17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

16. mál, fjárlög 1930

Páll Hermannsson:

Á það hefir verið bent, að það væri venja, að frsm. fjvn. gerði deildinni grein fyrir þeim breyt., sem orðnar eru á frv. við eina umr. í hinni deildinni. Jeg hefi nú litið svo á, að mjer sem frsm. fjvn. bæri fyrst og fremst að gera grein fyrir þeim breyt., sem n. leggur til, og færa að meira eða minna leyti ástæður fyrir þeim, en bæri ekki bein skylda til að útskýra nákvæmlega, hvað kynni að hafa gerst í annari deild. Jeg taldi mig því eiginlega ekki eiga að koma fram sem frsm. n., einkum þar sem hún hefir ekki tekið neina ákvörðun, sem hún vildi auglýsa fyrir hv. deild. Hinsvegar virðast mjer þær breyt., sem orðið hafa á fjárlagafrv. í Nd., ekki stórskornari en það, að hver einasti hv. þdm. hefir getað áttað sig á þeim.

Mjer virðist, að hv. Nd. muni hafa felt niður útgjöld úr frv. eins og það var, þegar það kom frá Ed., sem nemi 33 þús. Hinsvegar hefir þessi litli tekjuafgangur, sem í frv. var hjeðan úr deild, aukist um 3 þús. Nd. hefir þannig felt niður útgjöld upp á 33 þús., en bætt nýjum við upp á 30 þús. Þessar breyt. eru ekki flóknari en það, að jeg tel víst, að hv. þdm. hafi hver fyrir sig áttað sig á þeim álíka vel og jeg.

Annars virðist mjer það liggja ljóst fyrir, að það muni vera meining bæði n. og hv. deildar að samþ. fjárl. eins og þau liggja fyrir, þar sem enginn hefir borið fram brtt. Og jeg hefi ekki orðið var við, að sjerlega mikið hafi upplýst verið í þeim umræðum, sem fara fram að mestu leyti yfir tómum stólum. Býst jeg ekki við, að neitt vinnist við það, þótt jeg lengi þær umr. meira.

Eins og jeg áðan benti á, mun jeg stuðla að því með mínu atkv., að fjárlagafrv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.