08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

5. mál, sveitabankar

Pétur Ottesen:

Ég á tvær litlar brtt. við þetta frv. Önnur brtt. er við 2. gr. frv. Eftir því sem orðalag þeirrar gr. er, þá gerir hún ráð fyrir því, að sveitabankarnir fái fé það, sem þeir svo lána út, frá Búnaðarbankanum, gegnum sparisjóði, samvinnukaupfélög, banka eða bankaútibú.

Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að það sé miklu heppilegra, að sparisjóðsdeild Búnaðarbankans veiti sjálf lán beint til rekstrarlánafélaga, þar sem svo stendur á, að slík félög eru í námunda við Búnaðarbankann. Mér finnst það með öllu ástæðulaust að útiloka þetta. Þvert á móti álít ég, að það eigi að koma skýrt fram, að rekstrarlánafélög geti skipt beint við Búnaðarbankann, þegar það þykir hagkvæmt. Því fremur virðist mér líka ástæða að setja þetta í frv., sem hitt er í ósamræmi við búnaðarbankalögin sjálf, þar sem gert er ráð fyrir því í 7. gr. þeirra laga, að sparisjóðsdeildir fái leyfi til þess að kaupa víxla og tékka.

Þess vegna ætlast ég til þess með þessari brtt., sem ég her hér fram, að sparisjóðsdeild Búnaðarbankans veiti lán beint til rekstrarlánafélaga, þar sem það þykir hagkvæmara, og eins og ég hefi áður tekið fram, þá er því meiri ástæða til þess, þar sem orðalag frv., eins og það er nú, er ekki í samræmi við lög Búnaðarbankans.

Hin brtt. er um nafnið á þessum bönkum. Ég legg til, að í staðinn fyrir „sveitabankar“ heiti þessi félög „lánsfélög“. Mér finnst það vera réttara heiti, að kalla þetta lánsfélög en sveitabanka. Býst ég við, að lánastarfsemin verði aðalverkefni þessara stofnana, en sparisjóðsstarfsemin gæti ég trúað, að yrði lítil. Þeir, sem eiga sparifé, munu heldur leggja það í banka eða sparisjóði, þar sem þeir geta gengið að því, hvenær sem þeir þarfnast, en geyma það þarna, þar sem það hlýtur að verða fastara.

Ég hefi borið brtt. mínar undir bankastjórana í Búnaðarbankanum; féllust þeir á þær báðar og sögðust óska, að þær næðu samþykki. Líta þeir svo á, að samkv. l. um Búnaðarbankann sé þeim skylt að lána öllum, sem fullnægja settum skilyrðum, beint úr sparisjóðsdeild bankans, og þá eins lánsfélögum og öðrum. Vilja þeir hafa 2. gr. þessa frv. í samræmi við það. Einnig voru þeir samþykkir till. minni um nafnið á þessum stofnunum. Aðalbankastjórinn sagði mér, að hann hefði leitt þessi atriði, í tal við nefndina, og skildist mér á honum, að hann hefði jafnvel átt von á brtt. um þessi atriði frá hv. nefnd, a. m. k. um nafnið.