30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

15. mál, laganefnd

Sigurður Eggerz:

Jeg var satt að segja farinn að vonast eftir því, að þetta mál myndi sofna hjer í þinginu, og jeg taldi það vel farið, ef svo hefði orðið.

Nú skilst mjer að vísu, að till. hv. meiri hl. allshn. og ummæli frsm. beri vott um, að í n. hafi ekki verið um að ræða sjerstakan áhuga fyrir þessu máli, en þó á það sýnilega að ganga í gegnum þingið. Jeg skal játa, að brtt. n. eru að sumu leyti til bóta. Þær ganga í þá átt að nema burt atriði úr frv., sem frá mínu sjónarmiði eru sjerstaklega hneykslanleg, og á jeg þar við áætlanir um, hvað löggefa skyldi um á hverju tímabili.

Svo var að heyra á hv. frsm., að hann væri ekki sjerlega spentur fyrir því, að forsrh. notaði heimildina til að skipa nefndina. Það var eins og vonda samviskan væri að smágrípa í strengina. (GunnS: Þetta er alls ekki rjett). Um útgáfu lagasafnsins er það að segja, að til þess þarf engin sjerstök lög, eins og hv. 1. þm. Skagf. rjettilega tók fram. Til þess þarf aðeins einfalda fjárveitingu í fjárl. Þetta ber því alt að sama brunni. Till. hv. meiri hl. bera allar vott um, að hann hafi afgr. málið með hálfum huga.

Jeg kann ekki við að fara að rifja það upp aftur alt, sem jeg sagði við 1. umr. um málið. En jeg vil þó enn benda á, að stj. hefir nú völ á að fá þá bestu aðstoð, sem til er í landinu við undirbúning stjfrv.

Nefndin, sem skipa á, getur undir engum kringumstæðum veitt stj. eins alhliða aðstoð og hún nú á völ á.

Hv. frsm. talaði svo um starf n., að hún ætti aðallega að hugsa um hina formlegu hlið laganna. En í sjálfu frv. er n. ætlað annað og meira starf. Líklega hefir hv. frsm. aðallega verið að friða samvisku sína með þessum ummælum, enda stendur 6. gr. óbreytt. En eftir þeirri gr. getur n. ráðið sjer menn til aðstoðar, og það sýnir, hvað starf hennar er hugsað víðtækt og áhrifamikið. Jeg sje ekki, að neitt hafi komið fram, er sýni, að þörf sje á nefndinni. Kostnaðurinn við hana er þó ómótmælanlegur. Um þriggja manna laun er hjer að ræða og enn skrifstofukostnað að auki. Og þó að mönnum þyki kostnaður eins og þessi lítill hjer á þinginu, þá má vera, að þjóðin reki augun í hann. Að minsta kosti er lítil samviskusemi í því að ausa út fje úr ríkissjóði til þess, sem er hjegóminn einn að ætlun góðra manna.