29.01.1930
Neðri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (1009)

28. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Magnús Jónsson:

Hæstv. atvmrh. sagði gamla sannleikann, sem náttúrlega er alltaf í gildi hér, að það er ekki nóg að setja fram þarfirnar og sýna fram á, að eitthvert mál sé bæði gott og þarft, til þess að einsætt sé að samþ. það þegar. Menn verða náttúrlega að velja þar á milli, hvað nauðsynlegast sé og kalli mest að.

Þegar um þetta mál er að ræða, sem hér er á dagskrá, er þess vegna um það að gera, hvort þær framkvæmdir, sem hér er farið fram á í þessu frv., séu svo nauðsynlegar, þörfin svo brýn, að réttmætt sé að flýta því máli svo mikið, að réttara sé að láta eitthvað annað sitja á hakanum.

Hæstv. atvmrh. vildi skipta í tvo flokka þeim málum, sem ríkissjóður stuðlar að framkvæmdum á með fjárframlögum, annarsvegar þegar fé væri veitt til þess beint að auka framleiðslu í landinu og gera menn að styrkari skattþegnum, þ. e. a. s. þegar verið er að styrkja fyrirtæki, sem skila nokkru aftur í ríkissjóð í náinni framtíð. En hitt er þegar verið er að styrkja menn til betri lífsþæginda. Hæstv. ráðh. taldi, og kannske með réttu, að hyggilegra væri að láta það sitja í fyrirrúmi, sem miðaði til þess að gera menn að styrkari skattþegnum, en láta hitt frekar sitja á hakanum. En þegar hæstv. ráðh. svo vill skipa þessu máli í síðari flokkinn alveg skilyrðislaust, þá hygg ég, að það liggi í augum uppi, að það er ekki rétt. Hv. 1. flm. málsins sýndi ljóslega fram á það, að þetta frv. er ekki aðeins til að auka lífsþægindi manna, til að gera þeim vistina notalegri og gera þá ánægðari með að vera kyrrir þar sem þeir eru í sveit komnir, heldur á þetta einnig að geta stuðlað mjög mikið að aukinni framleiðslu og að því að bæta efnahag manna. En svo held ég, að hæstv. ráðh. hafi litið yfirleitt of grunnt á þetta mál með þessari flokkaskiptingu sinni, því að hvað er fyrsta skilyrðið til þess, að meiri afurðaframleiðsla náist til sveita? Það hlýtur þó að vera fyrsta skilyrðið, að fólkið sé þar fyrir hendi, að þar séu einhverjir menn, sem við landbúnað vilja fást, og það er sannarlega sú alalvarlegasta hætta, sem vofir yfir, að sveitirnar tæmist að meira eða minna leyti, og að engir byggingarlánasjóðir eða tilbúinn áburður nægi til að ráða bót á því, vegna þess að fólkið flykkist burt úr sveitunum. Ég hygg þess vegna, að þau málin, sem miða til þess að gera lífsþægindin meiri í sveitunum, séu fyrst og fremst til þess að auka framleiðsluna til sveita. Það er kannske erfitt að gera upp á milli þessara tveggja flokka, en ég vil segja það, að það mál, sem sameinar hvorutveggja flokkana eins vel og þetta, það ætti eiginlega að geta gengið fyrir öllu öðru.

Það er annað atriði líka, sem mér finnst, að verði að koma til greina. Við getum skipt þeim málum, sem fyrir liggja, í tvo flokka. Sum góð mál eru þannig, að það er náttúrlega skaði að þurfa að láta þau bíða, vegna þess að menn langar í hagsmunina strax, en svo eru önnur mál, sem beinlínis spillast við það að bíða, og þar er einmitt þetta mál mjög framarlega. Það er ekki rétt að draga kannske þing eftir þing framkvæmdir í slíku máli sem þessu, því að það leiðir ekki aðeins af þeirri bið, að menn nota ekki þá auknu möguleika til meiri framleiðslu og betri líðunar, sem af þeim framkvæmdum mun leiða, heldur fylgir þar með, að málið spillist með hverju ári. Það er sagt, að ekki þurfi nema einn gikk í hverja veiðistöð, enda er hann þegar kominn hér. Menn eru þegar farnir að koma sér upp sérstökum rafstöðvum, þeir, sem eru áhugasamastir og einhvers megnugir og þess vegna verst að missa úr félagsskapnum. Það getur farið svo, ef þetta mál verður látið dragast lengi, að almennar raforkuveitur komist alls ekki á í mörgum héruðum, vegna þess að svo margir af þeirra beztu mönnum gangi frá, af því að þeir hafa skuldbindingar á sér af einkaraforkuveitum. Ég er viss um, að þetta mál mætti draga svo lengi, að það yrði ónýtt, þegar það kæmi til framkvæmda. Auk þess er það, að einkastöðvar eru oft hálfgerðir gallagripir; mönnum er ávallt sagt, að þær séu fullkomnar, en það getur verið sérstaklega hættulegt að því leyti, að hér er farið inn á það svið, sem mönnum er ekki vel kunnugt um. Það er hægt að láta menn „ganga í vatnið“ til að koma upp stöð, ef maður kemur og segist skuli gera það eitthvað ódýrara en annar, því að þá hættir mönnum við að glæpast á lægsta tilboðinu, og fá þá máske hluti, sem eru mjög lítils virði, kannske miklu minna virði en það fé, sem fyrir þá hefir verið látið. En að koma þannig í veg fyrir, að menn séu ginntir til að kaupa hluti, sem eru lítils virði, mælir mjög með þessu frv., því að stórar rafveitur eru mjög öruggar og langvissastar.

Ég ætla annars ekki að lengja mjög umr. um þetta mál. — Það hefir komið til mála í einu héraði að byrja á slíkri almenningsvirkjun, og það er ákaflega lærdómsríkt að frétta um það, hvernig málinu þar er tekið. Þótt þar séu flokkadrættir miklir, sem í öðrum héruðum, urðu þó allir ásáttir um þetta mál, og varð til um það þessi vísa:

Allir voru sammála um hið mikla hnoss, ef það væri mögulegt að virkja Reykjafoss. Við pólitískar orkuveitur enginn vildi sýsla og Arnór tók í nefið úr dósunum hjá Gísla.

En Arnór og Gísli eru mestu andstæðingarnir í héraðinu; við getum litið á þá sem forvígismenn fyrir flokkunum, sem vilja spilla málunum hvor fyrir öðrum. En svo kom mikilsvarðandi mál, sem allir urðu ásáttir um, og þá varð samlyndið svo mikið, að Arnór tók í nefið hjá Gísla.

Þetta er eins og þegar eitt stórskáldið okkar lýsti því ástandi, sem sagt er að koma eigi, að ljónið leiki sér með lambinu, — og mér finnst það illt, af hæstv. stj. ekki vill fara hér að eins og þessir góðu menn. Ég get ekki neitað því, að mér finnst dálítið kenna þess í ræðu hæstv. atvmrh., að honum finnist ekki lítið undir því komið, að hægt væri að leysa þetta mál einhvernveginn öðruvísi heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv. En það væri ákaflega illa til fallið, ef spurningin um aðferðina væri látin ráða úrlausn þessa máls.