30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

15. mál, laganefnd

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þar sem hv. 2. þm. Árn. hefir nú svarað efnishlið þeirra ræðna, er fluttar hafa verið á undan, þarf jeg litlu við að bæta. Þó vil jeg rifja upp tvö atriði í þessu máli.

Það er þá fyrst að koma skipulagi á það, að íslensk lög verði gefin út á handhægan hátt almenningi og til þæginda fyrir þá, sem við þau þurfa að sýsla. Um þetta eru engar deilur; allir eru sammála um það, að slíkt lagasafn eigi að gefa út. Af þessu mundi leiða það, að komið yrði á meira samræmi um útgáfu Alþingis- og Stjórnartíðinda. öllum er kunn sú mikla óverkhyggni, að rifinn er upp stíllinn í Alþingistíðindunum og settur að nýju í Stjórnartíðindin, aðeins með dálítið annari línulengd. Ef sá siður kæmist á framvegis að gefa lögin út á nokkurra ára fresti, mundi letrið úr Alþingis- og Stjórnartíðindunum látið standa, og því yrði skotið inn á viðeigandi hátt í næstu útgáfu. Þetta væri sjálfsögð breyt., en þetta sýnir, hve lítið hefir verið gert í þessu efni, að mönnum skuli ekki hafa dottið þetta í hug fyrir löngu. Einn af prófessorum háskólans hefir verið að basla við að gefa út lög Íslands undanfarið og beðið um styrk í því skyni, en altaf orðið að hætta og lögfræðingar og leikmenn í lögum eru oft í vandræðum að hafa texta gildandi laga. Jeg tel það góðs vita, að allir þm. virðast vera sammála um það, að gott væri að gefa lögin út á nokkurra ára fresti. Um þýðingu n. hefir verið mikið talað, einkum af hv. 2. þm. Árn. Sjá allir, að slík n. sem þessi er sett til þess að vera þjónn þingsins, til þess að ljetta verkið, gera það betra og ódýrara. Þetta er tilgangurinn með n. Hv. 1. þm. Skagf. gat þess, að stj. væri innanhandar að fá sjer aðstoð við samningu lagafrv.; þm. yfirleitt hafa ekki aðstöðu til þess. Og þótt 42 þm. leiti sjer aðstoðar hjá einum í dag og öðrum á morgun, getur það ekki orðið til þess að bæta löggjöfina yfirleitt, heldur aðeins einstök mál. Hv. þm. (MG), sem annars er mótfallinn öðrum hluta frv., játaði þó, að annríki væri svo mikið síðari hluta þings, að menn hefðu ekki tíma til þess að rannsaka hvert mál ítarlega. Með þessari viðurkenningu hv. þm. er það ljóst, að grundvallarskoðun manna er hin sama, því að jeg tel hv. þm. einn af þeim helstu, sem eru á móti þessum lið, en talar þó þannig, að hann ætti að vera því fylgjandi samkv. röksemdafærslu sinni. Sami hv. þm. sagði, að hægt væri að breyta lögunum næsta ár, ef þau hefðu mistekist. Jú, að vísu, en það kostar 6 umr. í þinginu, og það kostar líka peninga.

Þá get jeg verið stuttorður um ræðu hv. þm. Dal. Hv. þm. byrjaði að berja barlómsbumbuna, eins og hans er venja, og spurði, hvaðan ætti að taka peninga til þess að kosta slíka aðstoð. Það er ekki úr vegi að benda hv. þm. á það, að hann vill hjer slá á strengi síngirni aumustu kjósenda, til þess að eyða góðu máli og láta það stranda á litlum kostnaði, en að sjálfur lifir hann þvert á móti þessari kenningu sinni. Hann hefir sjálfur átt þátt í að ákveða laun bankastjóranna í Íslandsbanka, sem. hafa helmingi hærri laun en þau, sem ætluð eru ráðherrum. Jeg veit, að hv. þm. segir, að það sje óviðeigandi að minnast á persónulega bitlinga, en hv. þm. verður að gæta þess, að bæði hann og aðrir verða að lifa í samræmi við kenningar sínar. En hv. þm. lifir ekki eftir þessum kenningum sínum; hann hefir sem stjórnandi landsins breytt þvert ofan í þær. Jeg þori vel að standa við það og mun ekki kvarta, þótt gagnrýndur verði sá kostnaður, sem af skipun þessarar n. leiðir. Jeg þori að leggja málstað minn undir dóm almennings. En þegar hv. þm. er svo kjarklaus, að hann þorir ekki að leggja sínar gerðir undir almenningsdóm, sýnir það aðeins, að hann vill fá að eyða fje landsins eins og honum þóknast til sinna persónulegu þarfa, án opinberrar gagnrýni, en eyða almennum umbótamálum eins og þessu með heimskulegu sparnaðarhjali.

Jeg þarf ekki að minnast á aðra eins fjarstæðu og þá, að þingið verði gert að afskræmi, þótt það fái aðstoð sjerfræðinga. Jeg get tekið dæmi úr okkar hópi. Væri það ekki ávinningur fyrir okkur alla, ef jafnóvenjulega ritfær maður og hæstv. forseti (BSv) hefði aðstöðu til þess að laga málið á frv. þm. Allir vita, að hann er sjerstakur smekkmaður á íslenskt mál og hefir lag á því að segja skoðun sína í stuttu máli og ljósu. Slíkir menn eru fleiri, sem betur fer, en hvers vegna á ekki að nota sjer aðstoð þeirra til þess að fá lög þjóðarinnar á betra máli. Það er afskræmishugsunarháttur hjá hv. þm. Dal. að vilja hindra, að þekkingin í landinu sje notuð.

Þá talaði hv. þm. um frelsið, sem taka ætti af þm. Segjum, að búið væri að fá málhagasta mann Íslands til aðstoðar þinginu í þessu efni og að helmingur þm. færði sjer aðstoð hans í nyt. Hvað hefir þá gerst? Hafa þessir 20 þm. afsalað sjer einhverjum rjetti? Nei, það er síður en svo. Og það er ekki eins og verið sje að neyða þm. til þess að leita sjer aðstoðar hjá n. Ef hv. þm. Dal. sæti á þingi eftir að slík n. væri komin og hann leitaði ekki aðstoðar n., þótt hann vissi, að frv. hans gætu batnað við það, þá er honum það heimilt; þingvinna hans yrði aðeins ennþá ófullkomnari en hún þyrfti að vera. Hann heldur frelsi sínu að hafa frv. ófullkomin. Í stuttu máli, alt þetta frelsishjal er aðeins til þess, að sama ólagið haldist og ljelegri lög fari frá þinginu en þarf að vera.

Hv. þm. tók það illa upp fyrir mjer, að jeg gæti ekki sjeð annað en grautarlega starfsemi hjá þeim, sem forystu hafa haft um lagasmíðar þessa lands, t. d. hv. andmælenda minna. Jeg vil biðja þá að taka einhvern þátt löggjafarinnar út úr og sanna, að þeir hafi undirbúið hann svo að formi, efni og máli, að það geti talist stórvel gert. Það kann að vera, að þeir hafi gert þetta; jeg hefi bara ekki orðið var við það. Annars vil jeg ekki kasta steini á þá að þessu leyti fremur en ýmsa aðra, en jeg hreyfi þessu vegna þess, að þeim er ekki nóg að hafa staðið ljelega í þessum efnum sjálfir, heldur vilja þeir líka hindra, að aðrir geri vel. Jeg vil láta skipa þessa n. af því að jeg finn, að þess er full þörf, og að hvorki jeg nje flestir aðrir geta leyst þingstörfin að þessu leyti nógu vel af hendi aðstoðarlaust um form og samræmi. En vegna þess að hv. þm. Dal. er svo ánægður með ástandið eins og það er og hefir verið, vil jeg minnast á einn þátt löggjafarinnar, sem jeg hefi unnið að umbótum á meira en fyrirrennarar mínir, þó jeg hinsvegar finni, að miklu meira þarf að gera í þessu efni en jeg get gert. Það eru hegningarmálin. Þau eru nú meira en hálfrar aldar gömul og skammarlega úrelt, en þó hefir engin tilraun verið gerð til þess af nokkurri stj. eða þingi að lagfæra þau. Hv. þm. veit einnig, að hegningarhús okkar er svo lítið og vont, að neitt svipað því þekkist ekki í nálægum löndum. Og engin hegningarskrá er til á öllu landinu. Ef einhver maður þarf að fá vottorð um það, hvort honum hafi nokkurn tíma verið hegnt eða ekki, þarf kannske að fara í margar sýslur til þess að geta fengið þær upplýsingar, er með þarf. Svo óskapleg er eymdin í stjórnarráði Íslands, að þar er engin hegningarskrá til, þótt svo sje í hverju siðuðu landi. Fangelsisleysið, úrelt hegningarlöggjöf, vöntun á hegningarskrá — alt sýnir þetta, hve ástandið er aumt. Úr þessu hefi jeg reynt að bæta af veikum mætti.

Tveir ágætir menn vinna nú að endurskoðun hegningarlaganna. Það kann að vera, að það taki mörg ár að fá þau endanlega samþ., en þetta er þó byrjunin. Það er verið að gera við hegningarhúsið og gera hegningarskrána. Ekkert af þessu getur hv. þm. Dal. kallað óþarft. En nú vil jeg biðja hv. þm., sem kastar steini að mjer fyrir þessa viðleitni mína, að skýra frá því, hvað hann gerði meðan hann sat að völdum til þess að framkvæmdin á löggjöf okkar væri færð í samræmi við kröfur nútímans. Og mig uggir, að flest í okkar löggjöf sje alveg á borð við framkvæmdir hegningarlaganna.