30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

15. mál, laganefnd

Magnús Torfason:

Hv. þdm. mega ekki búast við, að jeg taki eins háa tóna og hv. næstsíðasti ræðum. (SE). Það er hvorttveggja, að mjer er það ekki sjerstaklega lagið og að rjettara mun að byrja svo lágt, að maður sje viss um að springa ekki á því. Mjer er það heldur ekki lagið eins og honum að fara upp fyrir skýin, enda hættir mönnum þá til að gerast glapsýnir, þannig að þeir sjá ekki, hvað gerist hjer niðri á jörðinni, það sem nær þeim er. (SE: Hefir hv. þm. aldrei komist upp í skýin?). Ekki eins hátt og hv. þm. Dal., og alls ekki svo hátt, að jeg hafi nokkuð nálgast „bláa“ gatið.

Það gleður mig auðvitað, að það er síður en svo, að hv. andmælendur þessa frv. hafi nokkuð við brtt. meiri hl. n. að athuga. Enda var með þeim tekið tillit til þeirra radda og aths., sem komu fram hjá hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. Skagf. við 1. umr. þessa máls. Helst hefir það verið fundið að þeim, að meiri hl. hafi ekki gengið nógu langt í að breyta frv. En hinsvegar hefir minni hl. n. og andstæðingar frv. eigi komið fram með neina brtt.; það er vitanlega ekki úrhættis enn, og geta þær komið fram við 3. umr., enda er það oft svo, að það er heppilegra að koma þá fram með smábrtt., þegar n. er búin að bera fram aðalbreyt. á frv.

Af brtt., sem minni hl. ympraði á, skal jeg sjerstaklega nefna bráðabirgðaákvæði þess efnis, að laganefndin ætti að vera skipuð í samræmi við starfandi stj. Þá ætti andstæðingum frv. að vera auðvelt að koma fram með brtt. þess efnis. En jeg hygg, að það sje álitamál, hvernig sú till. ætti að vera; enda færi það svo, að með því að skifta um nefndina jafnoft og stjórnarskifti fara fram, þá fengist ekki sú framsýni yfir málin og lagasmíðið, sem ætlast er til, að þessi n. hafi.

Það er sjálfsagt hægt að þræta mikið um, hvað þessi n. muni kosta mikið fje, og telja þar aðrir klipt, en hinir skorið. En á það má benda, að varið hefir verið eigi alllitlum upphæðum til undirbúnings lagafrv. á undanförnum árum, og mun það yfirleitt aukast. Jeg bendi ekki á þetta til þess að álasa neinum fyrir það, síður en svo, jeg tel það eðlilegt. Það er tæplega hægt að ætlast til þess af starfsmönnum stjórnarráðsins, að þeir geti verulega snúið sjer að lagasmíði, vegna þess að tími þeirra er bundinn við önnur dagleg störf, og svo eru sjerstakar ástæður á hverjum tíma, sem kalla að, og fer jeg ekki lengra út í það.

Stjórnir landsins hafa líka á síðari árum skipað sjerstakar n. til þess að undirbúa ýms lagafrv. og oftast verið álasað fyrir það. Það er ekki svo að skilja, að jeg telji, að þessi laganefnd geti komið í staðinn fyrir slíkar n., sem skipaðar eru til að athuga sjerstök mál, en hún ætti að geta hjálpað þeim mikið, og kem jeg að því atriði síðar.

Þá vil jeg víkja að því, sem hæst hefir verið látið um, að með þessari n. væri sett nokkurskonar „yfirþing“. Jeg verð að segja það, að jeg skil ekki þennan hugsunarhátt, allra síst sjeð frá dyrum þeirra manna, sem gera svo mikið úr hinni víðtæku þekkingu og menningu þingsins, og það á ýmsan hátt með rjettu. Á hinn bóginn segja þeir með þessari fullyrðingu sinni um n., sem skipuð verður þremur mönnum, að hún geti algerlega ráðið yfir þingmönnum. Með öðrum orðum, að þm. sjeu svo miklir ræflar, að þeir muni láta þessa þrjá utanþingsmenn, sem nefndina skipa, stjórna sjer. Mjer dettur ekki í hug, að þeir geti það. Enda eru þeir samkv. brtt. n. settir á afmarkaðan bás sem þjónar þings og stjórnar.

í 2. gr. frv. er það beinlínis sagt, að laganefndinni skal skylt að vera ríkisstj., alþingismönnum, alþingisnefndum og milliþinganefndum til aðstoðar um samningu lagafrv. og annan undirbúning löggjafarmála. Þessi n. er því alstaðar sett í þjónsaðstöðu, og getur það ekki orðið skýrar sagt en hjer er gert í lögunum. Og málefnið, sem 4. gr. fjallaði um, er sett í 2. gr., beint til þess að laganefndin líka skuli rækja það sem þjónn þings og stj. Enda er það beinlínis skýrt tekið fram í nál., að n. sje ekki ætlað að hafa áhrif á löggjafarstarfið að efninu til. Hv. frsm. meiri hl. og jeg sem annar maður úr n. höfum báðir lagt sterka áherslu á þetta. Mótmæli andstæðinga frv. gegn þessu herða líka á þeim skilningi, og má því líta svo á, að sjaldan hafi verið gengið svo vei frá nokkru lagaákvæði eins og þessu, sem kveður á um það, að nm. eigi að vera þjónar þings og stj. — Jeg verð að segja, að „máttugur er Jónas“, ef hann getur haggað þessu. (Ýmsir þdm.: Hvaða Jónas?). Þetta er orðtak, sem haft er eftir einum besta ritsnilling þessa lands, sem hann hafði gert greiða. (Forseti: Þetta verður eigi skoðað sem fordæmi þess, að nefna megi þm. með eiginnöfnum hjer í deildinni). Þetta er og ber að skoða sem málshátt.

Jeg veit til þess, að elskulegir bræður okkar og hv. þm. Dal. við Eyrarsund hafa starfandi nefndir, er þingflokkarnir nota sem ráðunauta. Nágrannaþjóðirnar hafa mismunandi form á þessu. Jeg held, að þessi laganefnd okkar verði eins ópólitísk og unt er í þessu landi kunningsskaparins, þar sem hver þekkir annan, og það form er okkur heppilegast. Það er enginn vafi á því, að við höfum mikla þörf fyrir slíka ráðunauta, eins og aðrar þjóðir, og jafnvel fremur, sakir þess að við erum umkomulausari en þær og verðum að hafa þingið eins stutt og unt er og láta störfin ganga hraðara en í þingum annara menningarlanda. Verkefni þessarar n. er síst minna hjer en annarsstaðar, vegna þess að hjer verður alt að skapast frá grunni í löggjöfinni. Það má heita svo, að við höfum búið með fornaldarsniði í þeim efnum, þangað til fyrir rúml. 50 árum síðan, er byrjað var á að tosa löggjöf þjóðarinnar í framfaraáttina. Á þessu hálfrar aldar tímabili hafa orðið óvenjulegar breyt. í þjóðlífinu. Alt þetta, sem jeg nú hefi nefnt, bendir til þess, að í þessu landi sje einmitt sjerstök þörf fyrir starf slíkrar n. Ef við lítum á starf og aðstöðu þessarar n. án þess að þjóta upp í hápólitíkina, þá eigum við smámsaman á þennan hátt að geta alið okkur upp lagasmiði.

Jeg býst ekki við því, að við myndum kenna mikilla breytinga allra fyrstu árin, þótt n. verði sett, þótt þær að sjálfsögðu verði einhverjar. Hinsvegar er jeg ekki í vafa um það, að störf n. verða þýðingarmeiri og betri með hverju árinu, ef þess er gætt, að endurnýja hana smátt og smátt að góðum og nýtum kröftum. Við þurfum á sjerfræðingum í lagasmíði að halda, einkum vegna þess, að hjer er ekki einn einasti maður, sem getur helgað sig óskiftan stjórnmálum þessa lands. í öðrum löndum er fjöldi manna, sem ekkert gera annað en að gefa sig að stjórnmálum. Er því sýnu meiri þörf slíkrar nefndar hjer en þar. Og það er enginn vafi á því, að slík n. sem þessi mundi smátt og smátt gefa oss betra yfirlit yfir löggjöf þjóðarinnar.

Jeg býst heldur ekki við, að þessi n. verði skipuð með það fyrir augum sjerstaklega, að hún verði einhver skapandi kraftur, en hinsvegar er jeg í engum vafa um það, að n. muni frjóvgast af samvinnu við löggjafana og þá menn, sem bera hag þjóðar og lands sjerstaklega fyrir brjósti, og er þá ekki að vita nema myndast geti þar skapandi kraftur, og er þá ekki nema gott til þess að vita. Það er rjett, sem hv. þm. Dal. sagði, að þessir menn komast í nánara samband við hagsmuni þjóðarinnar á þennan hátt. Það er misjafnt, hvað menn eru bjartsýnir á slíka hluti. Jeg er nú farinn að verða nokkuð við aldur, eins og hv. þm. Mýr. var að brýna mig á í gær, og því eðlilegt, að jeg sje ekki eins bjartsýnn og þeir, sem eru í broddi lífsins.

Jeg hygg nú, að ekki verði miklar umbreytingar fyrst í stað við skipun þessarar n., en hinsvegar er jeg í engum vafa um það, að n. verði til mikils gagns er frá líður, ef vel er á haldið.

Meira hefi jeg ekki að segja, en jeg lít svo á, að alt sje betra en það ástand, sem nú er, svo að frá því sjónarmiði hygg jeg, að hv. deild geti með góðri samvisku greitt þessu máli atkv. sitt.