30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

15. mál, laganefnd

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. 2. þm. Árn. mintist á það, að jeg hefði í gær látið þau orð falla, að hann væri farinn að gerast aldraður. Það, að menn gerast aldraðir, hefir á sjer tvær hliðar, og er önnur þeirra góð, en hin lakari. Með aldrinum verða menn stundum glapsýnir á þarfir sinna tíma, og er það hin lakari hliðin, en þeir hafa líka oft eignast þá reynslu, er víða má að notum koma, og er það hin betri hliðin. Eins og jeg nefndi í gær, þótti mjer lakari hlið aldursins koma nokkuð fram í því máli, er þá var til umr., en jeg álít, að betri hlið aldursins hafi einmitt komið fram núna, eins og í svo mörgum málum öðrum, sem hv. þm. er riðinn við.

Mjer er það fullkomlega óskiljanlegt, hvernig þeir, sem eru á móti þessu máli, finna út úr frv., að ef það nái samþykki, sje hjer verið að búa til einhvers dreka, sem gleypti löggjafann með húð og hári og rjeði einn öllu. Fyrir mjer er þetta ekkert annað en formsatriði, sem jeg hygg, að yrði til mikilla bóta.

Menn hafa haldið því fram, að löggjafarnefndin yrði allsráðandi í þessu efni og mundi taka sjer vald þingsins. Jeg er sannfærður um, að um þessa n. mundi fara eins og t. d. skrifstofustjórana í stjórnarráðinu. Þeir menn hafa sínar ákveðnu pólitísku skoðanir, en það dettur auðvitað engum í hug að hrófla við þeim, því að þeir eiga aðeins að koma fram sem ráðunautar stj. í formshlið á framkvæmdum mála.

Jeg lít þannig á, og býst við að allir fylgismenn frv. líti þannig á, að aðalstarf laganefndar eigi að vera það, að aðstoða löggjafana um hið ytra borð laganna; þeir eigi að koma með efnið í þá löggjöf, sem þjóðin þarfnast á hverjum tíma. En hitt vita allir, að það þarf að vera ákveðið form fyrir þessum lögum, og að stundum vill verða nokkur misbrestur á því formi hjer, sem ætti að vera skiljanlegt fyrir þá, sem hafa hlustað á skilgreining hv. 1. þm. Skagf. um það, hve miklar annir þm. oft hafi, þegar þeir verða að starfa bæði daga og nætur hjer á þingi, enda eru dæmin deginum ljósari.

Jeg held, að það sje sambærilegt að minnast á það hjer, að á meðan okkar byggingarlist var á sínu frumstigi, þá var það svo, að þegar einhver þurfti að byggja hús, þá ákvað hann sjálfur að öllu leyti, hvernig það skyldi vera, og vann svo að byggingunni sjálfur og kom því upp á eigin spýtur. En eftir því sem byggingarlistin komst á hærra stig, varð meiri nauðsyn á að fá sjerfróða menn til að sjá um, að alt væri gert eftir hinum föstu reglum byggingarlistarinnar. Maður, sem vill byggja sjer hús, kemur nú til sjerfræðinganna og segir: Svona hús vil jeg fá, nú skuluð þið gera nákvæma teikningu af húsinu, eftir því sem jeg segi ykkur fyrir um húsið, og svo læt jeg byggja húsið eftir henni, svo að það verði eftir listarinnar lögum. — Alveg það sama er hjer á ferðinni. Löggjafarnir gera sjer það ljóst, um hvaða efni lögin eiga að vera, en það þarf líka sjerfræðing til þess að tryggja það, að lögin sjeu eftir þeim lagalistarreglum, sem krafist er í hverju þjóðfjelagi. Það er ekkert annað, sem hjer er á ferðinni, og mig undrar það stórlega, að menn skuli láta sjer detta það í hug, að hjer sje um eitthvað annað að ræða.

Það er verið að benda hjer á 4. gr., þar sem segir, að löggjafarnefnd skuli láta ríkisstj. í tje till. um það, hver löggjafarefni skuli tekin til meðferðar á tilteknu tímabili og hvernig því starfi skuli hagað, og jeg sje ekkert ósamræmi við það, sem jeg hefi haldið hjer fram. Maður veit um hið mikla löggjafarstarf á síðustu árum, sem er afleiðing af hinum miklu breyt og stórkostlegu framförum, sem orðið hafa í mörgum greinum, en sem gerir það að verkum, að margt, sem gert hefir verið á því sviði, hefir rekist á við ákvæði eldri laga. Okkar lagasmíð er að mörgu leyti orðin einn hrærigrautur, og það er nú farið fram á það að koma föstu skipulagi á lagabálkana í heild. En til þess þarf að taka eina og eina grein laga og samræma hana og koma henni í fastar skorður. En það er ekki sagt, að þeir menn, sem gera till. um, hvað taka skuli og gefa bendingar um formshliðina, eigi að ráða neinu öðru, t. d. um efni laganna. Þetta starf hefir vitanlega kostnað í för með sjer, en það kostar líka nokkuð, þegar þeir, sem eru önnum kafnir í öðrum störfum, bera fram og samþykkja frv., sem svo hljóta að reka sig á gildandi lög, svo að þar af leiðandi fari mikil vinna í það hjá þm. að laga lögin og koma þeim í það horf, sem þarf til þess að mynd sje á þeim. Það kostar líka mikið að verða þing eftir þing að eyða tíma í það að breyta lögum, sem eru gölluð að formi vegna vöntunar á lagaþekkingu þeirra, er semja þau, og jeg er sannfærður um það, að sá sparnaður, sem fæst gegnum slíka löggjafarstarfsemi, vinnur fullkomlega upp þann beina kostnað, sem af slíku starfi leiðir. Jeg verð ennfremur að segja það, að jeg álít, að hjer sje gerð merkileg tilraun til þess að koma vinnubrögðum þingsins í betra horf en verið hefir. Mun jeg þess vegna fylgja frv.