15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

16. mál, fjárlög 1930

Gunnar Sigurðsson:

1 Hv. samþm. minn (EJ) hefir nú talað fyrir þeirri till., er við flytjum saman, og hefi jeg þar litlu við að bæta. Hv. samþm. minn hefir nú tekið sína till. aftur, sandgræðslustyrkinn, og gengið inn á till. minni hl. fjvn., að styrkurinn nemi 10 þús. kr. Hv Ed. feldi þennan styrk niður, og er þetta því mikil bót í máli, þótt jeg hefði heldur kosið, að till. hv. þm. yrði samþ.

Þá höfum við, hv. samþm. minn og jeg, borið fram brtt. við 13. gr. B. III, nýr liður: Til dragferju á Hólsá, gegn jafnmiklu tillagi annarsstaðar að, alt að 1500 kr. Jeg skal taka það fram, að jeg er óánægður yfir því, að betri leiðin var ekki tekin og gerð örugg dragferja, sem tekið gæti bíla, eins og fyrst var til ætlast. Veit jeg ekki, hvort hlutaðeigandi hreppar sætta sig við, að þessi leið verði tekin, en treysti þó því, að þeir geri það, og vona jeg, að hv. deild samþ. þennan litla styrk.

Þá á jeg brtt. á sama þskj., sem jeg flyt ásamt hv. þm. N.-Þ., til Finns Jónssonar listmálara, 10 þús. kr., til þess að byggja vinnustofu, gegn þeim tryggingum, sem stj. metur gildar. Jeg veit, að flestir hv. þm. hafa heyrt talað um þennan málara. Hann hefir stundað nám bæði við listskólann í Kaupmannahöfn og Dresden, og hefir verið lokið miklu lofsorði á hann bæði hjer og erlendis. Nú vil jeg benda hv. þdm. á það, að hjer er aðeins um lán, en ekki styrkveitingu að ræða. Ennfremur vil jeg geta þess, að þessi leið hefir verið farin áður, t. d. hvað snertir Einar Jónsson myndhöggvara, og mun það verða þjóðinni til ævarandi sóma. Samskonar lán hefir einnig verið veitt Ásgrími Jónssyni og Jóni Stefánssyni. Því er svo farið um listamenn okkar, að þeir eiga yfirleitt við mjög örðug kjör að búa, einkum sökum fámennis. Jeg tel, að það myndi margborga sig, að ríkið legði eitthvað af mörkum til þessara manna, annaðhvort sem lán eða styrki, því að á því getur enginn efi leikið, að einhver þeirra mun vinna þjóð sinni það gagn, er margfaldlega svarar þeirri fjárhæð, er fram væri lögð.

Þá hefir minni hl. fjvn. borið fram hækkunartill. á styrk til akvega. Jeg hefi jafnan verið því fylgjandi að auka samgöngur á landi, en þó neyðist jeg til þess að greiða atkv. gegn till. hv. minni hl. Er það þó ekki vegna þess, að jeg skilji ekki nauðsyn þess að leggja þessa vegi, heldur vegna þess, að jeg met það meira, að fjárl. verði afgr. tekjuhallalaus frá þinginu að þessu sinni, og vænti jeg þess þá ennfremur, að þessir vegir verði bættir á næstu árum.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.