04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

15. mál, laganefnd

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

N. hefir ekki haft tíma til að athuga þessar brtt. í heild, en jeg hefi talað við einn samnefndarmann minn um þær og við álítum, að þær sjeu meinlausar og þýðingarlitlar og að þær spilli ekki að verulegum mun. Jeg tók það fram við 2. umr., að það væri stórt atriði, að sömu menn ættu sem lengst sæti í n., og þá væru mestar líkur til, að þeir yrðu óhlutdrægir. Ef hægt er að víkja þeim frá eftir eitt ár, þá má búast við, að sömu menn verði ekki lengi í sessi. Jeg get ekkert sagt um þessa till. fyrir hönd allshn., og eru atkv. hennar því óbundin; þetta er ekki stórt ákvæði, en þó greiði jeg atkv. á móti því.

Brtt. við 3. gr. fer fram á, að handhæg og fullkomin efnisskrá verði látin fylgja útgáfu laganna. Það er vitanlega til bóta, en þetta hefir vafalaust vakað fyrir öllum, og þurfti ekki að setja það inn í lögin.

Þá er brtt. um, að 4. gr. verði feld úr frv. Jeg er sammála hv. 1. þm. Reykv. um, að altaf geta komið þau tilfelli, að n. þurfi að leita aðstoðar sjerfræðinga, hvort sem þessi heimild stendur í lögunum eða ekki, og það verður gert. Þessi till. er því bæði meinlaus og gagnslaus.