15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

16. mál, fjárlög 1930

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg hefi leyft mjer að flytja brtt. ásamt tveim öðrum hv. þdm., þar sem farið er fram á, að styrkurinn til Frjettastofunnar verði hækkaður upp í það sama og hann hefir verið undanfarin ár, en eins og menn hafa sjeð, var hann færður niður í frv. hæstv. stj.

Ástæðan til þess, að styrkurinn var lækkaður, mun aðallega hafa verið sú, að skeytasendingar höfðu lækkað í verði, og áleit þá hæstv. stj., að stofan mundi komast af með minni upphæð til starfsemi sinnar. En starf Frjettastofunnar hefir allmjög aukist, og meðfram vegna þess, að hún hefir tekið að sjer útvarpsfrjettir landssímans ríkinu að kostnaðarlausu, en sú starfsemi fjelli niður, ef styrkurinn lækkaði. Er hjer um lítið annað að ræða en tilfærslu á fje úr einum vasanum í annan, því að mestur hluti kæmi aftur í landssjóðinn fyrir skeytasendingar. Jeg get því varla trúað öðru en að hv. d. fallist á till. þessa, þegar sýnt er, að hægt er að kaupa mikil þægindi á ódýrán hátt.

Eins og kunnugt er, hefir Frjettastofunni verið haldið uppi af flestum aðalblöðum höfuðstaðarins, en það eru þessi eftirtalin blöð: Tíminn, Vörður, Morgunblaðið, Ísafold, Vísir og Alþýðublaðið. Er með þessari upptalningu sýnt, að hjer er um algerlega ópólitíska stofnun að ræða, þar sem að henni standa blöð af öllum stjórnmálaskoðunum, enda hefir Frjettastofan reynst hlutlaus í frásögn sinni, og er það ekki lítill kostur í því moldviðri, sem vitlaus blöð þyrla upp til þess að lita frásagnir sínar. Það er því ekki lítið áríðandi fyrir allan landslýð að hafa frjettastöð, sem vitað er um, að treysta má, að segi satt og rjett frá því, sem gerist. Auk þess eru mörg blöð úti um landið, sem njóta frjettastofunnar, og frjettafjelög stofnuð víðsvegar um land, sem standa í sambandi við þessa starfsemi, og í þriðja lagi safnar Frjettastofan saman öllum frjettum landssímans um skipakomur, veðráttu o. fl. og útvarpar þeim fyrir ríkið. Og þar sem liggur í loftinu að stofna hjer radióstöð, þá liggur í augum uppi, að þörf er á slíkri starfsemi sem þessari, að senda frjettir með útvarpi á meðan stöðin tekur ekki til starfa. Þetta er bæði ódýrt og þarft, og það sem mestu skiftir, eins og jeg hefi tekið fram, að allir eru sammála um hlutleysi Frjettastofunnar, af því að blöð allra flokka halda henni uppi.