04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

15. mál, laganefnd

Hákon Kristófersson:

* *Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg vil taka það fram, að það hefir engin áhrif á mig, hversu góður maður það er, sem kann að vera höf. þessa frv. Jeg er því mótsnúinn af því að það er hið mesta „humbugs“-mál, að tildra upp þessum þremur nefndarstoðum. Stj. hefir það altaf í hendi sjer að ráða sjer menn til aðstoðar við undirbúning lagafrv. Jeg held það sje ekki hægt að segja með sanni, að þm. hafi á síðustu árum verið án aðstoðar í þessu efni, þar sem þeir hafa, hver og einn, altaf getað snúið sjer til hins ágæta skrifstofustjóra um málfegrun og annað, er lýtur að formi á frv. og till.

Þessu frv. hefir nú verið snúið upp í heimild, og er því ekki orðið mikils um það vert. En ef fylgismönnum frv. hefir þótt það svo ákaflega þýðingarmikið, hvers vegna vildu þeir þá ekki gera það óbreytt að lögum, í stað þess að útbúa það aðeins sem heimild fyrir stj. ?

Þessar breyt. eru sönnun þess, að hv. frsm. meiri hl. lítur smáum augum á málið. Það hefir líka komið í ljós, að tveir nm. úr meiri hl. lýsa hlutverki n. þveröfugt hvor við annan. Hv. 2. þm. Árn. telur, að n. eigi að vera eins og þjónn þings og stj. og gerir sem minst úr henni, en hv. frsm. telur, að hún hafi mjög veglegt hlutverk. Á þetta hefir hv. þm. Dal. bent. Innan meiri hl. allshn. er talsverður ágreiningur um það, hvert valdsvið n. ætti að hafa.

Jeg vil aðeins lýsa yfir því, að það hefir engin áhrif á afstöðu mína til þessa máls, hver er upphafsmaður þess. Reynslan af þessari n. verður ólygnasta vitnið. — Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál, enda er það svo í garðinn búið, að meiri hl. hv. d. hefir það í hendi sjer að koma því fram, enda ber það hans mark. Þó virðist þetta ekki vera meira nytjamál en svo, að stj. er heimilað að skipa þessa nefnd.