30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

15. mál, laganefnd

Magnús Jónsson:

Jeg get tekið undir með þeim, sem hafa talað um það, að frv. hafi heldur batnað í meðförum hv. n., því að maður getur náttúrlega sagt það, að þegar tvær af átta illum greinum eru strikaðar út, þá batni frv. við það. Og hæstv. dómsmrh. hefir eiginlega játað þetta og kveðið upp merkilegan dóm um þetta frv. sitt, með því að ljúka lofsorði á verk hv. n., sem hefir sniðið af því fjórða partinn. Jeg get sagt eins og kóngurinn forðum: Betri eru fjórar ferlegar tær en fimm.

Annars finst mjer aðalgallinn það, sem hv. þm. Dal. sagði í sinni fyrri ræðu, að hjer er verið að löggefa um mál, sem ekki er þörf á að setja nein lög um. Það er alþektur viðvaningsháttur, sem maður sjer altaf, þegar nýr maður kemur inn á þing, að vilja koma með löggjöf um ýms hjegómamál, og átti jeg þar óskilið mál með Öðrum. Það er reynsla margra, að þegar þeir koma fyrst á þing, þá sjá þeir margt, sem þeim finst þörf á að bæta úr, og undir eins koma þeir með frv. um það. Þetta er mesti ósiður, og síst af öllu setti stj. að falla í þessa gröf.

Það, sem á að nást með þessu frv., er aðallega tvent, og skal jeg nú fyrst minnast á það smávægilegra. Það er um það, að gefa út lögin á einhverju vissu árabili. Það hefir verið sýnt fram á það af hv. 1. þm. Skagf., að það þarf ekki nokkur lög til þess, ekkert annað en fjárveitingu. Jeg efast jafnvel um, að það þurfi nokkuð nema fjárveitingu eftir á, því jeg býst við, að hver stj. myndi telja sjer heimilt að láta gera þetta. Jeg skal svo ekkert deila um það, hvort betra er að safna lögunum saman í bálka eftir efni eða raða þeim eftir aldri, en það er alveg víst, að það þarf enga löggjöf til að ákveða um það.

Hitt atriðið er svo leiðbeiningarstarf þessarar n. Það er nú í fyrsta lagi, að hún á að vera til leiðbeiningar fyrir stj., og meira að segja var í upphaflega frv. svo ríkt að orði kveðið, að þessi löggjafarnefnd átti beinlínis að senda stj. till. um það, hvað ætti að löggefa um á næstu árum, en n. vill fella þetta atriði niður og hæstv. ráðh. felst á það. Annars er það alveg augljóst og margsýnt fram á það, að stj. þarf ekkert á þessu að halda, því að hún hefir aðgang að öllu og öllum, sem hún vill nota. Ef einhver stj. vill nota sömu mennina ár frá ári, þá getur hún svo hæglega gert það. Og hvað er svo betra, að þeir heiti nefnd? Ætli þeir starfi nokkuð betur fyrir það? En fyrir næstu stj. er það aftur talsvert viðkunnanlegra að mega leita til þeirra manna, sem hún vill helst, en hafa þá ekki fasta n. frá tíð fyrv. stj. Fyrir þm., sem talað hefir verið um að þyrftu aðstoð, skal jeg játa, að væri gott að hafa aðgang að manni, sem væri glöggur lagamaður og smekkvís á íslenskt mál, en mjer finst það dálítið sjerkennileg aðferð að fara að skipa menn, sem eru hlaðnir öðrum störfum, í nefnd, og sem þm. því varla geta náð í, í stað þess að forsetar þingsins geta leyst þetta með því að ráða einhvern glöggan mann í skrifstofu þingsins þeim til aðstoðar. Það er oft, ef maður vill gera brtt. við eitthvert frv., kannske undir umr., að það er ekki alveg víst, að hægt sje að hlaupa til og kalla heila n. manna saman til þess að ráðgast við; væri því miklu betra að hafa slíkan mann í skrifstofunni. En til þess þarf enga löggjöf, og það þarf yfirleitt enga löggjöf til að ráða fram úr öllum þessum vandræðum, sem hæstv. dómsmrh. var að tala um að hefðu verið á öllu, og sem hann er stöðugt að reyna að kippa í lag. En besta dæmið upp á það, hvað þetta frv. er í raun og veru lítilfjörlegt, er það, hvað það er erfitt að sýna fram á gagnið af því, ef það yrði að lögum. Hv. 2. þm. Árn. hjelt t. d. langa og snjalla ræðu, og hæstv. ráðh. gerði ekkert annað en að vitna í þá ræðu, en hvað var það þá, sem hv. þm. (MT) sagði? Það var ekkert annað en svona almennur skáldskapur, að þessir menn ættu að „frjóvgast“ einhvern veginn í samvinnu við stjórnmálamenn, og þá kynni kannske að myndast af því einhver skapandi kraftur. Ef þetta er ekki orðaglamur, þá vel jeg ekki, hvað er orðaglamur, og það er líka sannast að segja, að það er ekki hægt að mæla með þessu frv. öðruvísi en með einhverju svona löguðu rausi, t. d. þegar hæstv. ráðh. var að tala um það, að einhver smekkvís maður færi höndum um hvert frv. Hvers vegna er þá ekki hið merkilegasta mál á hverju stjfrv.? Stj. gæti sannarlega snúið sjer til einhvers hugvitsmanns á því sviði, en maður sjer ekki, að þau frv. sjeu neitt betri að máli til en gengur og gerist um alment lagamál. Og hví þá ekki að skipa skynsamasta manninn í landinu til þess að ráða efninu líka? Og hvaða trygging er svo fyrir því, að einhver samvinnuskólapiltur, sem þessi hæstv. ráðh. svo skipar, væri hinn smekkvísasti? En það er ekki hægt að skipa vitrustu menn landsins í n. til þess að semja lögin, af því að það er svo erfitt að finna þá, og málsnjallasta manninn er ekki heldur hægt að finna.

Þá hefir verið talað um þetta afskaplega ólag, sem væri á okkar löggjafarstarfi, og þann „voðalega hrærigraut“, sem verið væri að unga hjer út. Mjer skildist helst, að allar lagabreyt. þingsins væru að kenna því, að illa væri frá lögunum gengið; en þetta er alls ekki rjett. Það er hið látlausa athafnalíf, sem gerir það, að ekki er altaf hægt að búa undir sömu lögunum. Jeg hefi ekki rekist á, að það væri svo mikið ólag á íslenskum lögum, og jeg held yfir höfuð, að það hafi ekki verið gerð nein gagnrýning á því, en alt um það býst jeg við, áð eitthvað myndi finnast, ef vel væri leitað. Nei, þessari hæstv. stj., sem myndi eiga að skipa þessa n. í fyrsta skifti, hefir ekki lukkast það neitt betur en gengur og gerist að bera fram frv., er sjeu óaðfinnanleg. Hún er víst sú fyrsta stj., sem hefir fundið upp á því að skella aftan í sum frv. sín klausu, eitthvað á þessa leið: Með þessum lögum eru öll önnur lög, sem brjóta í bág við þessi, úr gildi numin. — Og þeir menn, sem hæstv. stj. skipar í n., verða sennilega ekkert fullkomnari en hinir, sem hún hefir látið undirbúa fyrir sig frv. Jeg hefði haldið, að það myndu verða færðar talsvert veigameiri ástæður fyrir nauðsyn þess að samþ. þetta frv. heldur en hjer er gert.

En það er ekki nóg með það, að hjer sje verið að gefa lög um það, sem engin þörf er að löggefa um, því þá gæti maður þó sagt, að þetta gerði hvorki til nje frá, heldur er jeg, eins og jeg sagði við 1. umr. þessa máls, alveg viss um, ef nokkurt mannsmót er að þeim mönnum, sem n. skipa, og ef hún ekki vinnur sjer til óhelgi strax, getur hún þó haft meiri og minni áhrif á alla löggjöf þingsins. Þess vegna er það algerlega villandi, þegar hv. 2. þm. Árn. segir, að þm. sjeu ekki þeir ræflar, að þeir láti hafa nokkur áhrif á sig. Það verður samt svo, og það þarf engan ræfilsskap til. Það er að vísu svo, að það kemur alstaðar fram í frv., að þessir menn eigi að vera þjónar, ekkert annað en þjónar, og eigi ekki að hafa nein áhrif á löggjöfina, nema þá að forminu til, en hv. 1. þm. Skagf. benti strax á það, að ef þetta væru góðir og þektir menn, þá myndi verða tekið mjög mikið tillit til þess, sem þeir segðu um málin. Jeg er meira að segja viss um, að það myndi oft verða birt álit þeirra um ýms mál í þskj. og að mjög oft yrði spurt: Hvað segir löggjafarnefndin um þetta? Er hún með því? Og þetta myndi ráða úrslitum í fjölda mörgum tilfellum. Jeg er viss um, að þessir menn mundu verða voldugustu löggjafarnir í landinu, ef það væru á annað borð sjerlega vel færir menn.

Við skulum svo koma aftur að frjóvgun hv. 2. þm. Árn. Ef meðgöngutíminn yrði nú svo stuttur, að þeir væru búnir að fæða áður en þeir færu frá eftir fjögur ár, hvað þýddi það, ef þeir ættu aðeins að leiðbeina um málin? Nei, hv. þm. var að vonast til, að þeir, við að vera daglega með stjórnmálamönnum, myndu fara að leggja eitthvað verulegt til málanna sjálfir. Það er með öðrum orðum, að þessi draugur, sem hv. nefnd hjelt, að hún hefði kveðið niður í 3. gr., með því að fella greinina niður, rís þarna upp aftur hjá hv. 2. þm. Árn., og jeg gæti best trúað því, að hv. þm. yrði að von sinni, að þeir myndu ráða nokkuð miklu.

Það er ákaflega einkennilegt, að nokkrar af voldugustu stofnunum sögunnar hafa komið fram í þjónsmynd í fyrstu, þannig að enginn hefir vitað neitt um, að þetta embætti ætti að verða nokkurs ráðandi, kannske verið einhver hirðstjóri, sem átti að hafa eftirlit með fatabúri konungsins, en svo smátt og smátt náð meiri og meiri völdum, fyrst yfir hirðinni, svo yfir konunginum, og kannske að lokum rekið konunginn frá völdum og tekið sjálfur sæti hans. Það kemur svo oft fyrir, að menn geta orðið ofjarlar þar, sem menn eiga aðeins að hafa eftirlit með einhverju. Jeg er ekki að segja, að þessi löggjafarnefnd þyrfti að verða þannig, en hún gæti vel orðið það, ef um mikla áhrifamenn væri að ræða, en þingið kannske heldur ljelegum kröftum skipað; hún gæti þá fært sig upp á skaftið, og þetta væri þá í áttina til að koma upp ráðstjórn, í staðinn fyrir þingstjórn. Þetta yrði þá eins og ráð, sem væri skipað, og yrði að því leyti fastara í sessi, að það er ráðið til ákveðins tíma, og það getur vel farið svo, að það verði ofjarl þingsins.

Eitt af því, sem hv. 2. þm. Árn. sagði um þetta, var það, sem jeg reyndar held, að hv. frsm. n. hafi verið nýbúinn að segja, að skrifstofustjóri þingsins hafi verið „sjeður út“ til að taka sæti í þessari n. Já, ætli það verði nú nokkur frekari frjóvgun fyrir það? Hafa ekki þm. einmitt núna aðgang að þessum manni, og hvað mundi hann betur leiðbeina þm., þó að hann hjeti nefndarmaður heldur en skrifstofustjóri Alþingis? Ef það er meiningin, að hann eigi sæti í n., þá sýnir það best, hvað þetta er mikið „humbug“ á „humbug“ ofan.

Jeg vík þá aftur að því, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, að þetta ætti að verða sjerstakur skóli í lagasmíð. Nei, hv. þdm.! Þetta er aðeins koddi fyrir þm. til að sofna á, en ekki skóli til að læra neitt í, því að einmitt það, að þm. hafa verið neyddir til að spila nokkuð upp á eigin spýtur, hafa verið neyddir til að vinna sjálfir, hefi jeg fyrir satt, að hafi orðið til þess, að þm. eru hjer yfirleitt furðu slyngir lagasmiðir. En það er einmitt vegna þess, að þeir hafa ekki altaf vanist því að geta hlaupið í einhvern smekkvísan mann og sagt við hann: Jeg vil fá brtt. í þessa átt; búðu hana snöggvast til fyrir mig. — Nei, það að spila á eigin spýtur verður áreiðanlega besti skólinn.

Jeg held jafnvel, að þessi n. myndi heldur spilla löggjöfunum sjálfum að því leyti, að þeir yrðu ekki eins færir til að vinna að málunum.

Þetta er þá það, sem jeg ætlaði að segja um þau áhrif, sem jeg álít, að n. mundi hafa. En það, sem mjer finst einkum galli við þessa nefndarskipun, er það, að hún mundi innleiða nokkurskonar einokun í þessum efnum. Hingað til hefir hverri stj. verið frjálst að leita til hverra, sem hún hefir viljað, og það er engin hending, að stj. leitar allvíða til að fá sjer upplýsingar. Það er af því, að maður treystir þessum manninum best í þessari greininni, en hinum í hinni; þessi hæstv. stj. treystir t. d. hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) svo vel, að hún felur honum að undirbúa siglingalögin, en nú skulum við hugsa okkur, að þessi n. hefði þegar verið komin, svo að hans dýrmæta aðstoð hefði tapast. Jeg sje, að hæstv. ráðh. hlær, — heldur máske, að hans leiðbeining hafi ekki verið svo mikils virði. Setjum nú, að hæstv. ráðh. hafi þessa n. frá íhaldsmönnum, sem ekkert hafa hugsað um hegningarlögin, og þar er auðvitað enginn, sem hæstv. ráðh. treystir. Er það nú heppilegt að þurfa að leita í þennan íhaldsafkima, eða eins og nú, að geta valið þá menn, sem ráðh. treystir best, og mundi það ekki altaf verða betri samvinna, að geta snúið sjer til þeirra manna, sem ráðh. persónulega treystir?

Í frv. er svo heimild til þess að snúa sjer til annara manna í þessum efnum. En hvað er þá orðið af nefndinni? Á hún þá bara að vera til þess að sitja á gullstóli, eins og prúðbúin heimasæta og bíða eftir „frjóvguninni“ frá hv. 2. þm. Árn. og öðrum hv. þm., en láta aðra vinna alt starfið? Jeg vil ekki leggja mitt lið slíkri löggjöf.

Annars er það ekkert nýtt, þó að maður heyri raup hæstv. dómsmrh. um þessi undur og skelfing, sem hann hefir gert. Hann tekur aldrei svo til máls í þessari hv. d., að hann þurfi ekki að minna á eitthvað, sem hann hefir gert eða látið gera. Ef hv. þm. Dal. man alt, sem hann hefir gert á meðan hann var ráðh., þá mundi hann eflaust hafa frá mörgu að segja. En hann er ekkert raupsamur, og svo er um fleiri, sem verið hafa ráðh. á undan núv. hæstv. dómsmrh. Hvað skyldi t. d. hæstv. dómsmrh. hafa sagt okkur oft frá viðgerðinni, sem hann ljet framkvæma á hegningarhúsinu eða mentaskólanum? Bara hann gleymi nú ekki þessum tveim klefum, sem hann hefir lofað, að standa skyldu óbreyttir í hegningarhúsinu til þess að sýna, hvernig þar var umhorfs, er hann hóf umbótastarfsemi sína. Það er altaf þarf góðra verka, og það er hvorki til hróss nje lasts neinni stj. að láta framkvæma slíkt. Allir stj. reyna að vinna eitthvað til gagns, og vonandi er, að við fáum aldrei svo ljelega stj., að hún hugsi ekki um að láta eitthvað gott og gagnlegt eftir sig liggja.

En það er þessi einokun í löggjafarstarfi okkar, sem jeg er mótfallinn. Og jeg tel það óviðkunnanlegt og skaðlegt að hafa slíka yfirnefnd til þess að segja fyrir um löggjafarstarfið, af því að mennirnir hljóta að verða misjafnir og ekki jafnvígir á að gera öllu því skil, sem fyrir slíka n. yrði lagt. Jeg veit t. d. ekki, hvort það þætti viðeigandi, er slík n. væri setst á laggirnar, að snúa sjer þá til hinna ýmsu sjerfræðinga stj., svo sem búnaðarmálastjóranna, forseta Fiskifjelagsins, vitamálastjóra og fleiri ráðunauta, sem stj. getur jafnan leitað til. (GunnS: Þetta stendur alt í frv.). Jæja, hvað er þá orðið eftir handa n. að vinna? Jeg sje ekki, að n. sje þá annað en einskisvert punt, ef stj., og eflaust Alþingi líka, á að snúa sjer til sjerfræðinganna eftir sem áður.

Að lokum er það kostnaðurinn við þessa n., sem jeg vildi minnast lítið eitt á, þó að jeg játi, að það sje ekki stórkostlegt atriði fyrir mjer. Jeg ætla þó ekki að blanda mjer inn í þá deilu, sem orðið hefir um þetta á milli hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Dal. Það eru engin rök í þessu máli, ef hæstv. dómsmrh. heldur, að við sjeum fúsir að leggja í þennan kostnað nú, af því að undanfarandi stj. hafa lagt í svipaðan kostnað áður vegna undirbúnings einhverja sjerstakra frv. Og það kemur heldur ekki þessu máli við, hverju hv. þm. Dal. kann að hafa eytt í sinni stjórnartíð í þessu skyni. En kostnaðurinn við þessa n. verður áreiðanlega mikill; það sjer hver heilskygn maður. En það er forðast vendilega að kveða upp úr með það, hvað mikill hann muni verða, því að sú kostnaðaráætlun, sem drepið er aðeins á í grg. frv., er hvorttveggja í senn, ófullkomin og villandi.

Svo vill nú svo vel til, að maður kannast dálítið við, hvernig þessar ýmsu áætlanir gefast í reyndinni.

Hvað átti t. d. sendiherrann í Kaupmannahöfn að kosta í upphafi? Mig minnir, að áætlunin, sem þá var nefnd, talaði um 8–9 þús. kr. á ári. Og hvað var sagt, að berklavarnirnar mundu kosta? Og hvað kostar þetta eða hitt, sem verið er að smeygja inn á ríkissjóðinn, annaðhvort í fjárl. eða þá með sjerstökum lögum, en oftast að alveg órannsökuðu máli?

En að kosta stórfje upp á skrautdúkku, sem á að sitja og bíða eftir væntanlegri frjóvgun, vil jeg ekki vera með til. Fyrir slíkt „humbug“ vil jeg ekki greiða einn einasta eyri.

Jeg ætla þá að láta máli mínu lokið. Jeg mun ekki geta fylgt þessu frv. í hvorugri þeirri mynd, sem það nú er fram borið, vegna þess að jeg tel, að lagasetning í þessu efni geti aldrei orðið annað en „humbug“, og þó skaðleg löggjafarstarfsemi okkar, en hljóti altaf að kosta mikið fje.