17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Baldvinsson:

Það gleður mig, að nú hafa allir aðstandendur fjárl. talað nema hæstv. fjmrh. einn, en væntanlega fá þm. bráðum að heyra hvað hann leggur til málanna.

Eins og frv. nú er komið frá fjvn. þýðir ekki að tala um einstaka liði. Nú er líka upplýst, að n. er þríklofin, enginn meiri hl., allir í minni hl., og hefði hv. fjvn. átt að láta okkur hina vita um þetta í framhaldsnál.

Hv. 3. landsk. sagði hjer á dögunum, að það mundi þýða 100 þús. kr. eyðslu að láta fjárl. fara til Nd. aftur. Það er leiðinlegt fyrir sjálfan hann, hvað hann er lítill spámaður, því mjer skilst, að útgjöldin hafi verið lækkuð í hv. Nd., þótt jeg sje að vísu ekki öllu því samþykkur. Um Fjarðarheiðarveginn tek jeg undir það, sem hv. þm. Seyðf. sagði. Það hefir verið þyrlað upp svo miklu moldviðri í því máli, að mörgum hefir verið vilt sýn, Það hefir m. a. verið sagt, að svo mikill snjór lægi á Fjarðarheiði sumarmánuðina, að moka yrði honum á burt áður en byrjað væri á vegalagningu. En þetta eru slagorð, eins og fleira, sem notað hefir verið af sama tægi til þess að drepa till. um veg yfir Fjarðarheiði. En hvar eru þeir fjallvegir og heiðar á landi þessu, sem sagt verður um, að aldrei liggi undir snjó einhverja sumarmánuðina ?

Þó Fjarðarheiðarvegurinn hafi fallið nú, þá getum við huggað okkur við það, að máli þessu eykst fylgi ár frá ári. Nú voru 20 þm. með till., og vantar því ekki nema herslumuninn, og því ráðlegt að senda einhverja 2 hv. þm. austur á Fjarðarheiði til þess að sannfærast um möguleikana fyrir því, að leggja veg yfir heiðina.

Jeg verð að taka það fram, að jeg er engan veginn ánægður með fjárl. Þess vegna hefi jeg verið að hugsa um að sitja hjá við atkvgr. um frv. Annars hefði jeg viljað víkja nokkrum orðum til hæstv. stj., ef hún gæti verið hjer nærri. — Jæja, jeg sje, að hún er þá komin, og ætla jeg þá að beina til hennar fyrirspurnum viðvíkjandi framkvæmd einstakra liða fjárl.

Jeg vil þá spyrja hæstv. stj., hvort hún muni ekki ætla að láta sína verkstjóra semja um kaup verkamanna við verkalýðsfjelögin í kaupstöðum og kauptúnum landsins, þar sem þau eru til og þar sem vegavinna fer fram í námunda eða aðrar opinberar framkvæmdir. Jeg álít þetta svo sjálfsagðan hlut, að í rauninni þyrfti ekki að æskja eftir því. En af því að þetta hefir samt sem áður dregist úr hömlu og af því að ekki hefir verið tekið undir þetta áður á þingi, þá vildi jeg, að því yrði einu sinni enn vikið að stj. Ljet jeg í ljós á dögunum, að jeg mundi koma með þál. um vegavinnukaupið og skora á ríkisstj. að semja við verkalýðsfjelögin á ýmsum stöðum. En af því að hæstv. atvmrh. veiktist og gat ekki verið til andsvara hjer, hefi jeg látið þetta vera. En mjer finst rjett, að einhver úr stj. vildi taka þetta til velviljaðrar athugunar. Minna finst mjer ekki hægt að gera í þessu máli, sem snertir þann mikla fjölda manna bæði í sveitum og sjávarþorpum, sem taka þátt í hinni opinberu vinnu ríkissjóðs víðsvegar.

Þetta er það, sem jeg helst vildi segja viðvíkjandi fjárl. og vildi fá svar við hjá hæstv. ríkisstj. Annars hefir komið fram ýmislegt skemtilegt við þessa umr. um afstöðu einstakra manna gagnvart fjárl. og hvað menn telja sjálfsagt, að þagað sje í hel þetta stærsta mál þingsins, þegar loksins á að gera það að lögum.