08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

5. mál, sveitabankar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það leikur ekki á tveim tungum, að hugsun sú, sem liggur bak við þetta frv., hefir einróma fylgi Alþingis. Um hitt er deilt, hversu víðtæk þessi starfsemi á að vera. Fannst mér í fyrra, er þetta mál lá fyrir, koma fram of mikil tilhneiging til að þrengja starfssviðið, og var þá m. a. breytt nafni frv. Þessi sama tilhneiging fannst mér nú koma fram í ræðu hv. þm. Borgf. og einnig í annari brtt. hans á þskj. 242. Nú hefir tekizt að fá hv. Ed. til að fallast á að hafa starfssvið sveitabankanna rýmra en í fyrra, og hv. landbn. þessarar deildar hefir og fallizt á aðalatriði frv. Vil ég leggja áherzlu á, að starfssviðið verði ekki þrengt frá því, sem nú er.

Út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði um spariféð, vil ég minna á það, að til þessa hafa nærri allir sparisjóðir verið í kaupstöðum og kauptúnum og hafa þeir átt drjúgan þátt í því að soga fjármagnið úr sveitunum til bæjanna. Till. mín í þessu efni miðar því að því að halda í sveitunum peningum, sem ella munu fara að meira eða minna leyti til kauptúnanna og verða fastir í framkvæmdum þar. En hv. þm. hefir ekki borið fram neina brtt. um að fella niður heimild sveitabankanna til að taka við sparifé, svo að óþarft er að eyða um þetta fleiri orðum. En brtt. hv. þm. um nafnið miðar heldur í þessa átt, og er ég henni því mótfallinn.

1. brtt. hv. landbn. miðar og í sömu átt. Ef hún verður samþ. geta sveitabankarnir ekki veitt lán um lengri tíma til að kaupa landbúnaðarverkfæri, eins og þeim er nú heimilað í 2. mgr. 7. gr. frv. Þetta er þó ekki stórt atriði. Um kaup á meiri háttar vélum, dráttarvélum o. þ. h., ættu bændur ekki að þurfa að leita hjálpar til sveitabankanna, a. m. k. ekki meðan vélasjóðir hlaupa undir bagga með þeim. En ef menn þurfa lántil smærri verkfæra, sem þó greiðast ekki á einu ári, svo sem sláttuvéla o. fl., þá finnst mér umhendis að þurfa ætíð að leita um lán til aðalaðseturs Búnaðarbankans. Á þetta legg ég þó ekki mikla áherzlu.

2. brtt. hv. landbn. er ég fyrir mitt leyti samþykkur. Er hún um að færa 14. gr. aftur í það horf, sem hún var í upphaflega frv. En ég er í nokkrum vafa um, hvort hv. Ed. fellst á þessa breyt., því að tveir flokkar í þeirri hv. deild stóðu næstum óskiptir að því að fella þetta ákvæði úr frv.

Þá eru brtt. hv. 1. þm. N.-M. á þskj. 182. Ég tók samskonar brtt. frá honum vel á síðasta þingi, og var það því ekki að ástæðulausu, að hann bjóst við, að ég hefði tekið þetta atriði til athugunar. En ég skal játa það hreinskilnislega, að þegar frv. var búið undir þetta þing, mundi ég ekki eftir brtt. hv. þm. á síðasta þingi. En ég er þeim í sjálfu sér sammála, en hefi ekki haft tíma til að sinna þeim í önnunum undanfarið. Vil ég því biðja hv. þm. að taka þessar brtt. aftur til 3. umr., svo að við getum báðir átt tal við hv. landbn. um þessa rýmkun á starfssviði sveitabankanna.

Loks vil ég láta í ljós þá von, að þetta mál fái góða afgreiðslu hjá hv. deild og að hún gangi ekki of langt inn á þá braut, að þrengja starfssvið sveitabankanna.