20.02.1929
Neðri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

15. mál, laganefnd

Ólafur Thors:

Jeg verð að líta á frv. þetta sem gleðilegan vott um framför og sjálfsþekkingu hjá hæstv. dómsmrh., sem ber það fram, því eins og kunnugt er, þá hefir þessi hæstv. ráðh. allra þm. mest brotið formsins rjett í þeim málum, sem hann hefir borið fram eða haft afskifti af. En mjer finst þó, að honum fari líkt og sumum gömlum ofdrykkjumönnum, sem hverfa frá villu síns vegar. Þeir verða oft mestu ofstækismenn. Jeg hygg, að hæstv. ráðh. gangi alt of langt í frv. þessu og geri sjer alt of bjartar vonir um árangurinn af þessari nefndarskipun. Að vísu er trúlegt, að n. myndi geta afrekað margt gott. En svo bjartsýnn er jeg ekki að ætla það, að hringlið, sem einkent hefir meðferð sumra mála á undanfarandi þingum, myndi hverfa með öllu. Mjer dettur t. d. ekki í hug, þótt slík n. hefði verið til í fyrra, að stjórnarflokkurinn núverandi hefði neitað sjer um að fremja hið pólitíska glapræði, sem hann vann í bankamálinu á síðasta þingi. Það mál hafði þó fengið mikinn undirbúning og ítarlegri en ætla má, að það hefði fengið, þótt slík n. sem hjer er gert ráð fyrir hefði haft undirbúning þess. Það mun sýna sig, að sá flokkur, sem hefir undirtökin, breytir málunum eftir geðþótta, þrátt fyrir góðan undirbúning.

Þá tel jeg þær vonir, sem hæstv. dómsmrh. gerði sjer um það, að slík n. mundi samræma löggjöfina að fullu, fásinnu eina. Þótt till. n. stefndu í þá átt, þá myndi hinn ráðandi þingflokkur á hverjum tíma marka löggjöfina sínu marki. Mjer sýnist og, að valdsvið n. yrði alt of mikið, a. m. k. óbeint, þar sem n. er ætlað að fara hendi um öll eða vel flest frv., sem fyrir þingið væru lögð, og það ótilkvödd.

Jeg skal játa það, að jeg hefi ekki athugað þetta mál til fullnustu. Vildi aðeins benda á þessi atriði. En það er mjer ljóst, að mjög miklar breyt. þarf á því að gera, ef það á að vera viðunandi.