30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

15. mál, laganefnd

Magnús Guðmundsson:

Jeg sje eftir þeim tíma, sem fer til að ræða þetta, en verð þó að svara hæstv. dómsmrh. með nokkrum orðum. Hann vildi segja, að jeg væri sammála þessu frv. að hálfu leyti, eða að því er snertir útgáfu laganna. Það er rjett, að jeg er ekki mótfallinn prentun laganna. En til þess þarf ekki nein lög eða nefnd, þótt gefið sje út lagasafn. Og það skiftir engu máli fyrir okkur, þótt lögin sjeu gefin út árlega í Svíþjóð, því slíkt getum við ekki. Hann var að halda því fram, að n. yrði ópólitísk. En jeg verð að segja, að hæstv. dómsmrh. bregður þá út af venju sinni, ef valið verður óhlutdrægt. (Dómsmrh: Það er forsrh., sem skipar hana!). Rjett, en það er sagt, að hæstv. dómsmrh. ráði nokkuð freklega yfir þessum embættisbróður sínum. Jeg þykist vita, hvernig n. verður skipuð, ef frv. verður samþ. Það kunna að vera góðir menn á sínu sviði, en þeir eru það ekki til þessa. (JAJ: Er beinið lofað? — Dómsmrh: Hv. 1. þm. Skagf. er víst búinn að því, þegar hann kemst til valda aftur!). Nei, jeg hefi ekki verið svo forsjáll. En það væri ólíkt öðru, sem hæstv. dómsmrh. hefir gert, ef þessi n. yrði ekki pólitískt lituð. Annars er það undarlegt að vilja skipa þessa n. lengur en fyrir kjörtímabil. Ef hún á að vera stj. til aðstoðar, þá væri það eðlilegt og sjálfsagt, því ef stj. vill ekki nota hana, þá er hún gagnslaus og tilgangslaust að stofna hana. Þá hjeldu þeir því fram báðir, hæstv. ráðh. og hv. frsm., að meiningin væri, að þessi n. liti yfir frv. þm. Ef svo er, þá kemur fram nokkurskonar yfir-Alþ. Ef hver maður, sem ber fram frv., á að láta n. skoða sín mál, þá hygg jeg, að það ætti örðugt uppdráttar, sem n. ekki í alla staði teldi gott og rjett. En ef engin skylda hvílir á neinum með að láta n. skoða frv., þá er úr engu bætt.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að oft þyrfti að breyta l. fljótlega vegna ónógs undirbúnings. Það er rjett, að oft þarf að breyta l., en það er aðallega af því, hvað brtt. koma oft seint fram, að ekki vinst tími til að athuga þær nægilega. En til þess að bæta úr því, yrði n. líka að skoða og meta allar brtt., sem fram koma. En slíkt gæti orðið nokkuð tafsamt, ef allar brtt. ættu fyrst að ganga til þessarar n. Og skriflegar brtt. væru þá alveg útilokaðar. Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði komið fyrir, að borið hefði verið fram frv. um efni, sem verið hafði í lögum áður. Getur verið að þetta sje rjett, en það hefir þá uppgötvast á því sama þingi og þá engan skaða gert.

Jeg geri ráð fyrir því, að milliþinganefndir eigi líka að nota þessa n. til að undirbúa sín frv. Ekki veit jeg, hvaðan hv. frsm. hefir það, að skrifstofustjórinn hjer eigi að vera í þessari n. Eg a. m. k. hefi ekkert um það heyrt. En það þarf ekki að samþ. þetta til þess að fá aðstoð hans. Hann er hjer við hendina, er okkar maður og þarf því ekki að skipa hann. (GunnS: Ekki milli þinga). Þingmenn fást yfirleitt ekki við lagasmíð milli þinga.