30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

15. mál, laganefnd

Sigurður Eggerz:

Það var ekki lítið, sem jeg skrifaði upp af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði. En þegar jeg svo fór að lesa það yfir, sá jeg, að innihald þess var nauðalítið. Hann talaði einna mest um Íslandsbanka, en jeg geri ráð fyrir, að hann komi þessu máli nauðalítið við. Annars er það ekki nýtt, að hæstv. ráðh. gerir bankann og stj. hans að umræðuefni hjer í þinginu.

Jeg vil víkja því að hæstv. dómsmrh. af fullum velvilja, að það væri hyggilegra, þegar hann er að ræða málin á löggjafarþingi Íslands, að hann talaði meira um kjarna þeirra mála, er fyrir liggja, en væri ekki að segja æfisögur þeirra manna, er mæla honum í gegn. Það er þreytandi að heyra hæstv. ráðh. hvað eftir annað, þegar stórmál eru til umr., draga fram atvik úr „prívat“-lífi þeirra, er mæla á móti honum, en minnast aldrei á málið sjálft. Jeg er hræddur um, að það hafi ekki góð áhrif á löggjöf landsins, þegar hinir leiðandi menn haga sjer svo. Og hvað margar n. sem skipaðar væru, mundu þær ekki geta unnið á móti hinni óviðráðanlegu tilhneigingu hæstv. ráðh. til þess að blanda mönnum og málum saman, á þann hátt sem nú er orðin raun á.

Jeg held, að hæstv. dómsmrh. hafi gott af að heyra þetta. Og jeg held líka, að hv. stuðningsmenn hans hafi gott af að athuga, hvernig þær leiðir eru, sem hæstv. ráðh. dregur þá út á.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um glundroða og grautarlega löggjöf meðan jeg hefði verið í stj. landsins og sömuleiðis meðan hv. 1. þm Skagf. hefði farið með stjórn. En hann benti ekki á neitt dæmi máli sínu til sönnunar.

Það mundi nú ekki drýgja þingtímann, ef fljetta ætti inn í umr. um einstök mál dóma um löggjafarstarf fleiri ára. En vel gæti jeg, ef mjer væri ætlaður tími til þess, bent á merka löggjafarbálka frá þeim tíma, er jeg var í stjórn. En af því, sem hæstv. ráðh. sagði, var auðsjeð, að hann ætlast til þess, að n. yrði allsherjarlæknisráð til þess að koma öðru og betra skipulagi á löggjöf þjóðarinnar en hingað til hefir verið. Í ræðu hans kom ekki fram trúin á þingunum, hvorki fyrri þingum eða komandi þingum. Hið nýja löggjafarljós, sem ætti að leiða þingin út úr aldadimmunni, ætti að kveikja í þessari nýju stjórnarnefnd. Auðsjeð er, hvert stefnt er. Það á að skipa yfirþing af stjórnarnáð.

Eftir ræðu hæstv. ráðh. er hlutverk n. ekkert smáræði. Það er nokkuð langt frá þeim skilningi hv. 2. þm. Rang., að hún eigi aðeins að fást við leiðrjettingar. Svo framarlega, sem annars á að taka mark á ræðunni.

Það er hjegómi, þótt hjer sje verið að stofna 3 ný embætti, í samanburði við það, að þessi. n. á í raun og veru að verða nokkurskonar yfirþing. Jeg trúi því ekki, að nokkur, er hlustaði á ræðu hæstv. ráðh., geti misskilið það, að hann væntir alls af nefndinni, en einskis af þinginu. (Dómsmrh: Jeg vænti einskis af hv. þm. Dal. eftir þeirri reynslu, sem jeg hefi af honum). Jeg veit ekki, hvort jeg á frekar að trúa því, sem hæstv. ráðh. segir nú, eða því, sem hann sagði um daginn — jeg stóð þá með honum í einhverju máli. Þá sagði hann, að jeg væri einhver helsti maður þessarar þjóðar. (Dómsmrh: Hvenær var það?). En nú skipar hann mjer í langtum óæðra sæti. En eitt er það, sem jeg hefi tekið eftir, og það er það, að þó hæstv. ráðh. skipi mjer nú á hinn „óæðra bekk“, þá er þó svo að sjá, að honum þyki það nokkurs vert, er jeg segi, því engum svarar hann eins ítarlega.

Hæstv. ráðh. sagði áðan, að öll löggjöf vor væri í brotum og að hana vantaði heilsteyptari svip. Þessi n. sagði hann, að ætti að lækna þetta alt. Hann talaði um hinn „organiska“ kraft laganna. Hvernig þau væru knúð í gegnum þingið í fljótræði. Þetta ætti hin marglofaða n. alt að lækna. En eftir þessum skilningi ætti hún að standa við stól hvers einasta þm. og vaka yfir gerðum hans við hverja atkvgr.

Þá vildi hæstv. ráðh. gera lítið úr því, þegar jeg var að tala um, að stj. gæti altaf haft fagmenn og sjerfræðinga, svo sem eins og vita- og vegamálastjóra, Búnaðarfjelag Íslands o. fl. Því hvað gæti stj. sótt til þeirra, nema aðeins efnið í lögin!

Hvílíkur djúpur skilningur á löggjöf einnar þjóðar, ef efnið í lögunum er smáatriði. Það er auðvitað aðalatriðið. Löggjöf er dæmd eftir því, hvernig efnið í henni er.

En þó að þetta væri nú rjett hjá hæstv. ráðh., þá var svo langt frá því, að jeg gleymdi forminu. Jeg sagði, að stj. gæti á öllum tímum snúið sjer til hina lögfróðustu manna í landinu, sem eru háskólakennararnir.

Hæstv. ráðh. var að tala um mína kjósendur og sagði, að það væru bara þeir aumustu þeirra, sem mundu taka mark á mjer í þessu máli. Hæstv. ráðh. sagði það út af því, að jeg taldi, að hjer væri verið að stofna þrjú embætti. Jeg vil segja hæstv. ráðh., að kjósendur mínir fylgjast nákvæmlega með því, hvernig haldið er á fjármálum þjóðarinnar. Og þeir eru mjer áreiðanlega sammála um það, að síst sje ástæða til fyrir okkar litlu þjóð að bæta við slíkum embættum, nema nauðsyn kalli. Þetta er viðurkent í mínu kjördæmi sem annarsstaðar þar, sem vitrir menn ráða.

Hæstv. ráðh. var að tala um vinnubrögð mín hjer á þingi. En jeg verð að segja, að jeg þykist gegna vinnu minni hjer eins samviskusamlega og jeg get. Að öðru leyti ætla jeg ekki að fara inn á það.

Um ræðu hv. frsm. meiri hl. get jeg vísað til þess, sem jeg tók fram í fyrstu ræðu minni. Hjá honum kom ekkert nýtt fram. Hann talaði um, að bæði vegna breyt. á frv. og skýrri yfirlýsingu frá honum sem frsm. n. hlyti mönnum að vera það ljóst, að þessi n. ætti ekki að hafa skapandi áhrif á löggjöfina. (Dómsmrh.: Má hún ekki hafa skapandi áhrif?). Jeg álít, að löggjafar þjóðarinnar eigi að vera sá skapandi kraftur í löggjöfinni, en ekki einhverjir menn úti í bæ. Það er sú mesta vantraustsyfirlýsing á Alþingi, sem nokkurntíma hefir komið fram, þegar á að fara að sækja menn út í bæ til að vinna starf hinna kjörnu fulltrúa þjóðarinnar. Jeg verð að ætla, að þjóðin taki í streng með mjer og segi: „Þess vegna kjósum við þingmenn okkar, af því að við trúum þeim sjálfum til að semja löggjöfina“. Ef svo þjóðin kemst að þeirri niðurstöðu, að löggjafarnir hafi kastað löggjafarstarfinu frá sjer, þá sendir hún nýja menn á þing.

Ef frv. þetta á að skiljast eins og hæstv. dómsmrh. skilur það, er það hættulegt, og þá á hver einasta hönd að vera á móti því. En ef það er skilið eins og hv. frsm. skilur það, þá er það gersamlega óþarft, þar sem reynslan hefir sýnt, að ríkisstj. getur fengið nóga sjerfræðinga til þess að undirbúa stjfrv. Og þegar verið er að tala um hörmulega löggjöf frá Alþingi, vil jeg eindregið mótmæla því. Alþingi hefir afgr. hvern lagabálkinn á fætur öðrum, sem alt eru vönduð lög. Hvar í veröldinni eru sköpuð lög, sem standi óhaggað frá ári til árs, frá öld til aldar? Lífið gerir margfaldar kröfur til margfaldra breytinga. Halda menn kannske, að júristar úti í bæ, sem að vísu hafa góða einkunn í lögum, að þeir geti hindrað þær breyt. lífsins, sem hafa í för með sjer rjettmætar kröfur um breytta löggjöf? Löggjöf, sem ekki samsvarar kröfum lífsins, á að fella úr gildi. Nú er okkar viðskiftalíf og alt okkar líf altaf að verða margvíslegra og breytilegra, og við verðum auðvitað að haga löggjöf okkar eftir því. Breytingar á löggjöfinni eru því óumflýjanlegar. Og þær munu ekki verða minni, þótt stj. takist að kveikja á þessari nefndartýru.