30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

15. mál, laganefnd

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Hv. samnefndarmaður minn hefir nú að mestu tekið af mjer ómakið að tala hjer af hálfu n. fyrir þessu máli, og skal jeg því bæta fáu einu við.

N. var öll sammála um, að þessi n., sem hún vill að heiti „laganefnd“, skuli vera hlutlaus leiðbeinandi og engin áhrif hafa á löggjöfina að öðru leyti. Jeg hefi altaf litið svo á, að nauðsynlegt væri, að til væru menn, sem hægt væri að snúa sjer til með undirbúning frv. Enda hafa sumar þjóðir sett slíkar ráðgjafarnefndir hjá sjer, t. d. Svíar, sem eru komnir þjóða lengst í löggjafarþroska. Þeir hafa sett n. með svipuðu ætlunarverki eins og þessi fyrirhugaða n. okkar á að hafa, og heitir hún „Lagrådet“. Það er líka oft á það minst hjer hjá okkur, að stj. eyði miklu fje í undirbúning þingmála, og jeg veit, að þetta fyrirkomulag mundi spara talsvert fje á þeim vettvangi. — N. hefir öll orðið sammála um, að þörf væri á, að gildandi lög væru gefin út í heild og að lögunum yrði þar raðað eftir efni, en ekki eftir aldri eins og verið hefir um eldri útgáfur.

Jeg hygg, að þótt ekki hafi komið fram sjerstakt nál. frá minni hl. n., þá muni hann ekki vera mótfallinn útgáfu lagasafnsins, heldur hefir mjer skilist, að minni hl. telji ekki þörf á sjerstakri n., með því að hægt sje að snúa sjer til einstakra manna í þessu efni. Við leggjum sem sagt, eins og hv. 2. þm. Árn. tók fram, aðaláhersluna á það, að þessi n., sem heiti „laganefnd“, verði aðeins hlutlaus leiðbeinandi við undirbúning þingmála og annist útgáfu lagasafnsins, svo oft sem þurfa þykir, og eigi sjaldnar en á 10 ára fresti. — Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta að svo stöddu.