04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

15. mál, laganefnd

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki mæla lengi fyrir þessum brtt. mínum á þskj. 523; jeg geri ráð fyrir að greiða atkv. á móti frv., en alls ekki með því, í hvaða mynd sem það verður. En ef frv. verður samþ., þá vildi jeg gjarnan, að brtt. mínar kæmust fram.

Fyrsta brtt. mín gengur út á það, að laganefndin skuli aðeins skipuð til eins árs í stað fjögurra ára, sem ákveðið er í frv. Jeg hefi bent á það áður, hversu óeðlilegt það er, ef stjórnarskifti fara fram, að hin viðtakandi stj. þurfi að starfa mest af þeim tíma, sem hún er við völd, með þá n. sjer til ráðuneytis, sem hún kynni alls ekki við að starfa með og sem skipuð er af annari stj. Mjer skilst, að þó þessi brtt. yrði samþ., þá gerði hún engan skaða, en gæti fremur orðið til gagns. Stj. verður að geta látið n. starfa eins og hún vill; og þetta er spor í frjálslyndisáttina, að sú stj., sem er við völd, geti eftir eitt ár losnað við þá n., sem er í ósamræmi við hana.

Önnur brtt. mín lýtur að því að fella úr 3. gr. ákvörðun um, að lögunum skuli raða í bálka. Virðist mjer óþarfi að mæla nokkuð fyrir um það í lögum, hvernig lögunum skuli raðað, aðeins að hafðar sjeu fullkomnar efnisskrár, og út á það gengur till. mín.

Þriðja brtt. mín er um það, að 4. gr. verði feld úr frv. Jeg sje ekki ástæðu til, að það sje tekið fram í lögunum, að n. sje heimilt að ráða sjer aðstoðarmenn við afgreiðslu einstakra mála. Það virðist sjálfsagt, ef hún þarf á sjerfræðingum að halda og ráðh. samþ. það. Með þessu er gefið í skyn, að þetta eigi að gerast, hvort sem brýn þörf er til þess eða ekki. Og ýmsum þdm. er nú þegar farið að þykja nóg um þann kostnað, sem af nefndarskipuninni kynni að leiða, þó að eigi væri bætt við.

Jeg fjölyrði ekki meira um þessar brtt. Jeg áleit rjett að flytja þær, því að þær eru til bóta, ef frv. á að ganga fram.