15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

16. mál, fjárlög 1930

Sigurður Eggerz:

Mjer hefir virst það vera óheppileg leið, sem farin hefir verið undanfarið, þar sem úrslitaákvörðunin um fjárl. hefir verið lögð í hendur hv. Ed. Þungamiðja fjármálanna á að vera í Nd., og því er óheppilegt að koma þeirri venju á, að Ed. hafi síðasta orðið. Jeg vona, að brtt. þær, sem hjer hafa fram komið, sýni, að nú eigi að rjúfa þessa reglu. Einkum finst mjer þetta rjett af því, að mjer þykir hv. Ed. hafa sýnt, að hún skilji ekki, á hvað eigi að leggja mesta áherslu. Sjerstaklega finst mjer þetta skilningsleysi koma fram í lækkun á útgjöldum til vega, sem hv. Ed. hefir samþ. Að mínu áliti skiftir ekkert eins miklu máli fyrir landbúnaðinn og vegabætur. Þessu hefi jeg veitt eftirtekt, ekki síst í Dalasýslu, sem er eingöngu landbúnaðarhjerað. En þrátt fyrir hinn mikla landbúnaðaráhuga, sem er í þessari sýslu, þá hefir samgönguleysið staðið því fyrir þrifum, að landbúnaðinum fleygði þar fram eins og skyldi. Nú hefir verið fallist á þá rjettu leið, að leggja veg yfir Bröttubrekku. Í þessari hv. deild voru samþ. 30 þús. kr. í veginn. En Ed. færði þessa upphæð niður í 20 þús. kr. Eftir áætlun og till. vegamálastjóra átti þessi vegur að vera búinn 1934. Það var nógu langur tími að bíða þangað til, en ef lækkun Ed. verður látin haldast, verður drátturinn enn lengri. Allir, sem skilja þróun atvinnuveganna í landinu, sjá, að eitthvað verður að gera fyrir landbúnaðinn. En honum verður ekki hjálpað með fögrum orðum eingöngu. Búnaðarbankinn, sem stofnaður var hjer á þinginu, ætti að geta orðið að miklum notum, en þó ekki fyrr en hann fær fje til umráða. En höfuðskilyrðið fyrir landbúnaðinn verður eftir sem áður að fá markað fyrir afurðirnar. En til þess þarf vegabætur. Því er fyrsta boðorðið í þessum efnum að bæta samgöngurnar, einkum á landi. Ed. hefir alls ekki skilið þetta. Hún hefir ekki skilið þá algildu reynslu, að bættar samgöngur eru hvarvetna sem töfrasproti, sem vekur nýtt líf og þróun í kringum sig í framleiðslu og atvinnuvegum. Þá má furðulegt heita, að þeir, sem jafnan ganga með umhyggjuna fyrir landbúnaðinum á vörunum, skuli ekki skilja þetta. Þegar landbúnaðinum hafa verið opnaðar sem beinastar brautir á markaðina, þá er fyrst möguleiki til, að hann fari að borga sig. En þetta skilur hv. Ed. ekki. Hennar till. eru árásir á landbúnaðinn. Og mjer þykir sorglegt, að meiri hl. fjvn. hjer í Nd. skuli hafa látið blinda sig svo, að hafa fallið frá hinum upprunalegu kröfum Nd. um framlög til vegabóta.

Þótt jeg ætli hjer ekki að tala um aðrar brtt. en mínar eigin, verð jeg að segja það, að mjer þykir undarlegt, ef á að fara að spara á vegum til þess að kaupa prentsmiðju. Mjer er sem jeg sjái framan í bændur þessa lands, ef þeir væru spurðir, hvort þeir kysu heldur. Þetta er blinda, sem stundum slær sjer niður hjer, og verður þó hvergi átakanlegri en nú, ef fulltrúar bænda láta teyma sig til þess að slá af vegaframlögunum til að kaupa prentsmiðju í höfuðstaðnum. Þetta er pólitík! Að draga úr fje til vegabóta til að kaupa gamalt prentsmiðjuskrifli í höfuðstaðnum! Að loka sumum hjeruðum fyrir samgöngum um óákveðinn tíma, af því að fulltrúar þeirra sumir vilja kaupa gamla prentsmiðju! En jeg ætla að vænta þess, að heilbrigð skynsemi verði ofan á í þessu máli í hv. deild, enda þótt meiri hl. fjvn. hjer hafi ekki borið gæfu til að mótmæla þessum óvitahætti Ed.

Vík jeg þá að mínum eigin brtt. Verður þá fyrst fyrir VIII. brtt. á þskj. 646, um 1000 kr. lokastyrk til Þórhalls Þorgilssonar. Jeg talaði fyrir svipaðri brtt. við 3. umr., en það var á næturfundi og fáir viðstaddir. Það var á einum þessara næturfunda, sem nú tíðkast hjer mjög og ekki eru til annars en að sljóvga löggjafana. Eitthvað 3 eða 4 menn hlustuðu á mig, er jeg talaði fyrir þessari brtt., og má vera, að það hafi verið orsökin til þess, að hún var feld með 14:14 atkv. hjer í deildinni. Þessi maður, sem hjer um ræðir, er fátækur maður, sem sýnt hefir mikinn dugnað við nám sitt. Fátæk systkin hans hafa lagt sig í líma til að hjálpa honum og reytt hvern skilding til að hjálpa honum og búið sjálf við örðug kjör.

Jeg verð að segja það, að mjer finst það gleðiefni, að okkar ungu menn, sem eru að gægjast út í heiminn, skuli leita víðar en til Kaupmannahafnar. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg vilji gera lítið úr Hafnarháskóla. En við höfum gott af því, að sumir okkar yngri menn leiti til hinna stærri landa. Þeir öðlast meira andlegt víðsýni og yfirlit þar sem höfuðstraumarnir mætast, eins og í París.

Þórhallur Þorgilsson leggur stund á spönsku sem aðalgrein, en nemur auk þess frönsku og latínu. Jeg lít svo á, að spönskunám sje mikils virði fyrir okkur, þar sem höfuðviðskifti vor eru við Spán, en hinsvegar fáir hjer, sem spönsku kunna. Finst mjer því sanngjarnt, að Alþingi styrki þennan mann til að ljúka námi, sem getur komið oss að svo miklu haldi. Jeg treysti því þess vegna, að Alþingi samþ. þennan lokastyrk, þar sem hjer er um efnilegan og fátækan mann að ræða, sem, eins og jeg gat um, hefir hingað til stuðst við hjálp fátækra systkina sinna, er nú geta ekki meira af mörkum látið.

Þá kem jeg að brtt., er jeg ber fram ásamt hæstv. forseta þessarar deildar. Hv. þm. Ísaf. átti einnig að vera flutningsmaður að henni, en nafn hans hefir fallið niður í prentuninni. Þessi brtt. er um það, að færa skáldastyrk Stefáns frá Hvítadal aftur upp í 2000 kr. eins og hann var eftir 2. umr. fjárl. í þessari hv. deild. Hæstv. forseti talaði svo vel fyrir þessari till. þá, að jeg hefi þar litlu við að bæta, en vil aðeins vísa til þess, er hann sagði. Jeg gerði á síðasta þingi nokkra tilraun til að bregða upp mynd af honum sem skáldi og las upp kvæði úr síðustu ljóðabók hans. Jeg held, að jeg megi segja hv. Nd. það til hróss, að það var hrifning yfir kvæðum skáldsins, sem var þess valdandi að styrkurinn var samþ. þá —, það var góður listsmekkur. Jeg ætla ekki að lesa upp nein kvæði nú, en vil taka það fram, að sú mynd, sem Stefán hefir skapað með ljóðum sínum, er föst í hug manna. En jeg mintist og þá nokkuð á hin örðugu æfikjör skáldsins. Því miður höfum við oft og tíðum sýnt skáldum okkar og hugsjónamönnum of mikinn kulda í lifanda lífi. Enginn veit, hve mikil andleg verðmæti hafa orðið úti vegna þess.

Hv. Ed. hefir sýnt það í þessu sambandi, að skilningur hennar á andlegum málum er ekki meiri en á hinum verklegu. Í fyrra feldi hún þá styrkveitingu, er Nd. samþ. til Stefáns, og nú lækkar hún styrkinn úr 2000 kr. í 1000 kr. En Stefán er ver settur með þá fjárhæð en hann hefir verið. Svona er skilningur hv. Ed. á listamönnunum. Jeg skýrði frá fátækt Stefáns síðast, og gerði það þó með hálfum hug, því hann er svo stoltur maður, að hann ber sjer aldrei um fátækt sjálfur. En mjer fanst bein skylda mín að gera það. En þó að kjör hans væru bág síðast, þá eru þau þó miklu verri nú. Hann hefir sjálfur altaf þjáðst af heilsuleysi. En nú er kona hans komin í sjúkrahús. Jeg geri ráð fyrir, að jeg þurfi ekki að brýna fyrir mönnum, hve ríkar ástæður eru fyrir því að halda sjer við sömu till. og samþ. var við 2. umr. Og þegar litið er á það, hve há útgjöldin eru orðin, skil jeg ekki í, að neinn láti sjer í augum vaxa, þó einu af okkar bestu skáldum og hugsjónamönnum sje bjargað frá sárustu fátækt. Því að hver veit, hve mikið fer forgörðum af fögrum hugsjónum við að svelta þá menn, sem mestri birtu bregða yfir líf okkar.