08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

5. mál, sveitabankar

Héðinn Valdimarsson:

Ég get ekki fallizt á eina af þeim brtt., sem hv. frsm. mælti nú fyrir, því að eftir henni verður það ekki nema útfararkostnaður og skiptakostnaður, sem hefir forgangsrétt fram yfir lán út á bústofn. Þessi lausafjárveð koma til að vera rétthærri en jafnvel fasteignaveð. Skattar til ríkissjóðs, kröfur vegna fjár ómyndugra og verkalaun vinnufólks, sem samkv. gildandi skiptalögum er nokkurnveginn tryggt sem forgangskröfur við skipti, koma eftir þessari brtt. til að vera réttlægri en lánin út á bústofninn, og er það sannarlega óeðlilegt og ranglátt.

Ég veit, að sveitamenn greiða verkafólki skilvíslega yfirleitt, en þó er það ekki sjaldan, að krefja verður bændur um ógoldin verkalaun í sveitum. Ég þekki það vel sem formaður verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík, að verkafólk þarf oft að leita til mín til að krefja bændur um kaup sitt. Ég er því á móti þessari brtt., þar sem ekkert annað er, sem tryggir rétt þessara manna, því að eins og kunnugt er ná lög um greiðslu verkakaups ekki til sveita eins og sjávar.