15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

16. mál, fjárlög 1930

Einar Jónsson:

* Jeg vona, að hv. samþingismenn mínir í þessari hv. deild geti ekki borið mjer það á brýn, að jeg hafi þann tíma, sem jeg hefi setið á þingi, verið frekur til bitlinga fyrir mig eða mína nje heldur hjerað mitt. Jeg fann þó að þessu sinni ástæðu til þess að sækja um nokkrar nauðsynlegar fjárveitingar til hjeraðs míns. Á jeg þar við styrk til dragferju, fjárveitingu til rannsókna á vatnamálum og sandgræðslustyrk. Nd. tók vel í þessar umsóknir, en hv. Ed. fanst rjettlátt að fella tvær fjárveitingarnar niður, svo að nú stendur ekki nema ein eftir.

Vík jeg þá fyrst að dragferjunni yfir Hólsá. Mintist jeg á það við 3. umr., að umsóknin, eins og hún var þá, væri miðuð við mælingar og rannsóknir þeirra Jóns Ísleifssonar verkfræðings og vegamálastjóra. Taldi Jón Ísleifsson, að ferjan myndi kosta 13500 kr., en samkv. áætlunum vegamálastjóra var kostnaður áætlaður 15000 kr. Við þm. kjördæmisins gengum inn á, að hjeraðið tæki að sjer helming kostnaðar, og fórum því fram á, að þingið veitti 7500 kr. Ætluðum við að vinna til að leggja á okkur helming kostnaðar. En Ed. feldi þessa fjárveitingu niður. Einn hv. þm. í Ed. tók málið upp í breyttri mynd að minni tilhlutun og fór fram á 1500 kr., gegn helmingi frá hjeraðinu. Skal jeg skýra frá því, í hvernig á þeirri lækkun stendur. Í áætlunum Jóns Ísleifssonar og vegamálastjóra var gert ráð fyrir því, að ferjan gæti flutt hlaðinn bíl, og með því móti gat hún ekki kostað minna.

En síðar komst Jón Ísleifsson og Landeyingar að því við nánari rannsókn, að mikil bót gæti verið að ferju, sem fermdi vörurnar af bílnum og ljeti annan bíl taka þær hinumegin. Með því móti væri hægt að komast af með 3000 kr.

Við þm. Rang. flytjum hjer brtt. á þskj. 646 sama efnis og áður hefir verið samþ. hjer, en Ed. feldi niður, að hækka sandgræðslustyrkinn úr 40 þús. upp í 52 þús., og gangi 12 þús. af þeirri upphæð til sandgræðslugirðinga á Rangárvöllum. Nú hefir hv. fjvn. fundið aðra leið, sem er ódýrari fyrir ríkissjóð, en dýrari fyrir okkur, en þó mun jeg láta til leiðast fyrir mitt leyti að taka brtt. okkar aftur, í þeirri von, að brtt. minni hl. fjvn. verði samþ.

Læt jeg svo úttalað um þetta mál. En á þskj. 646 á jeg eina brtt. enn. Hún er þess efnis, að liðurinn til Jóns Leifs falli niður. Ber jeg fram þessa till. í þeirri von, að okkur Rangæingum verði veitt sem því svarar til sandgræðslunnar. Ef við fengjum þörfum okkar lítilsháttar fullnægt í þessu efni, myndi jeg ekki setja mig upp á móti því, að Jón Leifs fengi þennan styrk, en mig fýsir að sjá, hvort hv. deild vill heldur styrkja þá, sem eiga að stríða við vatnabrot, sandfok og hverskonar náttúruörðugleika og láta Jón syngja svolítið minna, eða hið gagnstæða.

Jeg er ekki vanur því, að ræða brtt. annara þm. Þó get jeg ekki stilt mig um að minnast hjer á eina. Það er XXI. brtt. á þskj. 646, frá hv. þm. Barð., um að lækka styrkinn til stórstúkunnar um 2000 kr. Það er till., sem mjer líkar vel og jeg mun styðja, þó að þefað verði af mjer í kvöld eða á morgun eða hvenær sem það verður. Jeg leyfi mjer að síðustu að vænta þess, að hv. deild taki vel í þessar till. mínar, enda eru þær engar stórfeldar. Jeg er ekki vanur að betla fyrir hjerað mitt, enda er jeg ekki að því nú, en mjer finst Rangæingar eiga skilið að fá einhverja hjálp, þegar önnur hjeruð fá tugi þúsunda.

Ræðuhandr. óyfirlesið.