17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

16. mál, fjárlög 1930

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg skal geta þess út af ummælum hv. form. og hv. frsm. fjvn., af því að þeir eru báðir nýir þm., að það hefir altaf verið venja í hvorri deildinni sem er, að þegar fjárl. hafa komið frá einni umr. í annari d., hefir í hinni verið skýrt frá meðferð þeirra síðan þau fóru úr þeirri deild og breyt. þeim, sem á þeim hafa orðið. Þetta kom ekki til í fyrra hjer í deildinni, af því að þá samþ. Nd. fjárl. eins og þau komu frá Ed.

Hv. 6. landsk. er að hugga sig við, að aldrei hafi verið veitt eins mikið til verklegra framkvæmda og nú. Það er nú að vísu rjett, enda er það ekkert undarlegt, þar sem útgjaldahlið og tekjuhlið eru um 2 milj. kr. hærri en að undanförnu hafa hæstar verið. Framlag til verklegra framkvæmda á því að vera þeim mun hærra en áður. En það er það ekki. Fólk úti um landið hefir vit á að taka tillit til þess líka, hvað upphæðirnar tekju- og gjaldamegin eru háar.