20.02.1929
Neðri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

15. mál, laganefnd

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Mál þetta er undirbúið af prófessor Ólafi Lárussyni, og hann hefir skrifað allrækilega greinargerð með því. Er því frá minni hendi ekki þörf á að lengja umr. um það að þessu sinni. Nái það fram að ganga, er ætlast til, að meginþorri íslenskra laga verði gefinn út á 5 ára fresti. Mundi það verða mikill ljettir fyrir borgara landsins, sem undir lögunum eiga að búa. Í aths. við frv. er gerð grein fyrir því, hvernig það er hugsað, að endurútgáfa þessi verði ekki mjög kostnaðarsöm. Er það á þann hátt, að láta letrið standa og nota sama letrið við útgáfu Alþt., stjórnartíðindanna og lögbókanna.

Þá er og í frv. þessu ætlast til, að skipuð verði þriggja manna nefnd til 4 ára í senn, til þess að samræma lögin og vera ríkisstj., alþm. og þingnefndum til aðstoðar við samningu lagafrv. og undirbúning löggjafarmála. Að vísu er hvorki hægt að skylda landsstjórnina eða þm. til þess að nota aðstoð þessarar n., en allar líkur eru þó fyrir því, að til hennar myndi verða leitað af þessum aðiljum. Hvað snertir val á mönnum í n. þessa, þá er ætlast til, að hún verði skipuð tveimur lögfræðingum, og þá að líkindum þriðja manni, sem valinn væri með tilliti til málþekkingar.

Það má nú kannske segja, að slíka n. sem þessa megi skipa án þess að fara að gefa lögin út 5. hvert ár, og eins hitt, að gefa mætti út lögin án þess að skipa þessa n. En þar til er því að svara, að jeg hygg, að margir sjeu þeirrar skoðunar, að þetta tvent fari mjög vel saman, og jeg er þess fullviss, að skipun slíkrar n. og útgáfa laganna með svo stuttu millibili myndi verða til þess að gera löggjöf landsins ljósari og fastari í sniðinu. Það er vitanlega aldrei nema eðlilegt, að löggjöfin taki miklum breytingum á þessum breytingatímum, en þess er væntst, að hún myndi smátt og smátt falla í fastari bálk fyrir íhlutun slíkrar n. sem þessarar.

Að lokinni þessari umr. óska jeg, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.