30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

15. mál, laganefnd

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal ekki segja nema fáein orð. Hæstv. dómsmrh. var alveg hættur að tala um málið sjálft, en talaði aðeins persónulega um okkur hv. þm. Dal. og mig og hvernig við hefðum reynst undanfarin þing, meðan við vorum ráðherrar. Skal jeg ekki fara frekar út í það, því það kemur ekki þessu máli neitt við.

En eitt var það í ræðu hæstv. dómsmrh., sem jeg hjó eftir. Hann sagði, að meðal annara ætlunarverka þessarar n. væri það, að hún ætti að hafa skapandi áhrif á löggjöfina. Hæstv. dómsmrh. virðist því ætlast til, þrátt fyrir till. meiri hl. allshn. um að fella niður 3. og 4. gr., að n. þessi hafi samt sem áður skapandi áhrif. Þá var hann og að bregða mjer um það, að jeg skildi ekkert í frv. En það er einmitt hann sjálfur, sem ekki skilur í sínu eigin frv. Jeg skal ekki fara að deila við hann um það, hver okkar er hæfastur til löggjafarstarfa. En það ber ekki vott um mikil rök hjá hæstv. ráðh., að hann skuli þurfa að fara út í persónuleg illyrði þegar hann á að rökræða mál hjer í hv. deild. Og hvað koma laun bankastjóra Íslandsbanka þessu máli við?

Þá sagði hæstv. ráðh., að það mundi ekki auka álit mitt eða hv. þm. Dal. úti um land, ef við værum á móti þessu frv. En jeg ætla að segja hæstv. ráðh. það, að jeg fer aðeins eftir því, sem jeg álít rjett, en er ekki að seilast eftir því að gera það eitt, er almenningi mundi falla best í geð. Og varla getur það orðið til þess að auka álit þingsins út á við, ef því verður slegið föstu með lögum, að það sje ekki einfært um að fást við löggjafarstörfin með þeim kröftum, sem það hefir á að skipa. (Dómsmrh: Er þá laganefnd Svía þingi þeirra til vanvirðu?). Það veit jeg ekkert um, en mjer þykir líklegt, að hún sje svipuð og starfi á svipuðum grundvelli og danska laganefndin. Hefi jeg reynt að afla mjer upplýsinga um þetta, en ekki tekist.

Hv. þm. V.-Húnv. kvaðst vilja fá bætt úr þeim göllum, er væru á löggjöf vorri. Er það rjett hjá honum, að þess er að ýmsu leyti þörf. Er oft svo mikið að gera undir þinglok, að ekki er furða, þótt eitthvað skjótist framhjá, er betur mætti fara, í öllu því annríki. En jeg býst við því, að þetta geti eins komið fyrir, þó þessi n. verði sett á stofn. Það er svo, að seinni hluta þings berst svo mikið að af frv. og allskonar þskj., að þm. hafa varla tíma til þess að lesa þau yfir, hvað þá að lesa þau vandlega og bera þau saman við gildandi lög, en mjer er samt ekki kunnugt um, að þetta hafi komið að sök. Og þó svo hafi verið, að villa hafi slæðst inn í lög á einu þingi, þá hefir ávalt verið hægt að leiðrjetta það á næsta þingi. Hinsvegar má ekki ætla, að allar breyt., sem gerðar eru á lögum, stafi af göllum á meðferðinni hjá Alþingi. Það er oft svo, að nauðsynlegt er að breyta lögum vegna breyttrar aðstöðu, og yfirleitt munu lagabreyt. ekki tíðari hjer en víða erlendis.