04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

15. mál, laganefnd

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Hv. þm. Barð. bar fram þá spurningu, hvort stj., er síðar sætu að völdum, myndu ekki geta látið undir höfuð leggjast að skipa þessa n. Jeg lít svo á, að svo framarlega, sem lögin verða samþ., beri stj. að skipa n., og ef hún er einu sinni hlaupin af stokkunum, mun það sýna sig, að hún er til svo mikils gagns fyrir þingið, að menn vilja ekki missa hana.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði kvartað undan því, að skorti lögfræðilega aðstoð í allshn. Þetta sagði jeg ekki; jeg vildi aðeins benda á það, hve mikil þægindi það væru fyrir allshn., sem ætíð er störfum hlaðin, eins og hv. þm. veit best um, ef hún gæti leitað aðstoðar hjá sjerfræðingum í þessu efni, og hafði jeg þá aðallega í huga prófessora háskólans. Og þótt 2–3 lögfræðingar eigi sæti í allshn., er hún svo störfum hlaðin, að þeir hafa engan tíma til þess að gefa sig að því að rækja málin vísindalega með lögfræðilegum samanburði t. d. við erlenda löggjöf. Annars þýðir ekki að fara um mál þetta fleiri orðum; við hv. þm. Barð. höfum hvor sína skoðun í þessu máli, og býst jeg. ekki við, að hún muni breytast neitt við umr. hjá hvorugum okkar.