15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

16. mál, fjárlög 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það er nú þegar ljóst orðið, af þeim sæg brtt., sem fyrir liggur, að hv. fjvn. hefir ekki getað orðið sammála um afgr. fjárlagafrv., og tel jeg það illa farið. Því að standi hv. fjvn. saman eins og að undanförnu, þá getur hún að miklu leyti ráðið um afgreiðslu fjárl. í deildinni.

Jeg skal þá ekki draga neina dul á það, að jeg mundi helst kjósa, að frv. tæki sem minstum breyt. frá því hv. Ed. lagði síðustu hönd á það. Jeg geri líka ráð fyrir, ef miklar breytingar verða gerðar nú, að þær fari í þá átt að hækka útgjöldin að óþörfu, og gætu þá orðið þess valdandi, að hv. Ed. vildi ekki samþ. frv. óbreytt og tæki þann kost að senda það í sameinað þing.

Þegar litið er yfir brtt. þær, sem fyrir liggja, leynir sjer ekki, að þar er um margar afturgöngur að ræða, sem búið er að fella í báðum deildum. Og um flestar þessar till. verð jeg að segja það, að mjer fyndist enginn skaði skeður, þó að þær væru feldar.

Jeg ætla mjer ekki að gera að umtalsefni einstakar brtt., sem hafa í sjer fólgnar litlar breyt. til útgjalda. Heldur mun jeg aðallega snúa mjer að till. hv. fjvn., sem er þó tvískift og ber till. sínar fram í tvennu lagi, án þess að um nokkurn meiri hl. sje að ræða.

Jeg vil þá fyrst snúa mjer að brtt. um að fella niður fjárveitingu til Fjarðarheiðarvegar, og er þessi till. í raun og veru sú einasta af öllum brtt., sem fyrir liggja, er jeg tel sjálfsagt, að verði samþ., og því harðánægður, þó að allar aðrar brtt. fjellu.

Jeg held, að það beri ekki nauðsyn til að færa rök fyrir því í þetta sinn, hvers vegna liður þessi eigi að falla niður, enda hefir oft verið um það talað, og nú síðast tekið mjög greinilega fram af hv. 1. þm. N.-M., sem telja má, að þekki alla málavexti betur en nokkur annar hv. þdm. Hinsvegar er vitað, að með þessari fjárveitingu er verið að leggja til, að byrjað verði á stórfyrirtæki, sem kosta mundi ríkissjóð um 1/2 milj. króna um það er lokið er. Það er ekki upphæðin ein, eða þessar 27 þús. kr., sem veltur á, heldur hitt, að ef Alþingi byrjar með að veita þetta, þá verður það skoðað óbeinlínis sem loforð um það, að halda veginum áfram uns lokið er við að leggja hann. Ef taka á þennan veg fram yfir ýmsa aðra vegi, sem nú eru í smíðum, þá hlýtur framlenging þessa dýra vegar að draga úr framlengingum margra vega, sem nauðsynlegra væri þó að láta ganga fyrir. Seinna meir, þegar búið er að ljúka þeim aðalvegum, sem nú eru í smíðum, má vel vera, að sæmilegt verði talið að leggja veg yfir Fjarðarheiði, ef peningar eru þá fyrir hendi, en sem stendur verður það hvorki talið tímabært nje forsvaranlegt. Því að vitanlegt er, að þarna er um fjallveg að ræða í einhverju versta og snjóamesta hjeraði landsins. Jeg held, að allir, sem til þekkja, játi, að akvegur yfir Fjarðarheiði komi ekki að notum nema yfir hásumarið. Það geta komið fleiri ár í röð, að ekki væri hægt að nota veginn til bílaflutninga þann tíma, sem bændum er mest þörf á að ná til hafnar með afurðir sínar og að birgja sjálfa sig upp með vörur, en það er bæði að vor- og haustlagi.

Jeg sje, að þessi sami hv. minni hl., sem flytur till. um að fella Fjarðarheiðarveginn, á hjer aðra brtt. á sama þskj. um að hækka liðinn til sandgræðslu um 10 þús. kr., með þeirri aths., sem þar getur. Jeg skal ekki mæla sjerstaklega á móti þessari hækkun, þó að jeg hinsvegar verði að álíta, að sæmilega sje lagt fje til sandgræðslu eins og liðurinn er nú í frv. og því óþarft að hækka hann um 10 þús. kr. En eins og jeg tók fram, er jeg ekki með þessu að leggja beinlínis á móti hækkuninni.

Hinn minni hl. hv. fjvn. ber fram till., sem fer fram á að hækka dálítið tvo tekjuliði, og aðra til aukinna útgjalda. Mjer skilst, að till. þessar vegi nokkurn veginn salt, enda mun það hafa vakað fyrir þessum hl. fjvn. að hækka ekki útgjöldin nema að benda á jafnháa upphæð teknamegin. En þó að tekjubálkurinn sje hækkaður um 50 þús. kr. til þess að geta eytt jafnhárri upphæð, þá bætir það ekki afkomu ríkissjóðs, enda er hjer aðeins um að ræða tilfærslu á pappírnum, sem vega á upp á móti auknum útgjöldum. Raunverulega vaxa tekjurnar ekkert, en útgjöldin hækka um 50 þús. kr. Þess vegna er ekki um annað að ræða en aukin útgjöld úr ríkissjóði. En með því að hv. Ed. hefir lækkað tillög til ýmsra vegagerða frá því, sem þessi deild gerði ráð fyrir, þá var með því dregið raunverulega úr útgjöldum ríkissjóðs. En nú er hjer farið fram á, að útgjaldabálkinum sje kipt í sama horf og áður en fjárl. gengu til hv. Ed., auk þess sem fjvn. eða nokkur hluti hennar hefir lagt til að bæta allmörgum útgjaldaliðum inn í. Að mínu viti miða till. þess minni hl. fjvn., sem á 1. lið á þskj. 646, ekki til þess að minka hinn raunverulega tekjuhalla fjárl., enda flytur sá minni hl. einnig margar hækkunartill. á útgjaldabálkinum. Ef fjárl. eiga að fá sæmilega afgreiðslu, þá verður að draga úr útgjöldunum. Nú ber á það að líta, að framlag það, sem fjárl. gera ráð fyrir eins og þau koma frá Ed., að veitt verði til vegamála, er svo mikið, að það hefir aldrei verið þvílíkt. Tel jeg mjög vafasamt, hvort nægilegar ástæður sjeu til þess að veita meira fje til vegagerða árið 1930 en fjárlagafrv. gerir nú ráð fyrir. Ef næsta ár verður góðæri til lands og sjávar, getur vel farið svo, að atvinna verði svo mikil í landinu, að menn fáist ekki til að vinna við vegagerðir. Þetta er nú að vísu aðeins spádómur, en mjer þykir þó engan veginn ósennilegt, að hann kunni að rætast, ef árferði verður gott. Hinsvegar get jeg vel skilið það, að menn þykist verða fyrir vonbrigðum, þegar farið er að lækka fjárframlög þau, sem þeir hafa gert sjer vonir um í þessu skyni. En það eru takmörk fyrir þoli ríkissjóðsins, og menn verða oft að neita sjer um margt það, er þeir ella myndu kjósa. Jeg greiddi sjálfur atkv. með því, að framlag til vegagerða í mínu hjeraði væri lækkað um þriðjung. Lágu til þess þær orsakir, að jeg mat meira sparnað á útgjöldum ríkisins heldur en hagsmuni míns hjeraðs. Vil jeg nú vænta þess, að hv. þdm. geti fallist á að neita sjer um þessar smáupphæðir, sem feldar hafa verið niður í Ed. Verð jeg þess vegna að mæla gegn því, að till. minni hl. fjvn., sem felast í IV. lið á þskj. 646, verði samþ., og yfir höfuð allar þær till., sem miða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð, úr því sem komið er. Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að fara út í einstakar brtt.; hefi þegar lýst skoðun minni alment á málinu. Vildi jeg óska þess, að fjárl. tækju sem minstum breyt. frá því, sem þau nú eru.