06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hafði gert mjer vonir um, að hv. landbn. myndi leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Ed. Gæti það þá orðið að lögum í dag, en þyrfti ekki að hrekjast milli deilda. En nú sje jeg, mjer til mikilla vonbrigða, að útbýtt hefir verið tveim brtt. frá hv. nefnd. Um þessar brtt. er það að segja, að þær eru báðar óþarfar, sjerstaklega sú fyrri, sem er einungis leiðrjetting, sem skrifstofan hefði getað gert og mun gera áður en lögin verða fullprentuð. Það liggur í augum uppi, að það þarf enga brtt. til þessa, þar sem það er bein og sjálfsögð afleiðing af þeirri breytingu, sem gerð var í hv. Ed., og má leiðrjetta þetta án þess að fara að senda málið milli deilda.

Um seinni brtt. er það að segja, að jeg lít svo á, að hún sje líka alveg óþörf, og því ekki ástæða til þess að samþ. hana. Það er nú svo um þessa nýju deild bankans, að ákvæðin um hana í frv. eru svo ófullkomlega úr garði gerð og illa undirbúin, að það verður nauðsynlega að endurskoða þau, og það þegar á næsta þingi. Í 57. gr. frv. er það t. d. alls ekki skilgreint, hvað sje átt við með þessum smábýlum í grend við kaupstaði, og verður óhjákvæmilegt að ákveða eitthvað nánar um það og endurskoða allan þann kafla frv. áður en langt um líður. Frv. var upphaflega ákaflega vel undirbúið, en kaflinn um þessa nýju deild var settur inn á síðustu stundu í hv. Ed. að lítt athuguðu máli, og því sker þessi kafli sig alveg úr um illan undirbúning og er í ósamræmi við aðra kafla frv., vegna þess hvað hann er ófullkominn. Þessu var að vísu bjargað að nokkru leyti í hv. Ed. með ákvæðinu í 61. gr., þar sem sagt er, að í reglugerð bankans skuli setja nánari ákvæði um starfsemi þessarar deildar, en það er alls ekki fullnægjandi, þó að það geti komið í veg fyrir, að þetta verði að tjóni. Jeg vil skjóta því til hv. landbn., hvort hún geti ekki fallið frá þessari síðari brtt. sinni, svo að komist verði hjá því að hrekja málið á milli deilda. Jeg fyrir mitt leyti mun greiða atkv. á móti henni, svo að hægt verði að fá málið afgr. í dag.