálum landsins, eða hvort þingið eigi að halda fast á sínum rjetti, enda fann jeg það á orðum hv. frsm., að honum fanst alveg óviðeigandi að leggja slíka heimild í hendur stj. eftirlitslaust.

Hæstv. ráðh. þýðir ekki að vísa til þess í sambandi við þetta mál, að bankarnir hafi gefið mönnum upp skuldir. Jeg veit ekki til, að bankarnir hafi gefið neinum neitt, en hitt er rjett, að þeir hafa tapað miklu fje. Hefir einn bankastjóri leiðrjett þetta í minni áheyrn og sagt, að þeir hefðu tapað því fje, sem ekki væri unt að fá inn, og þetta hygg jeg rjett vera. En þótt Landsbankinn hafi ekki gert það að gefa mönnum upp skuldir, hygg jeg, að Alþingi gæti gefið Skeiðafjelaginu fje úr ríkissjóði, ef því sýnist svo, jafnvel þótt það fjelag gæti borgað. Hinsvegar hygg jeg, að það sje of snemt að gera það upp á yfirstandandi ári, hvort bændur eru færir að borga sinn áveitukostnað, og álít jeg, að það sje ekki hægt fyr en búið er að koma upp því mjólkurbúi, sem verið er að reisa. Þess vegna er það rjetta leiðin að veita hæfilega upphæð í fjárl. til þess að ljetta undir vaxtagreiðslu þessara manna í bili.

Þá gat hæstv. ráðh. þess, að áin hefði reynst lítil eftir þennan snjólausa vetur. Það er nú svo, að óvenjulegt árferði hefir óvenjulegar afleiðingar í för með sjer. Áður en áætlunin var gerð höfðu verið gerðar vatnshæðarmælingar um alllangt skeið, eða frá 1906–1907. En þótt vatnshæðarmælingar hafi verið gerðar í nokkur ár, geta altaf komið einstök ár að veðráttu, með lægra vatnsborði í ánni og þar af leiðandi of litlu vatni í áveitunni.

Hæstv. ráðh. lýsti því nú, að það væri í ráði að gera ráðstöfun til umbóta á þessu, sem kostaði tiltölulega lítið fje, samanborið við það, sem öll áveitan kostaði, og verð jeg að telja þeim verkfræðingum, sem fyrir þessu hafa ráðið, það til lofs, að þeir hafa frá upphafi valið þá tilhögun, sem gerir slíka umbót mögulega. Nei, það er alveg sama, hve margar ræður hæstv. ráðh. heldur um þetta, hann getur aldrei komið því inn í meðvitund nokkurs manns að gera þær kröfur um Skeiðaáveituna, að framkvæmdir hennar verði ekkert dýrari fyrir það, þótt alt verðlag í landinu þrefaldist frá því að áætlun var gerð og þangað til framkvæmd verður. Það kemur nú fyrir hæstv. ráðh. sjálfan, að hann þarf að beita fyrir sig sjerfræðingum, og hann vísaði nú til þess, þegar hann fór að tala um prentsmiðjukaup sín, að hann hefði notið þar aðstoðar sjerfræðings, til þess að reikna út, hvort það borgaði sig fyrir ríkið að kaupa sjer prentsmiðju. Jeg hafði heyrt það, og líka hitt, að sjerfræðingurinn hefði verið sendur af stað með þeirri vitneskju, að ef hann kæmist að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að koma upp ríkisprentsmiðju, þá gæti hann, sem er ungur maður, átt þess sæmilega vísa von að verða forstjóri við þessa prentsmiðju, með launum, sem að minsta kosti þykja sæmilega há meðal manna, sem eru í prentarastjett. Þannig fór hæstv. ráðh. að. Jeg vil ekki gera þessum unga manni getsakir; það getur vel verið, að hann hafi staðist þá freistingu, sem lögð var þarna á veg hans, en jeg fullyrði það, að það, sem þeir sjerfræðingar hafa gert, sem hafa sjeð um Skeiðaáveituna, hafa þeir gert í góðri trú, hversu mikið sem hæstv. ráðh. lætur sjer sæma að baknaga þá hjer, því að ekkert af því, sem hann segir um þann undirbúning, þarf jeg að taka til mín persónulega. En svo jeg víki aftur að því með prentsmiðjuna, þá held jeg, að segja megi nokkuð það sama um hana og till. um Skeiðaáveituna. Hæstv. ráðh. sagði, að ef nokkur von væri um það, að Skeiðamenn gætu borgað, þá væri mín till. alveg rjett, og meiri viðurkenningar get jeg ekki vænst af hæstv. ráðh. Það á að gera út um það, hvort þeir geti borgað; hæstv. ráðh. vill slá fastri þeirri niðurstöðu fyrirfram, að þeir geti ekki borgað, og einungis þess vegna sje till. mín ekki rjett.

En hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir því frá sínu sjónarmiði, að það væri rjett, að landið eignaðist prentsmiðju. Jeg skal ekkert fara út í að ræða það, því jeg gerði það ekki að neinu aðalmáli, heldur hitt, að þar kemur það sama fram, að það er farið fram á það, að þingið afsali sjer þeim rjetti, sem það þó hefir til þess að taka í löglegu formi ákvarðanir um landsmál, en feli stj., í þessu tilfelli hæstv. dómsmrh., að taka ákvarðanir í sinn stað. Það er einvaldstilhneiging hæstv. ráðh., sem er undirstaðan í þessum till. hans við 28. gr., um Skeiðaáveituna og prentsmiðjukaupin.

Jeg tók svo eftir, að það hefði verið samþ. á þinginu í fyrra fyrir atbeina hæstv. ráðh. sjálfs að láta fara fram rannsókn á því, hve tiltækilegt þætti, að landið kæmi upp eða eignaðist prentsmiðju. Hæstv. ráðh. skýrði a. m. k. frá því, að rannsókn hefði farið fram samkv. slíkri áskorun, en hvort nú má gera ráð fyrir, að þingið eigi að láta slíkt mál til sín taka, þegar lokið er þeirri rannsókn, sem þingið hefir beðið um, er eftir að vita. Jeg held, að það hafi altaf verið svo hingað til, að það hafi þótt sjálfsagt að leggja niðurstöðu slíkrar rannsóknar fyrir þingið, þannig að önnurhvor deildin eða báðar fengju tækifæri til að vísa því máli til n. og fá um það álit frá n., og taka svo ákvörðun um málið, svo sem stjórnarskrá og þingsköp áskilja. En hvernig er svo farið að þessu hjer? Hæstv. ráðh. laumast með þetta að okkur með brtt. við 3. umr. fjárl., án þess að vitað sje, að rannsókn eða niðurstaða hennar hafi verið lögð fyrir nokkra n. í þinginu. Jeg held, að hún hafi ekki einu sinni verið lögð fyrir fjvn. þessarar deildar, sem þó hefir fjárlagafrv. til meðferðar, og hafi það verið, þá hefir það a. m. k. ekki komið fram í álitum fjvn. Það er þetta, sem mjer finst vera fullkomlega átöluvert, að það er gerð tilraun af stj. hálfu til þess að hindra, að um þetta sje höfð venjuleg þingmeðferð. Og þetta er náttúrlega því óforsvaranlegra, sem hjer er um að ræða að setja upp allstóra og nýja ríkisstofnun og framhaldandi starfrækslu. Jeg talaði ekkert um, að þetta væri stjórnarskrárbrot, og því síður að það væri brot á gluggum á ráðhúsi suður í Kaupmannahöfn, eins og hæstv. ráðh. var að gera mjer upp, en verð að halda fast við hitt, að það er allskostar óviðeigandi að taka svona ákvörðun með slíkri smágrein inni í einni gr. fjárlaganna.

Jeg þarf ósköp lítið að svara hæstv. ráðh. um það, hvort það sje rjett eða nauðsynlegt, að ríkið fari inn á þessa braut. Jeg fyrir mitt leyti vil ekki gjarnan taka afstöðu til slíks að órannsökuðu máli, en órannsakað mál er það fyrir mjer, þótt hæstv. ráðh. hafi skýrt mjer frá því í einni ræðu með nokkrum tölum úr skýrslu þeirra sjerfræðinga, sem hann hefir fengið sjer til aðstoðar. En um þann samanburð, sem hæstv. ráðh. gerði um það verkstæði, sem jeg kom upp fyrir ríkissjóð, er það að segja, að það stóð svo á um það, að engin eftirspurn var eftir brúm hjer á landi, nema af hálfu ríkissjóðs, og þess vegna ekkert verkstæði, sem fjekst við það að byggja brýr og það voru engir, sem hefðu viljað leggja fje í það að stofna verkstæði til þess, af því að svo lítil eftirspurn var eftir þeirri vöru. Það varð þá annaðhvort að gera það á ríkisins kostnað eða sækja það til útlanda. En þessu er ekki til að dreifa um prentsmiðju; það er algerlega jafnhægt að fá alt prentað innanlands, hvort sem ríkið á sjálft prentsmiðju eða ekki. En þá sagði hæstv. ráðh., að jeg myndi ekki kaupa lengi alla prentun, heldur fá mjer sjálfur prentsmiðju. Þar skjátlast nú hæstv. ráðh. Jeg hafði einu sinni allmikinn rekstur, sem útheimti prentun, og hugsaði jeg þá sem svo: Það er ekki vert að vera altaf að kaupa prentun af öðrum, — og jeg rjeðst í það að koma upp prentsmiðju með öðrum, til þess að prenta það, sem við höfðum með höndum. Jeg ætla ekki að segja þá sögu, en jeg við segja hæstv. ráðh. það, að jeg hefi reynt að gera mjer það að reglu að láta ekki þá menn, sem hafa verið í fyrirtækjum með mjer, tapa fje sínu, en jeg held, að aldrei hafi hurð skollið nær hælum með það að forða mjer og mínum fjelögum frá tapi heldur en í þessu fyrirtæki, sem við þóttumst hepnir að losna við að lokum. Jeg get því fullvissað hæstv. ráðh. um það, að mín reynsla er svo, að jeg mun ekki ráða neinum vini mínum, hvorki ríkissjóði nje öðrum, til að feta þann feril, sem jeg komst út á og þóttist heppinn að geta forðað mjer frá. Þetta sagði jeg aðeins af því að hæstv. ráðh. sagði, að ef jeg hugsaði um mitt eigið, mundi jeg vilja hafa prentsmiðju. En það er ekki. Jeg myndi forðast það í allra lengstu lög. Niðurstaðan af öllum ræðum hæstv. ráðh. í þessu máli er þá það, að jeg álíti, að það borgi sig aðhafa prentsmiðju. Jeg álít, að prentsmiðja geti ekki borgað þá ánægju, að þingið afsali sjer öllu valdi um þau mál í hans hendur. En þetta veit jeg, að verður gert, því að þeir eru svo þægir í hans flokki, en jeg hefi viljað segja þessi orð, til þess að það sjáist, að jeg tel það rangt, að þingið afsali sjer því valdi, sem það á að hafa.