30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

15. mál, laganefnd

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Eftir því sem mjer virðist er bitamunur en ekki fjár á skoðun hv. 1. þm. Skagf. og meiri hl. allshn.

Hv. 1. þm. Skagf. vill fá lögin gefin út o. s. frv., og er því sammála meiri hl. um annan helming málsins. Nú er það svo, að auk þeirra raka annara, sem færð hafa verið fram með þessu máli, þá hafa aðrar þjóðir, t. d. Svíar, sett sjerstaka n. hjá sjer til aðstoðar stj. og þingi, hliðstæða þeirri, sem hjer er um að ræða. Af okkar nágrannaþjóðum eru Svíar ein þeirra, sem vandar best sína löggjöf. Það er þetta, sem hv. 1. þm. Skagf. vill ekki, að við höfum n., sem stj. og þing geti snúið sjer til um aðstoð við undirbúning mála.

Hvað útgáfu lagasafnsins snertir, þá fer það, hversu oft það skuli gefið út, auðvitað eftir því, hvaða kröfur við gerum um það, að okkar lögbók verði fullkomin heimild um gildandi lög. Jeg hefi hugsað mjer, að n. starfi með svipuðum hætti og skrifstofustjóri Alþingis. Hann er altaf hlutlaus í sínu starfi fyrir þingið. Jeg held, að menn þekki engin dæmi þess, að skrifstofustjóri þingsins hafi nokkurntíma sýnt hlutdrægni í sínu starfi, enda mun hver maður í þeirri stöðu telja sjer skylt að forðast slíkt. Á sama hátt hugsa jeg mjer, að þeir, sem yrðu skipaðir í þessa fyrirhuguðu nefnd, myndu telja sjer skylt sóma síns vegna að gæta þess, að sýna í starfi sínu sömu lipurð og óhlutdrægni eins og skrifstofustjóri Alþingis sýnir og hefir altaf sýnt. Enda væri þá hægt um vik að skifta um menn að 4 árum liðnum, ef ástæða þætti til, og er tímabil þetta tiltekið með tilliti til þess, að n. sitji sem svarar kjörtímabili. (MG: En nú verður hún skipuð á miðju kjörtímabili). Já, en þetta kemur í sama stað niður, því að sá meiri hl., sem skipar n. og hefir hana með sjer lengur en hann fer með völd, fær hana aftur á móti sjer sama tíma, þegar skift er um hlutverk næst á eftir, ef n. væri skipuð með flokkshagsmuni fyrir augum, sem jeg hygg að engin stj. myndi gera. En sem sagt, hún á að vera hlutlaus leiðbeinandi um form og samræmd laga o. s. frv.

Jeg held, að í framkvæmdinni yrði það svo, að n. hefði einkum þau áhrif að gera lögin gleggri og ljetta nokkuð störfin fyrir þingi og stj. Það er nú svo, og hv. 1. þm. Skagf. má vel vera það ljóst, að okkar löggjafarstarfsemi er öll í molum, og ástæðan er einkum sú, að þingið hefir ekki nægan tíma til að vinna að málunum eins og þörf væri á. Þm. eiga auðvitað einir að ráða efni laganna, en mjer finst óeðlilegt, að þeir hafi á móti því að fá hjálp til þess að ná fullkomnara formi.