29.01.1930
Neðri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (1012)

28. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég hefi hlustað á umr. um þetta mál hér í d. í þeirri von að verða fróðari um það, hvernig hv. flm. hugsa sér fjárhagshlið þessa máls. En ég hefi orðið fyrir algerðum vonbrigðum. Ég hefi einskis orðið vísari um þetta atriði, sem þó verður að teljast meginatriði í þessu máli. Hinsvegar finnst mér hv. flm. hafa eytt óþarflega mörgum orðum um þá þætti málsins, sem allir eru í rauninni sammála um. Það eru engar upplýsingar, sem máli skipta, þótt talað sér langt mál um nytsemi rafmagnsins og þá auknu menning, lífsþægindi og heilnæmi, sem rafmagninu fylgir; þetta er það, sem allir vita og eru sammála um. Sömuleiðis er ending sveitakvenna og sparnaður sauðataðs engin meginrök í þessu máli. Slíkt er að ganga á snið við veruleikann. Höfuðverkefni þeirra, er leggja vilja máli þessu lið, er að ráða fram úr fjárhagshlið þess. Það mun reynast torveldast viðfangs.

Hv. 1. flm. sagði réttilega, að engin heildaráætlun lægi fyrir í þessu máli, en svo bætti hann við, að það gerði ekkert til, því áætlanir væru venjulega einskonar leikföng. En ég verð að telja helzt til mikla léttúð að vilja leggja út í slíkt stórfyrirtæki án þess að gera sér hina minnstu grein fyrir, hvort nokkrir möguleikar eru á því að standast kostnaðinn eða láta fyrirtækið bera sig fjárhagslega í framtíðinni. Hér vantar enn ítarlega rannsókn, ekki einungis á því, hvað þetta myndi kosta í framkvæmdinni, heldur og á því, hvort þau heimili, sem af eiga góðs að njóta, hafa nokkra aðstöðu til þess að bera þau auknu útgjöld, sem á þau hljóta að leggjast í þessu skyni. Það þarf að athuga þá hlið sérstaklega, er snýr að notendum væntanlegs rafmagns.

Þá talaði hv. 1. flm. um það, að verja mætti í þessu skyni þeim tekjuafgangi, sem nú væri til í ríkissjóði. Hv. þm. virðist halda, að ekkert sé við hann að gera. Sömuleiðis sagði hv. þm. í fyrri ræðu sinni, að þeir tímar kæmu bráðlega, er við gætum minnkað stórum fjárframlög til brúargerða í landinu. Það kann nú að vera, að þingið vilji skipta á þessu tvennu, virkjunum og brúargerðum, og láta hið síðarnefnda sitja á hakanum. En ég álít, að þó hnigið væri að því óheillaráði, þá myndu peningarnir hrökkva skammt. Því það er nú einu sinni svo með okkar afkomu, að ef við fáum kreppuár, þá eru engir peningar aflögu í ríkissjóðnum, og meira að segja erum við þá neyddir til að strika út allar verklegar framkvæmdir í landinu. Ég held því, að málinu verði varla hjálpað á þennan hátt, nema því aðeins, að þingið vilji skera niður töluvert af hinum lögboðnu útgjöldum, en ég hygg flest þeirra þannig vaxin, að ekki verði hjá þeim komizt. Það verður að benda á einhverja aðra og skynsamlegri leið. Segi ég þetta þó ekki af því, að ég vilji máli þessu illa, heldur til þess að menn geri sér það ljóst, að leita verður einhverra sérstakra ráða um fjáröflun í þessu skyni. Mætti það sízt henda þingið að rasa um ráð fram í slíku stórmáli sem þessu. Vil ég að endingu biðja hv. þdm. að athuga þetta mál sem allra bezt, og ekki sízt fjárhagshlið þess.