30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

15. mál, laganefnd

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg býst við, að hv. 1. þm. Skagf. sje það jafnkunnugt og mjer, að aðrar þjóðir hafa fyrir löngu sjeð, hvílíkt böl það var, að undirbúningur laga var miklu verri en skyldi. Það er satt, að í Danmörku eru frv. aðeins leiðrjett. í Svíþjóð er þar á móti lagaráð. Um verksvið þess hefi jeg að vísu ekki nein skjöl sjeð, en mjer er tjáð, að það sje svipað og það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er fjarstæða, að hægt sje að halda því fram, að hjer verði um yfir-Alþingi að ræða. Eftir brtt. og skýringum mínum er glögt, að svo er ekki. Sú n. mundi áreiðanlega vera hlutlaus um efnishlið málanna. Hún starfaði aðeins að því að bæta formshliðina og samræma lögin. Engin stj. mundi heldur láta slíka n. sitja, ef hún starfaði í bága við stefnu hennar. Önnur ný yrði þá skipuð. En slíkt mundi varla koma til. N. mundi telja það skyldu sína að starfa hlutlaust. Nú mun það meiningin, að einn ákveðinn maður, sem allir hv. þm. þekkja að góðu og treysta vel, taki sæti í þessari n. Sá maður er Jón Sigurðsson skrifstofustjóri. Með tveim lögfræðingum, sem gert hefðu lestur laga og lagasmíð að lífsstarfi, fullyrði jeg, að breyting yrði til stórbóta á lagasetningu þingsins við skipun slíkrar laganefndar.

Hv. þm. Dal. sagðist hafa sjeð það á svip mínum, að jeg fylgdi þessu frv. ekki fast fram. En hv. þm. skjátlast þar. Það er að vísu rjett, að jeg legg megináherslu á útgáfu laganna. En jeg hefi líka opið auga fyrir þessari þörf og vil bæta úr því böli, sem af því leiðir, að frv. koma illa undirbúin bæði fyrir þingið og eins meðan þing stendur yfir. Og með starfi slíkrar n. mundi mikil bót ráðin á því.

Þá er það kostnaðarhliðin. Jeg benti á það við 1. umr., að altaf væri mikill kostnaður samfara undirbúningi frv. Og jeg benti á, og vil fullyrða það enn, að sá kostnaður yrði enganveginn neitt meiri, þótt föst n. annaðist þann undirbúning. Það hefir verið sagt, að bæta þyrfti samræmi laganna, og jeg geng inn á það. Það væru afarmikil þægindi að skipa lögunum í heild eftir efni og máske aldri líka og fá heilsteypta lagabálka. Jafnvel æfðustu lögfræðingar eru nú í vandræðum með að finna, hvað eru lög.

Jeg skal aftur víkja að því, sem hv. þm. Dal. sagði um skort á lifandi áhuga hjá mjer fyrir þessu máli. Í fyrsta sinn, sem jeg bauð mig fram til þings, 1919, var einmitt þetta eitt af þeim atriðum, er jeg tók fram að þyrfti að lagfæra. Og jeg hefi alls ekki skift um skoðun í því efni. — Hv. þm. talaði um, að stj. gæti snúið sjer til fagmanna með undirbúning laga. En það yrðu nú einmitt fagmenn á sínu sviði, með æfingu og reynslu, því það verður hverjum að list, sem hann leikur.

Jeg þarf ekki að eyða löngum tíma í að hrekja það, að n. muni hafa áhrif á efnishlið þingmála. Það verður aðeins á formshliðina, sem hún hefir áhrif. Hún mun ekki snúa sjer að efni laganna, aðeins að formshliðinni.

Hvað 6. gr. viðvíkur, þá hygg jeg, að sama sje, hvort hún er samþ. eða ekki. Þó hún yrði feld, mundi eftir sem áður verða leitað ráða hjá sjerfræðingum þeirra mála, sem hver einstök lagasetning fjallar um. Jeg hygg, að það hefði verið betur til fundið af hv. þm. Dal. að tala um þessi 3 embætti, sem verið væri að stofna, við hv. kjósendur sína vestur í Dölum, sem eðlilega þekkja lítið til þessara mála, heldur en að flytja slíkt yfir skynsömum mönnum hjer í hv. deild. Hv. þm. má líka vita það, að við, sem mælum með því, að frv. þetta verði samþ., erum ekki einir um þá skoðun, að þörf sje á þessu. Og svo jeg bara minni á einn merkan mann, sem hefir haldið hinu sama fram, þá skrifaði Lárus H. Bjarnason núv. hæstarjettardómari um þetta fyrir mörgum árum síðan. Og það hafa áreiðanlega margir fleiri sjeð þörfina á þessari n.