15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

16. mál, fjárlög 1930

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg flyt hjer eina skriflega brtt., sem er brtt. við till. hv. þm. Vestm. um sjúkrastyrk til Þorgils Þorgilssonar í Vestmannaeyjum. Það hefir komið í ljós við flutning slíkra mála, að menn eiga erfitt með að neita þegar ástæður eru bágar, og get jeg vel skilið það. Sjúkir menn hafa oftast ekki til neinna sjóða að hverfa, og eiga því ekki annars úrkosti en að flýja á náðir Alþ., en mjer finst það illa til fallið, að í fjárl. sjeu veittir sjúkrastyrkir á nafn einstakra manna. Það vill svo til, að jeg er kunnugur þessum manni í Vestmannaeyjum og veit, að hann er ekki svo efnum búinn, að hann geti upp á eigin spýtur kostað sig til lækninga. Heilsu hans er svo háttað, að hann er næstum ófær til allra starfa og hefir þrautir altaf öðru hverju, en læknar hafa gefið honum góðar vonir um, að hann fái bót meina sinna, ef hann getur farið utan til lækninga og dvalið þar. Með till. minni er svo til ætlast, að sjúkrastyrkir sjeu ekki veittir á nafn, heldur ætluð til þeirra ákveðin upphæð árlega. Ef þessi till. verður samþ., þá er það meining mín, að Þorgils Þorgilsson fái 3 þús. kr. af þessari upphæð, en 1 þús. kr. verði veittar þeirri konu, sem hv. þm. V.- Ísf. flytur brtt. um. Hinsvegar er svo til ætlast, að ríkisstj. úthluti þessu fje á sínum tíma, en þá vænti jeg þess, að það verði gert í samræmi við þann tilgang, sem Alþ. hefir ákveðið með samþykki sínu.

Um aðrar brtt. ætla jeg ekki að tala, þar sem svo er áliðið dags, en mun láta nægja að lýsa skoðun minni með atkv. mínu. Nú mun jeg greiða atkv. gegn mörgu, sem jeg þó gjarnan vildi verða við, en það getur orðið örlagaríkt, hvernig fjárl. verða afgr. Það er nauðsynlegt, að þau verði tekjuhallalaus, og fyrir þeirri nauðsyn ætla jeg að beygja mig.