13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Jónsson:

Það fer nú óðum að líða að því, að fjárl. verði send til hv. Nd. á ný. Mjer þykir gott til þess að vita, að till. fjvn. hafa sætt litlum andmælum hjer í hv. deild. Flestar brtt. hv. þm. snerta ekki till. n., heldur ýmislegt það, sem áður var komið inn í fjárl., auk ýmissa nýrra liða, sem einstakir þm. vilja koma inn í lögin. Hv. þm. Seyðf. hefir flutt till. um að hækka tekjubálkinn nokkuð. Það er gleðilegt, að gamall og reyndur þm. skuli líta svo á þetta mál, að tekjurnar sjeu varlega áætlaðar í fjárlagafrv., og jeg vildi vona, að svo færi eftir. Jeg er nú að vísu ungur og óreyndur í þessum sökum, en mjer finst óneitanlega dálítið varhugavert að áætla tekjurnar til muna hærri en þær reyndust næstsíðasta ár. Nú eru tekjurnar áætlaðar um 12 milj. kr., en 1928 voru þær ekki áætlaðar nema 10.8 milj. kr. 1927 voru þær áætlaðar 10.4 milj. kr., 1926 10.8 milj. kr., 1925 9.8 milj. kr. og 1924 9.2 milj. kr. (JóhJóh: En hvað reyndust tekjurnar?), Það er að vísu rjett, að tekjurnar reyndust nokkuð meiri en þær voru áætlaðar, sjerstaklega árið 1925. Þá voru tekjurnar miklu hærri, vegna skattahækkunar og sjerstaks góðæris. En nú eru tekjurnar áætlaðar miklum mun hærri en nokkru sinni áður. Og þó nú sú hafi orðið raunin á, að tekjur hafa farið fram úr áætlun, þá hefir löngum mátt sama segja um gjöldin. Og í þessi fjárl. er ýmislegt ekki tekið, sem þó sjáanlega kemur til útgjalda á þessu ári vegna laga frá þessu þingi. Væri það æskilegt, ef tekin væri upp sú þingregla, að taka öll slík útgjöld upp í fjárlögin. Með því gætu þau orðið glöggari spegill af fjárhagsástandinu eins og það raunverulega er á hverjum tíma. Jeg held því, að vel geti talist forsvaranlegt af fjvn. að áætla tekjubálkinn ekki hærri en þetta. Hinsvegar eru mestu vandræði að þurfa að afgr. fjárl. með miklum tekjuhalla. Með tilliti til þess höfum við lagt til, að lækkuð verði fjárframlög til verklegra framkvæmda um 80 þús. kr. Skal það fullkomlega játað, að í augum okkar er þetta hið mesta neyðarúrræði, og jeg hygg það flestum viðkvæmt mál, að skera framlög til verklegra framkvæmda mjög við neglur. En með því að við álítum fyrstu skyldu þingsins að ganga vel frá fjárl. og á hinn bóginn álítum við forsvaranlega sjeð fyrir verklegum framkvæmdum á næsta ári, þá hikum við ekki við að flytja þessar lækkunartillögur. Samkv. frv. er ætlað til nýbyggingar þjóðvega 372 þús. kr., en eftir skýrslu vegamálastjóra var miklu minna fje varið til þess á næstu undanförnum árum. 1926 var varið til slíkra vegalagninga ekki nema 125 þús. kr. og 1927 var varið til þeirra 297 þús. kr. og 1928 291 þús. kr. Eftir þessum tölum að dæma er í þessum fjárl. veitt 70–80 þús. kr. meira til nýbyggingar þjóðvega en nokkru sinni áður hefir verið varið til þeirra. Auk þess er nú veitt rúmum 40 þús. kr. meira til sýsluvega en undanfarið. Þau fjárframlög hafa áður ekki farið fram úr 70 þús. kr., en eru nú rúmar 110 þús. kr. Þetta sýnir og sannar ómótmælanlega, að í þessum fjárl. er ætlað miklu meira fje til vegabóta en áður, og þess vegna er það vel forsvaranlegt að lækka þau fjárframlög um þetta litla, sem n. hefir lagt til, því að enda þótt það nái samþykki, verður fjárveiting ríkissjóðs til vegalagninga eigi að síður miklu meiri en nokkru sinni áður. Jeg get ekki skilið, að þetta komi svo harkalega niður nokkursstaðar, að hv. Nd. umturni fjárl. fyrir þær sakir og sendi okkur þau aftur. Þessu til sönnunar vil jeg benda á, að formælendur þeirra vega, sem verða harðast úti, ef þessar till. n. verða samþ., hafa engum mótmælum hreyft hjer í d.

Jeg skal nú leiða hjá mjer að blanda mjer inn í deilu hæstv. dómsmrh. og hv. 3. landsk. Jeg skal játa það út af því, sem til orða hefir komið í sambandi við Skeiðaáveituna, að þessi leið er mjög tvísýn, en þó býst jeg við, að öllu athuguðu, að önnur leið væri ekki öllu ódýrari. Hjer er um fullkomið vandræðaástand að ræða; það hefir ekkert verið greitt í afborganir af þeim lánum áveitunnar, sem ríkið stendur í ábyrgð fyrir. Það er því fyrirsjáanlegt, að það lendir að lokum á ríkinu að greiða þessi lán, og þess vegna er best að gera þau upp fyr en seinna. Í því trausti, að ríkisstj. gæti fylstu varúðar í þessum efnum og skipi ábyggilega og hæfa menn til þess að framkvæma rannsókn þá, sem að sjálfsögðu verður að fara fram, sje jeg mjer ekki fært annað en að verða með þessari ráðstöfun. Mjer er einnig kunnugt um, að hæstv. atvmrh. liggur þetta mjög ríkt á hjarta, og þykist jeg mega treysta honum til alls hins besta í þessu máli.

Jeg skal að lokum geta þess út af brtt. 35, þar sem ræðir um eftirlaun sr. Einars Jónssonar á Hofi í Vopnafirði, að þar hefir misritast, að bókin „Ættir Austfirðinga“ verði eign þjóðskjalasafnsins, í stað Landsbókasafnsins. Það mun eiga betur við, að Landsbókasafnið fái bókina. Það gladdi mig, að þessi góði maður sætti sig við þessa skilmála. Varð það mjer nokkur sönnun þess, sem um þennan mann hefir verið sagt hjer í þessari hv. deild, og hygg af því og öðru, sem greinargóðir menn herma um þennan mann, að síst muni það lof um verðleika fram, sem á hann hefir verið borið hjer undir umr.