04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

15. mál, laganefnd

Magnús Torfason:

Sumir hv. þdm. hafa skilið orð mín þannig, að jeg ætlaðist til, að n. hefði pólitísk áhrif. Mjer hefir aldrei dottið neitt slíkt í hug. Jeg átti einungis við það, að hverjum manni, sem fer að fást við löggjafarmál, eykst skapandi kraftur. Það er t. d. vitað, að þeir, sem hafa verið skrifarar á Alþingi, hafa oft orðið þm., og það er vegna þess að þeir hafa fengist við þingmál. Eins gæti ef til vill farið um ýmsa þá menn, er í n. ættu sæti, og átti jeg við það, en ekki að þeir hefðu áhrif á löggjafarvald þingsins. Ef þeir hefðu þann skapandi kraft, myndi það sannast, að þeir yrðu þingmenn öðrum fremur, og á þann hátt kæmi hann fram hjá nefndinni.